146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

dómstólar.

113. mál
[11:07]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á ákvæðum til bráðabirgða í nýjum lögum um dómstóla þess efnis að kveðið verði skýrt á um að nefnd sem starfar samkvæmt 4. gr. a í gildandi dómstólalögum skuli fjalla um umsóknir um embætti dómara við Landsrétt þegar skipað verður í embættin í fyrsta sinn.

Lagt er til að dómnefndin veiti ráðherra umsögn um umsækjendur og að kveðið verði á um að ráðherra sé óheimilt að skipa í dómaraembætti mann sem dómnefndin hefur ekki talið hæfastan meðal umsækjenda, hvort heldur einn eða samhliða öðrum. Þó er gert ráð fyrir að ráðherra geti vikið frá því að skipa þann sem dómnefndin telur hæfastan ef Alþingi samþykkir tillögu ráðherra þar um. Er þetta í samræmi við ákvæði gildandi laga um dómstóla.

Í frumvarpinu eru jafnframt lagðar til breytingar á dagsetningum er varða hvenær vinnu við skipun dómara skuli lokið, skipun forseta Landsréttar og skipun í stjórn dómstólasýslunnar og lagt til að tímabundið verði heimilt að aðsetur Landsréttar verði utan Reykjavíkur.

Allsherjar- og menntamálanefnd ræddi málið ítarlega á fundum sínum, engar umsagnir um málið bárust en nefndin fékk samt sem áður til sín gesti til að ræða jafnréttissjónarmið við dómstóla Íslands og almennt um gagnrýni á fyrirkomulag við skipun dómara. Í því samhengi var m.a. rætt um mat dómnefndar á hæfni umsækjenda um dómaraembætti, kynjahlutfall við dómstóla og hvernig sjónarmið um jafnrétti koma til skoðunar við skipun dómara. Var m.a. rætt um að við skipun dómara verði að taka tillit til stjórnsýslulaga, laga um jafna stöðu kvenna og karla og laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Frú forseti. Meiri hluti nefndarinnar bendir á að hlutverk dómnefndar, sem nú er skipuð fleiri konum en körlum, sé að láta ráðherra í té rökstudda umsögn um umsækjendur um dómaraembætti og taka afstöðu til þess hvaða umsækjandi sé hæfastur til að hljóta embættið. Hafi dómnefnd metið tvo eða fleiri umsækjendur jafn hæfa getur hins vegar reynt á ákvæði laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008. Það er skýrt að þau jafnréttislög gilda þegar búið er að meta hæfi einstaklinganna.

Nefndin ræddi breytingartillögur við frumvarpið og voru nefndarmenn sammála um mikilvægi þess að í dóminn skipuðust bæði karlar og konur en að ekki væri hægt að hrófla við hæfnismati nefndarinnar að svo stöddu heldur skyldi beina því til ráðherra. Meiri hluta nefndarinnar þótti þó ekki ráðlegt að bæta við slíkri málsgrein í dómstólalögin án frekari umsagnar og yfirlegu þar sem það væri þó skýrt nú þegar að ráðherra skuli fara eftir jafnréttislögum ef dómnefnd metur tvo eða fleiri jafn hæfa.

Við ákvörðun ráðherra um skipun dómara leggur meiri hluti nefndarinnar áherslu á að ráðherra hafi að markmiði í því samhengi að kynjahlutföll verði sem jöfnust í hópi skipaðra dómara. Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að taka þyrfti núverandi fyrirkomulag við skipun dómara til endurskoðunar, m.a. með hliðsjón af þessum kynjasjónarmiðum. Meiri hluti nefndarinnar leggur hins vegar áherslu á mikilvægi þess að vinna við skipun dómara við Landsrétt geti hafist svo nefndin fái nægt rými til að vinna að umsóknum sem munu berast og leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.