139. löggjafarþing — 32. fundur,  22. nóv. 2010.

dýpkunarframkvæmdir í Landeyjahöfn.

172. mál
[17:37]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Varðandi „bypass“-búnaðinn svokallaða, fastan dælubúnað, er það mál til skoðunar. Hvað varðar Íslenska gámafélagið er til staðar skip sem getur annað þessu verkefni, sinnt þessu verkefni. Varðandi sundurgreininguna á kostnaði, þar er talað um 130 millj. Kostnaður við að reisa flóðvarnargarð til að breyta rennsli Markarfljóts er áætlaður um 30 millj. kr. og plógurinn sem um er rætt að kaupa í samvinnu við Eyjamenn, ég hygg að þar séu menn að tala um 20 millj. kr. úr ríkissjóði. Mér reiknast það til. Ég þori ekki að fullyrða alveg um þá upphæð sérstaklega.

Menn velta því fyrir sér hvort hér sé verið að berja höfðinu við steininn og reyna að gera hið ómögulega. Það veit ég náttúrlega ekki fremur en nokkur annar maður. Hitt vitum við að við ætlum að reyna að leysa þetta mál. Þetta er gríðarlega mikilvæg samgöngubót fyrir Vestmannaeyinga og fyrir landsmenn alla. Það ber nánast öllum saman um sem til þessara mála þekkja, Vestmannaeyingar og aðrir. Það komu upp á aðstæður sem voru ekki fyrirséðar og við getum ekkert fullyrt um framtíðina hvað það snertir. Við höfum bara viljann til að reyna að takast á við þetta verkefni og leysa það eins vel og við getum. Þegar við tölum um að leysa það til frambúðar horfum við náttúrlega líka til skipakostsins sem við ræðum á eftir, en hvað varðar höfnina sjálfa verðum við að sætta okkur við að taka eitt skref í einu. Við erum að feta okkur áfram og sjá hvort þær lausnir sem við ráðumst í, að fróðustu manna dómi og ráði, dugi. (Forseti hringir.) Það verður reynslan að skera úr um.