146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

fullgilding fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Georgíu.

177. mál
[17:21]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður nefnir gríðarlega mikilvæga hluti sem eru mannréttindi. Bara svo það sé sagt þá uppfylla þau lönd sem við eigum viðskipti við, jafnvel mjög mikil, ekki þau skilyrði sem við gerum þegar kemur að mannréttindum. Það held ég megi segja að sé almenna reglan. Þó að um sé að ræða misalvarleg mannréttindabrot mundum við samt sem áður ekki sætta okkur við slíkt hér. Ef mann fara á Amnesty-síðurnar og skoða lönd í Evrópu og Evrópusambandinu, þá er þar víða pottur brotinn, þó að ég voni að það sé nú ekki eins og þau tilfelli sem hv. þingmaður vísaði í hér. Það sama á við um mörg lönd, auðvitað ekki öll, en mörg lönd sem eru lengra frá okkur.

Þá er það spurningin: Hvernig nálgast menn það? Við Íslendingar getum gert ákveðna hluti. Númer eitt þá getum við sýnt gott fordæmi, sem ég held að sé lykilatriði. Í öðru lagi getum við talað fyrir þessum málum á alþjóðavettvangi. Það er nokkuð sem ég hyggst gera og mun gera eftir nokkra daga á þar til bærum vettvangi. En síðan er það spurningin: Eigum við að reyna að auka samskipti milli þeirra landa sem við erum ósátt við varðandi mannréttindamál, eða eigum við að minnka þau? Ég held að almenna reglan sé sú að því meiri samskipti sem við eigum við þjóðir þeim mun meiri líkur eru á því að við getum borið út þær hugmyndir sem við stöndum fyrir og erum sammála um. Það er ekki þannig að öll þau ríki sem við gerum fríverslunarsamninga við (Forseti hringir.) séu nákvæmlega á þeim stað sem við vildum sjá varðandi þá málaflokka sem hv. þingmaður nefndi.