146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

dómstólar.

113. mál
[15:18]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans þó að ég sé varla sammála einu einasta orði sem hann segir. Í andsvörum hér áðan varð hv. þm. Brynjari Níelssyni tíðrætt um Sameinuðu þjóðirnar. Svo ég vitni aðeins í fyrri ræðu hv. þm. Brynjars Níelssonar um nákvæmlega sama mál um þetta frumvarp þá langar mig, með leyfi forseta, að vitna í orð hans hér sem féllu 7. febrúar þar sem hann segir:

„Það er ekki djúpstæður halli í dómskerfinu og réttarkerfinu. Ég nefni lögreglustjóra, ákæruvald og héraðsdómstóla, þar er orðið talsvert mikið jafnræði, sums staðar held ég að halli á karla ef út í það er farið. Það er ekki djúpstæður halli.“

Samt sem áður kom nefnd Sameinuðu þjóðanna hér á síðasta ári með þau tilmæli til íslenskra stjórnvalda að mikilvægt væri að fjölga konum í lögreglu og í Hæstarétti til að uppfylla skuldbindingar Íslands samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna (Forseti hringir.) um afnám allrar mismununar gagnvart konum. Hún lagði sérstaklega áherslu á að gripið yrði tafarlaust til aðgerða jafnvel sérstakra aðgerða eins og kynjakvóta til að fjölga konum hratt í (Forseti hringir.) dómskerfinu.

Mig langar til að heyra: Hvert er hans álit á þessum tilmælum og hvernig á að gera það?