146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

orkuskipti.

146. mál
[16:52]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir góðar og uppbyggilegar umræður og taka undir með í fyrsta lagi hv. þm. Ásmundi Friðrikssyni sem talar m.a. um styrkingu lagnakerfis fyrir skipin, sem er lykilatriði. Orkuöryggi er sömuleiðis ein af áherslum mínum. Það eru vissulega blikur á lofti, sem hefur svo sem komið fram áður í raforkuskýrslu fyrrum iðnaðarráðherra. Við þurfum auðvitað að gæta að eftirspurninni, þá er ég að vísa í raforku. Það kallar á aukið framboð. Það er kannski stóra málið og ekki hægt að líta fram hjá því. Þetta er svo sem ekki eina atriðið í þeim efnum heldur er kallað eftir auknu framboði víða.

Hér var aðeins minnst á borgarlínu. Það er gott mál. Það er hins vegar ekki í þessu, væntanlega vegna þess að það er á forræði sveitarfélaganna, en eins og öll umræðan hérna hefur sýnt er þetta allt partur af stærri mynd. Ég tek undir með held ég öllum hv. þingmönnum sem hér hafa tekið til máls að þetta er partur af stærri mynd, en þó megum við ekki gleyma því að þetta er aðeins einn partur af þeirri stóru mynd. Við erum með þetta verkefni sem síðan brotnar niður í mörg verkefni og mörg ráðuneyti og margar stofnanir. Þetta verkefni mun aldrei leysa öll þau verkefni sem við þurfum að ráðast í heldur er það einn liður í mörgum.

Hv. þm. Smári McCarthy tók til máls og talaði um framsýni, að við þyrftum að ganga miklu lengra en hér er gert. Atvinnuveganefnd og eftir atvikum umhverfis- og samgöngunefnd getur skoðað það sérstaklega eða haft einhverja skoðun á því, en ég legg áherslu á að þrátt fyrir að vera öll af vilja gerð með framsýni finnst mér mikilvægt að plaggið sé raunhæft, einmitt þannig að það sé líka hægt að leggja áherslu á að unnið sé eftir því. Það er auðveldara að skauta fram hjá því ef áhugi er mismikill hjá stofnunum eða samfélaginu í heild sinni einhvern veginn, ef framsýnin er þannig að það er kannski ekki lengur raunhæft.

Ef við horfum aftur til ársins 1990 og fram til ársins 2030 þá er veruleikinn svo ótrúlega breyttur að þótt við mundum rafvæða allan bílaflotann er það ekki nóg, við þyrftum þá helst að meina öllum þeim ferðamönnum sem hingað vilja koma og skoða landið okkar fagra að keyra bíla, alla vega ef þeir keyra á eldsneyti, sem ég sem ráðherra ferðamála mun vitaskuld ekki leggja til en segi til þess að setja þetta í samhengi.

Ýmislegt sem hérna kom fram snertir síðan loftslagsmálin í heild og þá vinnu sem er í gangi í umhverfisráðuneytinu, þannig að það er mismunandi fyrir hvað ég svara. Oft var umræðan komin út fyrir þetta plagg og þetta verkefni og þá legg ég aftur áherslu á að þetta er aðeins einn liður í því. Þetta eru auðvitað ekki bara umhverfismál heldur er þetta líka efnahagslegt og orkuöryggi skiptir hérna máli. Þetta er líka atvinnuvegamál og nýsköpunarmál, þess vegna er það einnig vistað hjá atvinnuvegaráðuneytinu.

Hv. þm. Logi Einarsson kom inn á þéttingu byggðar. Ég tek undir með honum að það er gott mál, en þar er myndin sem hann dró upp orðin ansi stór. Sú mynd er stærri en þetta mál. Ég tek undir með öðrum hv. þingmönnum, ég er sjálf hrifin af stóru myndinni og áhugavert að ræða hana.

En til að ítreka það geta hvorki bifreiðar né samgöngur í heild sinni verið eina lausnin. Það þarf að vera alveg skýrt.

Ég legg áherslu á að þetta skjal er að sjálfsögðu ekki heilagt. Þetta er lifandi skjal sem mun að öllum líkindum taka einhverjum breytingum í nefnd. Ég er líka sammála því að það sé gott fyrir málið að atvinnuveganefnd sendi það til umsagnar í umhverfis- og samgöngunefnd. Ég held að það gagnist okkur mjög að fá sem flesta að borðinu, kannski sérstaklega vegna þess að umhverfisráðherra á eftir að koma í meira mæli með verkefni sín hingað, sem eru þá verkefni þingsins að sjálfsögðu. Af því að þetta talar allt saman þá hlýtur að vera gott og gagnlegt að umhverfis- og samgöngunefnd fái að fjalla um þetta mál líka.

Ég vil sérstaklega taka undir með hv. þm. Haraldi Benediktssyni þegar hann fjallar um möguleika landbúnaðarins. Ég fagna þeirri hugsun. Hann fjallaði stuttlega um smávirkjanir. Hv. þingmaður er mikill áhugamaður um þær og hefur smitað mig af þeim áhuga. Ég fagna því. Það er góð nálgun og sjálfbær og góð byggðaaðgerð sömuleiðis.

Ég þekki ekki nákvæmlega, af því að það var unnið fyrir mína tíð í ráðuneytinu, hvort eitthvað hafi verið rætt við landbúnaðinn við vinnsluna. Kannski hefði mátt gera meira og betur í því, en það er þá eitthvað sem nefndin getur skoðað. Aftur legg ég áherslu á uppbyggingu innviða í þessu samhengi og mikilvægi dreifikerfis raforkunnar, sem er nefnilega ein af forsendum fyrir orkuskiptum. Við gætum í rauninni ekki uppfyllt allt það sem hér kemur fram með þá stöðu sem er í dag ef ekkert yrði að gert þar.

Þetta samhengi orkuskipta og nauðsynlegrar uppbyggingar á flutnings- og dreifikerfi raforku skiptir miklu máli. Eins og ég sagði áðan er ekki án fullnægjandi flutnings- og dreifikerfis raforku hægt að tala um áform um orkuskipti á landsvísu. Þess vegna, eins og kom mjög skýrt fram í máli allra hv. þingmanna, verður að horfa á þessi mál í samhengi og nálgast þau með ábyrgum hætti til lengri tíma.

Ég ætla líka að taka undir með Gunnari I. Guðmundssyni, hv. þingmanni Pírata, og þær vangaveltur sem hann reifaði varðandi sjávarútveginn og tel að þær hugmyndir og vangaveltur eigi heima í nefndarvinnunni.

Að lokum ætla ég að segja að ég sé ekki betur en við höfum í þinginu alla burði til að nálgast þetta mál með uppbyggilegum hætti.