138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:16]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa ræðu. Það var náttúrlega átakanlegt að fylgjast með tilraunum þingmannsins þegar hún reyndi ekki af veikum mætti heldur með mjög öflugum hætti að freista þess að sá maður sem ber ábyrgð á þessu frumvarpi við 2. umr., hv. þm. Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar, kæmi hér upp og léti svo lítið og svara einhverjum af þeim spurningum sem við öll höfum borið fram í umræðunni. Þetta er meiri hlutanum í þinginu náttúrlega til vansa og sagan mun á endanum dæma þessa frammistöðu, þessa fáheyrðu frammistöðu stjórnarmeirihlutans í þessari umræðu.

Mig langar að spyrja hv. þingmann út í það sem Sigurður Líndal lagaprófessor hefur látið hafa eftir sér, þar sem hann hefur beinlínis sagt í ræðu og riti að það sé álitamál og mikið vafaatriði ef við göngum hér fram að óathuguðu máli og samþykkjum það frumvarp sem við ræðum hér, Icesave-frumvarpið, að þá séu þingmenn mögulega að ganga gegn ákvæðum íslensku stjórnarskrárinnar.

Við sem erum kjörin á þing sverjum eið að stjórnarskránni þegar við setjumst hér inn í fyrsta skipti. Nú er það svo að menn meta greinilega þann gjörning með mjög mismunandi hætti. Mig langar að vita hvort hv. þingmaður treystir sér til að ganga frá þessu máli ef vafi leikur á því að þingmenn sem sitja á Alþingi gangi gegn sjálfri stjórnarskránni sem þeir hafa skrifað eið að, og hvort ekki sé nauðsynlegt að taka málið í nefnd til að fara yfir þetta álitaefni. Ef þingmenn eru að brjóta gegn stjórnarskrá Íslands, er það að mínu viti grafalvarlegt mál, herra forseti.