144. löggjafarþing — 32. fundur,  13. nóv. 2014.

lögreglulög.

372. mál
[12:42]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Vissulega hefði hann, ef hann hefði viljað, getað fylgt málinu eftir sem formaður annars stjórnarflokksins á sínum tíma, sitjandi í ríkisstjórn og upplýst nýjan fjármálaráðherra á þeim tíma um stöðu málsins.

Einnig langar mig að spyrja hv. þm. Steingrím J. Sigfússon út í þá staðreynd sem hann nefndi um eftirlaunin. Þetta hefur verið mikið kappsmál hjá lögreglumönnum. Veit hann af hverju þetta náði ekki fram að ganga? Hefði þetta ekki getað liðkað fyrir til þess að efla lögregluna?

Bara til þess að hafa nefnt það hér þá var eitt mikilvægasta atriðið í þessum samningum að auka öryggismál lögreglumanna sem þarf að gera enn. Það er mjög mikilvægt að við förum að vinna að því. Ég hef talað um það áður á þinginu.

Ég ítreka hvort hann hafi fylgt þessu eftir í ríkisstjórninni og upplýst nýja ráðherra um það samkomulag sem var gert og ástæður þess.