139. löggjafarþing — 32. fundur,  22. nóv. 2010.

aðgerðir til að fyrirbyggja tjón á jörðum bænda undir Eyjafjöllum.

170. mál
[18:01]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Herra forseti. Ég held að það sé alveg klárt að við þurfum og munum vinna áfram að því að fara í gegnum þessi mál, reyna að koma til móts við þau vandamál og leysa þau sem þarna gætu verið uppi, a.m.k. eins og nokkur kostur er.

Ég þakka hvatningu hv. þm. Unnar Brár Konráðsdóttur í þessum efnum. Ég hef reynt alveg frá því að gosið hófst að hún er mjög áfram um að þessu máli sé fylgt eftir. Ég mun gera það eins og ég mögulega get.

Það er líka mikill lærdómur sem maður dregur af þessu á ýmsan hátt, t.d. hversu mikilvægur Bjargráðasjóður er. Ég tel að það hafi verið mjög vanhugsað fyrir nokkrum árum þegar sveitarfélögin drógu sig út úr Bjargráðasjóði og hættu að greiða inn í hann. Þá kemur upp úr dúrnum að það verða æ fleiri markatilvik á milli Bjargráðasjóðs sem hefur fyrst og fremst núna landbúnaðarhlutverk og hins vegar þeirra verkefna sem eru á þessum mörkum og tilheyra núna sveitarfélögunum. Ég tel samt að fólkið sem þarna býr og á hlut að máli eigi ekki að gjalda þess. Þess vegna er mjög mikilvægt að þessir aðilar, hvort sem er Bjargráðasjóður, Viðlagatrygging eða aðrir aðilar sem þarna gætu komið að, vinni saman og svo líka þá opinberir aðilar eins og Landgræðslan og Vegagerðin þannig að tekið sé heildstætt á málunum. Ég tek undir hvatningarorð hv. þingmanns og mun beita mér fyrir því að vinnan haldi áfram með þeim hætti.