143. löggjafarþing — 32. fundur,  4. des. 2013.

sjúkraskrár.

24. mál
[16:18]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þar sem ég var fjarverandi þegar þetta mál var afgreitt út úr nefnd vil ég aðeins gera grein fyrir því. Aðalbreytingarnar felast í því að kveðið er enn skýrar á um og rökstudd málefnalega synjun á aðgengi að sjúkraskrám, hvort heldur eigin sjúkraskrá eða sjúkraskrá látins ættingja, en meginreglan á að sjálfsögðu að vera sú að aðgengi á að vera að eigin sjúkraskrá. Kæruferlið breytist og verður skilvirkara. Landlæknisembættið er endanlegt stjórnsýslustig. Auðvitað eru þó dómstólar möguleiki í framhaldinu.

Miklar og góðar umræður urðu um þetta mál í nefndinni og vissulega var rökstudd krafa um óhindrað aðgengi að sjúkraskrám. Ég tel þó að það geti verið þær undantekningar með hagsmuni sjúklinga í huga sem rökstyðja að hægt sé að neita aðgengi. Og þá er þetta kæruferli mögulegt.

Ég tel þær breytingar sem voru gerðar um leiðbeiningarskylduna og prufugögn í stað raungagna góðar og styð þetta mál.