143. löggjafarþing — 32. fundur,  4. des. 2013.

Orkuveita Reykjavíkur.

178. mál
[16:36]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég tel mjög mikilvægt að enn verði frestað um sinn að lögþvinga Orkuveitu Reykjavíkur inn í aðskilnaðarferli með rekstur sinn og það eigi að nota tímann til endurmats á öllu regluverkinu með tilvísun í undanþáguheimildir ESB. Eigendur Orkuveitunnar voru gagnrýnir á þetta fyrirkomulag þótt þeir hafi, eins og við vorum upplýst um hér, lagst á hnén núna og undirgengist þvinganir ríkisvaldsins. Við vorum upplýst um það í umræðunni í gær að orkuveitur almennt í landinu eða veitustofnanir væru þess fýsandi að Orkuveitu Reykjavíkur yrði gert eins erfitt fyrir og þeim hefði verið gert í rekstri sínum. Með öðrum orðum á jafnræðið að felast í því að gera öllum jafn erfitt fyrir. Hvers konar rugl er þetta eiginlega? Á ekki að hafa hagsmuni notenda og greiðenda að leiðarljósi frekar en þessi sjónarmið?

Eins og hér hefur komið fram munum við í þingflokki VG (Forseti hringir.) sitja hjá við atkvæðagreiðsluna, en það geri ég einvörðungu með þá von (Forseti hringir.) í hjarta að atvinnuveganefnd sjái að sér og (Forseti hringir.) fallist á að fresta þessari framkvæmd um sinn sem allir eru í raun á móti enda stríðir hún gegn hagsmunum notenda.