140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[22:26]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Það er komið að lokum þessarar umræðu, 3. umr. um fjárlagafrumvarp ársins 2012. Það er ekki ætlun mín að lengja hana mikið úr því sem orðið er, aðeins að drepa á nokkrum atriðum sem hafa verið rædd hér í dag og hafa vakið athygli mína.

Það er nú í þriðja skipti sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur leggur fram fjárlagafrumvarp. Á þessu kjörtímabili hafa verið lögð fram þrjú frumvörp eða þrjú og hálft, eins og ég hef áður nefnt, þegar ráðist var í það verkefni sumarið 2009 að reyna að endurskipuleggja ríkisfjármálin og taka upp það fjárlagafrumvarp sem þá var í gildi og reyna að stilla upp á nýtt. Þá var gripið til mikilla aðgerða sem skiluðu ríkissjóði yfir 20 milljörðum á síðari hluta þess árs, ársins 2009.

Umræðan í dag hefur að stærstum hluta verið ágæt og málefnaleg og tekið á mörgum góðum málum. Þingmönnum hefur orðið tíðrætt hér um nokkrar breytingartillögur sem lagðar eru fram af meiri hluta fjárlaganefndar og minni hlutum um ýmis mál. Mest hefur þó verið rætt, samkvæmt mínu bókhaldi, um Fjármálaeftirlitið, fangelsismál, samskipti ríkisins við sveitarfélögin og ASÍ. Margir hafa rætt hér um ASÍ og það hvarflaði að mér um tíma að stjórnarandstaðan hefði fundið sinn andlega og pólitíska leiðtoga í forseta Alþýðusambandsins svo ótt og títt hefur verið vitnað til hans orða og skrifa hér í dag og svo sem ekkert um það að segja.

Nú sem endranær hefur því verið spáð að nái þessi fjárlög fram að ganga muni vondir atburðir gerast á landinu og hrakspár hafa verið hafðar uppi um að nái fjárlagafrumvarpið fram að ganga eins og það lítur út núna, með þeim breytingum sem gerðar hafa verið á frumvarpinu og þeim sem liggja fyrir, muni það leiða til ills fyrir ríkisfjármálin og samfélagið, velferðarkerfið, og það muni veikja grunnstoðir samfélagsins.

Þetta er svo sem ekkert nýtt, þetta hefur verið sagt í þau þrjú skipti sem við höfum verið að vinna að fjárlögum á þessu kjörtímabili, það kemur ekkert á óvart í því. Mig langar í því sambandi að vitna til greinargerðar sem þrír þingmenn sendu frá sér á þessum tíma, þessum dögum, árið 2010, þrír þingmenn úr stjórnarliðinu sem treystu sér ekki til að styðja fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar þá og hafa nú gengið til liðs við stjórnarandstöðuna með einum eða öðrum hætti, m.a. af þeim sökum.

Í greinargerð sem þessir þrír hv. þingmenn, þau Atli Gíslason, Ásmundur Einar Daðason og Lilja Mósesdóttir, lögðu fram vegna hjásetu sinnar við fjárlagafrumvarp ársins 2011 segir meðal annars, með leyfi forseta:

„Kveikjan að upprunalegri yfirlýsingu var hjáseta okkar þremenninganna við lokaafgreiðslu fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2011. Hjásetan skýrist af efasemdum okkar um þá efnahagsstefnu sem birtist í fjárlagafrumvarpinu og þeim viðbrögðum sem þrjár misviðamiklar breytingartillögur við fjárlagafrumvarpið fengu hjá meiri hluta þingflokks VG.“

Áfram segir í greinargerð þingmannanna þriggja, með leyfi forseta, eftir ítarlegan kafla þar sem fjallað er um það að hagvaxtarforsendur séu allar brostnar og búið að skola þeim á haf út:

„Fjárlagafrumvarpið byggir á þeirri forsendu að hagvöxtur verði 3,2% árið 2011 en nú gerir Evrópska hagstofan ráð fyrir að vöxturinn verði ekki nema 0,7%. Samdrátturinn er með öðrum orðum mun meiri en reiknað var með og hröð hjöðnun verðbólgu við slíkar aðstæður er vísbending um að hagkerfið stefni í hraðskreiða niðursveiflu.“

Svo segir í yfirlýsingu þingmannanna þriggja frá því fyrir ári.

Þau bæta við í greinargerð sinni að lokum, með leyfi forseta:

„Litlar líkur eru á að spá um vöxt í einkaneyslu á árinu 2011 muni ganga eftir ef áætlun um niðurskurð ríkisútgjalda á næsta ári verður framfylgt.“

Ég held að ekki þurfi að hafa mörg orð um þær hrakspár sem þarna voru hafðar uppi og ástæður þess að þingmennirnir þrír ákváðu að sitja hjá við afgreiðslu fjárlagafrumvarps yfirstandandi árs. Forsendur ákvörðunar þeirra eru allar brostnar og ekkert hefur gengið eftir sem var spáð að mundi þó gerast og það var ástæða þess að þau gengu úr skaftinu og brast kjark til að takast á við það verkefni sem við erum þó öll að reyna að glíma við með einhverjum hætti.

Með fjárlagafrumvarpinu sem við fjöllum hér um, fyrir árið 2012, eru sett ýmis markmið. Í ágætu riti, sem fylgir því, og heitir Ríkisbúskapurinn 2012–2015, með fallegri mynd af fjalli norður í landi sem heitir Herðubreið, er ítarlega fjallað um þau markmið og þær forsendur sem liggja fyrir fjárlagafrumvarpinu. Samkvæmt mati Hagstofunnar, eins og kemur fram í þessu riti, á frekari lífskjarajöfnun eftir hrun og minni skattbyrði lægstu launa hefur verið staðfest af ýmsum fræðimönnum innan og utan háskólasamfélagsins, innan fjármálaráðuneytisins og hjá ríkisskattstjóra meðal annars, að verulega hafi verið létt á skattbyrði lægstu launa.

Með leyfi forseta, segir í ritinu:

„Til að mynda lækkaði skatthlutfall í tekjuskatti við álagningu 2010 frá því sem það hafði verið 2009 fyrir einstaklinga með árstekjur allt að 5–6 millj. kr. en hækkaði þar fyrir ofan. Þessi lækkun nær til 60–70% allra gjaldenda.“

Þetta eru áhrif af skattbreytingum sem gripið var til strax sumarið 2009 og færðust inn á árið 2010 og hafa verið útfærðar enn síðar og hafa síðan leitt í ljós við álagningu gjalda fyrir árið 2010 að eru að skila enn frekari árangri en þarna kemur fram og búist var við að yrði.

Einnig er gert ráð fyrir því í fjárlagafrumvarpinu að á árinu 2012 komi til framkvæmda ný tenging persónuafsláttar, þ.e. við verðlagsþróun, og við það hækki ráðstöfunartekjur hinna lægst launuðu hlutfallslega mest að sjálfsögðu, enda er það markmiðið með þeim breytingum.

Útgjaldaaukningin á árinu 2011 — sem við byggjum fjárlagafrumvarpið fyrir næsta ár í rauninni á, þ.e. fjárlagafrumvarp 2011 er grunnurinn að því næsta — sem er talsverð á yfirstandandi ári, stafar að langstærstum hluta af um 8,2 milljarða kr. hækkun í bótakerfinu, þ.e. almanna- og atvinnuleysistryggingakerfinu vegna nýrra kjarasamninga, 8,2 milljarða kr. hækkun, 5,5 milljarða kr. hækkun vegna launa ríkisstarfsmanna, 4 milljarða vegna elli- og örorkulífeyrisþega og 2,7 milljarða vegna sjúkratrygginga. Þetta eru ástæður þeirrar útgjaldahækkunar sem hefur orðið á árinu 2011 og svo mjög hefur verið gagnrýnt, bæði í þessari umræðu og að undanförnu, en var að mínu mati algjörlega óumflýjanleg og ekki undan því vikist að grípa til þess á þessum tíma.

Síðastliðið vor voru undirritaðir nýir kjarasamningar milli samtaka launamanna og atvinnurekenda sem eiga að gilda út árið 2013. Síðan þá hafa allflest félög á opinberum vinnumarkaði skrifað undir kjarasamninga sem eru áþekkir þeim samningi. Samningarnir fela í sér meiri hækkun launa í byrjun samningstímans en áður var reiknað með. Á árinu 2011 er áætlað, það er að segja á því ári sem er að ljúka, að laun hafi hækkað um allt að 6% og jafnvel ríflega 6% enda kemur það fram í yfirlýsingum hins nýja leiðtoga stjórnarandstöðunnar hjá Alþýðusambandi Íslands að kaupmáttur launa á árinu sé ekki ástæðan fyrir óróleika á þeim bænum heldur eitthvað annað, einhverjir aðrir hlutir sem eru að trufla jafnvægið á þeim bænum.

Fyrst ég er að nefna þá umræðu sem hér hefur verið um Alþýðusamband Íslands, hótanir Alþýðusambandsins um að slíta kjarasamningum, rifta kjarasamningum ef fjárlagafrumvarpið nær fram að ganga, eins og lítur út í dag, má ræða ýmislegt í þeim efnum eins og ég hef verið að benda á. Það er langur vegur frá því að hægt sé að bera það upp á stjórnvöld, ríkisstjórn eða meiri hlutann á þingi, að verið sé að svíkja samkomulag sem staðið hefur verið að, það er langur vegur frá því. Ég hef farið í mjög grófum dráttum yfir þær aðgerðir sem gripið hefur verið til á árinu varðandi þau mál sem snerta Alþýðusambandið, launafólk, bótakerfið, sem undirstrika að ríkisstjórnin og stjórnvöld hafa staðið við það sem alltaf var lagt upp með í upphafi þessa kjörtímabils að það væru þessir þættir samfélagsins sem yrðu fyrstir til að fá til baka það sem af þeim var tekið í kjölfar hrunsins og óumflýjanlegt var að gera.

Til viðbótar má benda á það sem hér var líka til umræðu í kvöld, og snertir sveitarfélögin að einhverju leyti, þ.e. staða atvinnulausra — ég nefndi í andsvari við hv. þm. Illuga Gunnarsson fyrr í kvöld að sköpuð hafa verið önnur skilyrði en verið hefur mörg undanfarin ár og áratugi. Vegna þeirra fordæmalausu aðstæðna sem upp hafa komið hér á landi, og leiddu meðal annars til aukins atvinnuleysis, hefur verið gripið til ýmissa aðgerða til að bæta kjör atvinnulausra eða atvinnuleitenda, bæði með því að lengja þann tíma sem fólk hefur rétt á að þiggja atvinnuleysisbætur og skapa sér tíma til að leita atvinnu. Atvinnulausum hefur verið skapaður veikindaréttur og frítökuréttur auk þess að fá sambærileg kjör og annað launafólk, t.d. varðandi desemberuppbót, og meðal annars kemur fram í breytingartillögu, sem er nú til 3. umr. fjárlagafrumvarpsins og við erum að fjalla um hér í kvöld, að gripið hefur verið til ýmissa aðgerða sem hafa borið árangur við það að bjóða atvinnuleitendum upp á nám bæði á framhalds- og háskólastigi. Til þess hefur verið kostað talsverðu fé og verið unnið að því í samstarfi við ríkið, Samtök atvinnulífsins, Alþýðusambandið og aðra við að reyna að fara með málin í þann farveg sem hefur að mörgu leyti reynst ágætlega og sjást þess merki í þeim breytingartillögum sem við fjöllum um hér í kvöld.

Við 2. umr. fjárlaga, sem var löng og leiðinleg á köflum og stóð allt of lengi — hefði verið hægt að gera þetta miklu betur eins og hér hefur meðal annars verið rætt um af þingmönnum stjórnarandstöðunnar, og ég get tekið undir það að mörgu leyti að koma þarf betra skipulagi á þá umræðu sem hér fer fram um þetta stóra mál, sem skiptir líklega mestu máli allra þeirra mála sem við fáum hingað inn. En talsvert var rætt um velferðarmálin og hvort vilji væri til þess á milli 2. og 3. umr. að gera breytingar á þeim tillögum sem þá lágu fyrir og voru komnar inn í frumvarpið og mörgum þótti ekki ganga nógu langt. Ég held að ég megi segja að þær breytingartillögur sem liggja nú fyrir, í það minnsta frá meiri hluta fjárlaganefndar, séu allar í þeim anda.

Þar eru meðal annars lagðar til breytingar í þá veru að draga frekar úr aðhaldskröfu á sjúkrastofnanir eins og Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri og Landspítalann. Settir eru umtalsverðir fjármunir í sjóð eða viðbragðspott til að bregðast við því sem hugsanlega kann að koma upp á í rekstri heilbrigðisstofnana á næsta ári og velferðarráðherra mun þá nota til að jafna þann leik ef eitthvað slíkt kemur upp á og settir hafa verið talsverðir fjármunir í að gera samninga um sjúkraflutninga sem hafa verið í uppnámi og skiptir ekki síst máli á landsbyggðinni, m.a. á Suðurnesjum og í Eyjafirði. Með þeim breytingum sem hér er verið að leggja til hefur meiri hluti fjárlaganefndar gert samtals breytingar varðandi heilbrigðisstofnanir og sjúkrahús, sjúkraþjálfun, tannlækningar barna og sjúkraflutninga upp á hátt í milljarð á milli 1. og 2. umr. og síðan aftur milli 2. og 3. umr., þannig að áhersla okkar við fjárlagagerðina, umræðuna í fjárlaganefnd, tillögugerð meiri hlutans og reyndar, að ég held, minni hlutans sömuleiðis, snýr öll að þessum málum meira og minna. Þar liggur hugur og hjarta allar þingmanna eins og reyndar landsmanna allra að gera sem best í þeim efnum þó að óumflýjanlegt sé að grípa þarna inn í eins og víða annars staðar.

Niðurstaðan er þá kannski sú, eins og ég hef áður bent á, að eftir þessa umræðu alla hefur skapast ágæt samstaða í samfélaginu og hér á þingi líka um að verja heilbrigðiskerfið eins og það er, reyna að verja hið opinbera heilbrigðiskerfi þar sem allir eiga jafnan aðgang að þjónustu, reyna að verja menntakerfið eins og mögulegt er, verja velferðarkerfið og búa til velferðarkerfi sem við viljum öll hafa aðgang að og er í þeim anda sem kennt hefur verið við norræna velferð. Ég held að það sé ágætisniðurstaða í sjálfu sér þrátt fyrir allt að við getum þá verið nokkuð sammála um þetta. Ég hef ekki heyrt nokkurn sem komið hefur á fund fjárlaganefndar nefna að þetta eigi að vera með öðrum hætti, það eigi að leggja niður þetta kerfi okkar, setja það í annan farveg, hugsanlega einkavæða eða breyta á einhvern veg, ég hef ekki heyrt nokkurn mann tala um það. Það hefur engin áhersla verið á það í þeim kreðsum, hjá gestum fjárlaganefndar, í það minnsta heldur þvert á móti að reyna að verja það sem fyrir er. Það held ég að okkur hafi tekist allbærilega miðað við þær erfiðu og vondu aðstæður sem íslenskt samfélag er í í dag.

Annað mál sem hér hefur verið nefnt snertir fangelsismál — ég held að flestir þingmenn hljóti að fagna því og ég reikna með því að við það verði víðtækur stuðningur í atkvæðagreiðslu á morgun, þ.e. að við leysum nú loksins úr þeim vanda sem hefur verið viðvarandi hér árum og áratugum saman í fangelsismálum. Nú liggur þó fyrir tillaga um að bætt verði úr því til frambúðar, að ráðist verði í byggingu á nýju fangelsi sem leysi þann vanda sem er fyrir auk þess sem ráðist verði í endurbætur á þeim fangelsisbyggingum sem eru til staðar og þarf að grípa tímabundið til, m.a. á Litla-Hrauni, á Skólavörðustígnum hér í Reykjavík og í Kvennafangelsinu, þar til hið nýja fangelsi verður tekið í notkun.

Ég er ekkert viss um að allir geri sér grein fyrir því um hve stórt mál er að ræða í þessu samhengi. Þetta er gríðarlega stórt mál, þetta er gríðarlegt hagsmunamál, það snertir velferðarkerfið sömuleiðis, þetta snertir þá hugsun einnig hverju við ætlum að ná fram með refsivist í fangelsi, hvort eingöngu er verið að refsa fólki, loka það inni, eða hvort verið er að leita annarra leiða til betrunar og gera þá sem lenda út af brautinni aftur að góðum og nýtum þjóðfélagsþegnum. Þetta er því afar mikilvægt mál og ég fagna því mjög að það sé komið í þennan farveg og hvet þingmenn alla til að styðja það í atkvæðagreiðslu á morgun og þingið verði þá sammála í því að leysa þetta með þessum hætti, ég held að það séu afar mikilvæg skilaboð út í samfélagið sömuleiðis.

Rætt hefur verið um breytingartillögur varðandi Fjármálaeftirlitið sem talsvert hafa verið til umræðu bæði á þinginu og úti í samfélaginu af skiljanlegum ástæðum. Meiri hluti fjárlaganefndar afgreiðir þetta mál að mínu mati ágætlega, þ.e. lýsir þeirri skoðun sinni eindregið við afgreiðslu þessa máls að þetta sé ekki það sem við viljum sjá gerast í framtíðinni og að hér eftir þurfum við að gera þetta öðruvísi. Ég held að ég geti fullyrt að þannig var umræðan í nefndinni og milli nefndarmanna, að það gangi ekki upp að stofnanir, jafnvel mikilvægar stofnanir eins og Fjármálaeftirlitið er, geti ákveðið útgjaldaramma sinn sjálfar og Alþingi geri síðan ekkert annað en að samþykkja hann jafnvel þó að greiðslurnar komi ekki úr ríkissjóði. Einhver borgar að sjálfsögðu og þó að fjármálastofnanirnar greiði þennan reikning vitum við hvar hann endar að lokum.

Ég tel mjög mikilvægt, og veit reyndar að það er eindreginn vilji fjárlaganefndar, að fara frekar í þetta mál, eins og segir í breytingartillögum meiri hlutans, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn telur ástæðu til að beina því til efnahags- og viðskiptaráðherra að fram fari óháð mat á starfsemi Fjármálaeftirlitsins í ljósi þeirrar miklu hækkunar sem orðið hefur á fjárheimildum þess undanfarin ár og í kjölfarið verði lög um starfsemina endurskoðuð gefist tilefni til þess.“

Í þessu felst engin árás á Fjármálaeftirlitið, hvorki varðandi efnahag stofnunarinnar né mikilvægi hennar eða sjálfstæði á nokkurn hátt heldur eingöngu að þessi mál verði að skoða og að við verðum að vanda okkur miklu betur við það, setja þetta í annan og betri farveg en verið hefur. Sú gagnrýni hefur verið uppi, m.a. í rannsóknarskýrslu Alþingis, og þeim rökum hefur verið beitt varðandi rekstur stofnunarinnar að hún hafi ekki fengið nægt fjármagn til að vinna með í aðdraganda hrunsins. Það má vel vera að það sé ein ástæðan. Ef ég man rétt voru framlög til Fjármálaeftirlitsins árið 2007 upp á rúmar 600 milljónir. Þær verða á árinu 2012, nái þessi tillaga fram að ganga, rétt tæpir tveir milljarðar. Það má vel vera að 600 milljónirnar hafi ekki dugað árið 2007, þetta er auðvitað á verðlagi hvers ár og einhver hækkun er þar í gangi sömuleiðis, en ég er ekkert endilega viss um að það hafi verið stærsti vandi okkar heldur miklu frekar hugarfarið og viðhorfið sem endurspeglaðist í samfélaginu öllu gagnvart þeim málum sem þá voru að gerast og meðal annars hjá Fjármálaeftirlitinu. Ég held að það sé ekki síður ástæðan fyrir þeim vanda.

Ein breytingartillaga sem ég vil vekja athygli á hér er sameiginleg tillaga fjárlaganefndar sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Við 6. gr. Við bætist ný málsgrein, er verði 1. mgr., og orðist svo: Liggi fyrir að útgjöld við nýtingu einstakra heimilda samkvæmt greininni fari umfram fjárheimild 09-481 Útgjöld samkvæmt heimildarákvæðum og ekki er gert ráð fyrir útgjöldunum á öðrum liðum fjárlaga skal fjármálaráðherra kynna áformaða nýtingu heimildar fyrir fjárlaganefnd áður en endanleg ákvörðun er tekin um nýtingu hennar. Þeirri kynningu skal fylgja rökstuðningur þar sem m.a. kemur fram hvaða fjárhæðir er um að ræða og hver áhrif eru á fjárlög og efnahag ríkissjóðs.“

Þetta finnst mér góð tillaga. Hún er unnin upp úr tillögu sem fulltrúar Sjálfstæðisflokksins fluttu við 2. umr. í sömu veru og við urðum ásátt um að geyma til þeirrar umræðu sem við stöndum í hér í dag með það að markmiði að ná saman um hana. Ég tel mikilvægt að fjárlaganefnd leggi sig fram um að ná saman um breytingar í þessa veru. Við erum öll sammála um markmið þessarar breytingartillögu, þ.e. að auka aðhald og kalla eftir upplýsingum ef okkur þykir svo, og ég á von á því að fjárlaganefnd muni gera meira af slíku þegar fram í sækir. Ég fagna því að nefndin hafi staðið öll að þessari tillögu sem, eins og ég sagði áðan, er upprunnin úr ágætri og efnislega samhljóða tillögu fulltrúa Sjálfstæðisflokksins hér við 2. umr.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu frekar en orðið er. Mér finnst niðurstaðan af því fjárlagafrumvarpi sem við erum að fara að afgreiða hér á morgun vera góð, mér finnst við vera að ná þeim markmiðum sem við stefndum að og ekki síst kemur það fram í samsetningu þeirra útgjalda fjárlaga, þ.e. samanborið við það sem áður gerðist, að hlutur velferðarkerfisins hefur aukist að útgjöldum, ef við tökum mið af því sem við höfum til skiptanna hefur hlutfallið aukist frá því sem áður var til velferðarmála þrátt fyrir gríðarlega aukningu í vaxtakostnaði, um það bil fjórföldun frá því 2007 til ársins í ár, hafa útgjöld til velferðarmála eins og þau eru skilgreind aukist sem hlutfall af þjóðarframleiðslunni. Það held ég að sé til vitnis um að við séum að ná þeim árangri sem við stefndum að og munum ná á endanum ef við höldum áfram á sömu braut.

Virðulegi forseti. Ég rambaði hér fram og sá að búið var að dreifa svari til þingmanns um fjárlagagerðina sem mér finnst afar gott, ég hvet þingmenn til að kynna sér það og lesa. Þar er farið í ágætu máli og með dæmum yfir það hvernig fjárlagavinna fer fram, hvernig það fer til dæmis fram að draga saman í rekstri einstakra liða og hvað gerist í framhaldinu af því, þ.e. að þá koma inn verðbætur og þess vegna lítur það stundum svo út við fyrstu sýn að útgjöld til einstakra liða sem hækka á milli ára séu kannski ekki að nafnvirði að hækka heldur hafi komið fram aðhaldskrafa og síðan sé tekið tillit til verðlagsþátta og verðbóta — þetta kann að rugla fólk sem þekkir ekki alveg inn á þá vinnu sem hér fer fram. Tekin eru ágæt sýnidæmi í þessu svari sem sýna á mjög einfaldan og þægilegan hátt hvernig þetta gerist og allir ættu að geta haft gagn af því að kynna sér það.

Ég vil að lokum þakka nefndarmönnum í fjárlaganefnd fyrir þá vinnu sem innt var af hendi við vinnslu þessa frumvarps fyrir 2. umr. og 3. umr. — um of fáar tillögur hafa þó allir staðið saman að mínu mati — og þær hugmyndir sem þó eru komnar fram í tillögugerðum frá bæði minna hluta og meiri hluta fjárlaganefndar.

Ég vil einnig færa starfsmönnum fjárlaganefndar á nefndasviði sem og öðrum sem þar hafa komið að máli þakkir fyrir þá miklu vinnu sem þau hafa innt af hendi við að búa málið í þann farveg sem það er í núna og atkvæði verða greidd um á morgun.