144. löggjafarþing — 32. fundur,  13. nóv. 2014.

lögreglulög.

372. mál
[12:29]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég kem fyrst og fremst hingað til að taka undir þetta mál og þakka hv. þm. Eyrúnu Eyþórsdóttur fyrir að flytja það. Ég held að það sé mun eðlilegri skipan að lögreglumenn endurheimti verkfallsrétt sinn frekar en að byggja á óbreyttu fyrirkomulagi áfram sem ég held að báðir aðilar, bæði lögreglumenn og viðsemjandi þeirra, geti í sjálfu sér sagt að hafi ekkert gefist óskaplega vel, samanber það sem kom fram í máli flutningsmanns að ekki hefur tekist að ná samningum saman og ágreiningi hefur verið vísað ítrekað til gerðardóms að ósk lögreglumanna sjálfra stundum, en engu að síður hefur gætt óánægju með niðurstöðuna.

Nú liggur það í hlutarins eðli og kom hér vel fram að verkfallsréttur lögreglumanna mundi sæta takmörkunum og nokkuð ljóst að undanþágur yrðu alltaf veittar vegna nauðsynlegustu öryggisgæslu. Það breytir ekki hinu að það þarf sterk rök, ef það er vilji lögreglumanna að endurheimta sinn verkfallsrétt, til að standa gegn því og ég fæ ekki séð þau.

Við getum tekið hliðstæðuna við verkfall sem nú er í gangi, þ.e. verkfall lækna, sem er sömuleiðis stétt sem veit og gengur út frá því að hennar verkfallsréttur sæti talsverðum takmörkunum. Það þarf að halda uppi lágmarksöryggi í heilbrigðisþjónustu og læknar með sinn læknaeið þar ofan í kaupið verða auðvitað sinna því sem snýr að því að bjarga mannslífum og veita nauðsynlegustu bráðaþjónustu.

Mjög hliðstætt er það með lögreglumenn að þeirra verkfallsréttur mundi sæta tilteknum takmörkunum. Sé það engu að síður vilji stéttarinnar að hafa hann þá sé ég ekki með hvaða rökum löggjafinn ætlar að standa gegn óskum um slíkt.

Þannig að mér finnst að afdrif þessa máls hljóti fyrst og fremst að vera í höndum lögreglumanna sjálfra. Ef í ljós kemur við þinglega meðferð málsins að það er almennur vilji meðal lögreglumanna að endurheimta verkfallsréttinn þá beri Alþingi skylda til að afgreiða þetta mál. Einfaldlega vegna þess að það er réttur hverrar stéttar að beita samtakamætti sínum til að knýja á um kjarabætur. Stjórnarskráin og bæði innlend og erlend löggjöf, sem við erum aðilar að, vernda þennan rétt. Ég fæ því ekki séð að Alþingi væri stætt á því að leggjast gegn eindregnum óskum lögreglumanna um að endurheimta verkfallsréttinn.

Það kom margt gott fram hér í framsöguræðunni sem dregur athyglina að því að lögreglumenn eru, eins og því miður allt of margar aðrar stéttir á Íslandi, í þeirri stöðu að grunnlaun, umsamin grunnlaun fyrir fasta reglubundna vinnuviku, eru mjög lág og kjörunum er haldið uppi með mikilli yfirvinnu, miklum vöktum og aukavöktum. Í raun og veru mjög hliðstætt og er með marga lækna svo að ég taki nú aftur þann samanburð. Það hefur orðið umræða um það að læknar hafa birt launaseðla sína fyrir fasta vinnu. Þá hafa menn bent á að læknar eigin þann kost að auka tekjur sínar umtalsvert með því að taka vaktir og vera í tvöfaldri vinnu sem vissulega er rétt og margir grípa til þess ráðs, en það er ekki endilega vegna þess að menn vilji hafa fyrirkomulagið þannig, nema síður sé.

Ég held að markmiðið hér eins og svo víða annars staðar hljóti að vera það að sækja fram með kjarabætur fyrir föst umsamin grunnlaun í hóflegri vinnuviku. Það er mikil meinsemd á íslenskum vinnumarkaði, Ísland sker sig verulega úr hvað það varðar, hve stór hluti af lífskjörunum er byggður upp með langri vinnuviku. Má taka þar margar stéttir sem dæmi. Ef við berum okkur saman við hin Norðurlöndin verður sá munur mjög sláandi. Það eru bara ekki rök sem duga. Það er ekki hægt að sætta sig við að umræðan sé árum og áratugum saman alltaf rekin á þeim forsendum: Jú, jú, grunnlaunin eru mjög lág, en vegna þess að menn geta unnið yfirvinnu eða verið í tvöfaldri vinnu ná menn upp í sæmileg lífskjör með þeim þrældómi. Eða ætlum við að sætta okkur við það að íslenskur vinnumarkaður verði til frambúðar frábrugðinn okkar helstu samanburðar löndum að þessu leyti? En það er hann.

Ég man eftir því, það er ekki svo ýkja langt síðan, að ég var að skoða tölur meðal iðnaðarmanna og bera saman kjör og iðnaðarmanna á Íslandi í tilteknum iðngreinum og í Danmörku. Þá kom í ljós að íslenskir smiðir eða rafvirkjar eða hvað það nú var unnu sléttan mánuð í viðbót á hverju ári borið saman við kollega sína á hinum Norðurlöndunum. Þeir unnu sem sagt aukamánuð, fullan aukamánuð, og voru samt nokkru neðar en þeir í heildarlaunum. Út úr þessu verðum við að komast. Þær stéttir sem vinna vaktavinnu eða vinna fullan vinnudag og taka svo aukavaktir eru auðvitað í sérstaklega erfiðri stöðu í þessum efnum því að þá verður vinnuálagið mjög mikið og hætta á að alls konar fylgikvillar þess, bæði heilsufarslegir og félagslegir, láti á sér kræla.

Það er til dæmis mjög algengt með lækna að þeir vinni fasta vinnu á sínum aðalvinnustað og byggi síðan aukatekjur sínar upp með vöktum sem ekki gefa frí á móti, öfugt við það sem algengt er á hinum Norðurlöndunum, að þeir sem taka vaktir taka vaktirnar út í frídögum. Það er almennt ekki fyrirkomulagið hér heldur er þetta yfirleitt alltaf viðbótarvinna.

Ef lögreglumenn sjálfir líta á það sem betri kost að hverfa frá núverandi fyrirkomulagi og endurheimta verkfallsrétt sinn tel ég mjög mikilvægt að þeir eigi skýlausan rétt á því.

Ég þekki það aðeins af eigin raun sem fjármálaráðherra þess tíma að hafa borið ábyrgð á viðræðum við lögreglumenn. Ég fór ekki varhluta af því að verða var við óánægju þeirra með sín kjör á þeim tíma. Lögreglan hafði að vísu þá staðið í ströngu og erfið ár voru að baki, og kannski ekki alveg að baki þó, en alla vega erfið ár voru um garð gengin. Ágreiningur fór í gerðardóm og niðurstaðan úr þeim dómi, sem þó dæmdi lögreglumönnum allnokkrar kjarabætur, var engu að síður megn óánægja lögreglumanna með ástandið og grípa þurfti til þess að bæta við gerðardóminn til að lægja þær öldur. Ég ætla ekki nánar út í það, en það er til marks um að núverandi fyrirkomulag hefur ekki reynst gallalaust, í raun og veru fyrir hvorugan aðilann, hvorki fyrir lögreglumenn né viðsemjanda.

Auðvitað hlýtur það að vera eðlilegast að sem flestar stéttir hér í landinu og allar þær sem það kjósa búi við sama fyrirkomulag í þessum efnum. Það er jú einu sinni réttur manna að bindast samtökum og nota samtakamátt sinn til þess að knýja á um sín kjör. Það þarf einhver mjög sterk rök til þess að standa gegn því.

Ég mæli með því að hv. þingnefnd taki þetta mál til vandaðrar skoðunar — þetta er mál þess eðlis að Alþingi hlýtur að taka það alvarlega þegar það ber á þess borð — og þingið taki svo afstöðu til þess og afgreiði það og samþykki það ef sú forsenda er uppfyllt að á bak við það sé almennur stuðningur lögreglumanna.