139. löggjafarþing — 32. fundur,  22. nóv. 2010.

fjárveiting til meðferðarheimilis í Árbót.

[15:14]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir þetta svar en það svarar náttúrlega því miður samt ekki þeirri spurningu sem var að meginstofni til það sem kom fram í máli mínu.

Það eru auðvitað góðir stjórnsýsluhættir að leita til þeirra aðila sem gerst þekkja til um svona mál eins og ríkislögmaður er. Það hefðu verið góðir stjórnsýsluhættir af hálfu hæstv. fjármálaráðherra að kynna sér það og athuga hvaða afleiðingar svona ákvörðun hefur á ríkissjóð. Eða er það þannig að hæstv. fjármálaráðherra getur, jafnvel þótt það þurfi að leysa einstök mál, opnað ríkissjóð í þessum tilvikum en ekki öðrum? Er það líka svo að fjármálaráðherrar geti bara almennt tekið heilu málaflokkana í gíslingu og nánast sagt hæstv. félagsmálaráðherra sem þá situr hvernig fara skuli með mál?

Ég get með engu móti fallist á að sú aðferðafræði sem þarna hefur verið beitt geti fallið undir góða stjórnsýsluhætti. Ég get fallist á það með hæstv. fjármálaráðherra að mál þurfi að leysa (Forseti hringir.) en það þarf að leysa þau með réttum hætti.