139. löggjafarþing — 32. fundur,  22. nóv. 2010.

AGS og fjármögnun Íbúðalánasjóðs.

[15:19]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það þarf ekki Alþjóðagjaldeyrissjóðinn til, við hljótum sjálf að vilja tryggja að Íbúðalánasjóður hafi fjárhagslega burði til að sinna hlutverki sínu. Áætlun um nauðsynlegar aðgerðir í þeim efnum er í undirbúningi, starfshópur hefur undanfarnar vikur verið að störfum, skipaður fulltrúum fjármálaráðuneytis, félagsmálaráðuneytisins og Íbúðalánasjóðs. Ég geri ráð fyrir að sú áætlun liggi fyrir innan tíðar. Hún verður þá kynnt þinginu og væntanlega teknar inn heimildir í samræmi við hana við lokaafgreiðslu fjárlaga eða fjáraukalaga nú fyrir jól.

Það er afstaða fjármálaráðuneytisins að ekki sé ástæða til að gera jafnríkar eiginfjárkröfur til Íbúðalánasjóðs eðli málsins samkvæmt og eignarhaldsins vegna eins og almennra fjármálastofnana. Það er alveg ljóst í okkar huga að það getur verið fyllilega ásættanlegt að eiginfjármörk Íbúðalánasjóðs séu talsvert lægri og það er visst svigrúm til þess þá að skilgreina það, enda ekki á dagskrá svo ég viti til að gera annað en að starfrækja Íbúðalánasjóð áfram í eigu ríkisins. Þá gegnir að sjálfsögðu nokkuð öðru um það hvernig með eiginfjármörk er farið o.s.frv. Ég geri ráð fyrir því að Fjármálaeftirlitið sé sömuleiðis sammála því mati að Íbúðalánasjóður með sitt sérgreinda hlutverk og með ábyrgðir ríkisins og eign á bak við sig geti vel viðhaft önnur eiginfjárhlutföll en bankar og sparisjóðir eða aðrir slíkir aðilar.

Það hafa verið deilur uppi um fyrirkomulag við íbúðalánasjóði við Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, og þá sérstaklega um ríkisábyrgðarþáttinn á því máli. Þær þarf líka að leiða til lykta með einhverjum farsælum hætti þannig að hægt sé loksins að skapa frið og sátt um stöðu þessa sjóðs. Það er unnið að þeim málum öllum saman.