150. löggjafarþing — 32. fundur,  14. nóv. 2019.

orðspor Íslands í spillingarmálum.

[10:37]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Einstökum svona málum? Við erum á tíu árum búin að upplifa eitt efnahagshrun og ítrekaðan ímyndarvanda vegna spillingar og aðgerðaleysis stjórnvalda. Ég skal nefna Vafningsmálið. Ég skal nefna lekamálið, Orku Energy, Landsréttarmálið, Panama-skjölin, gráa listann sem við sitjum núna á og svo auðvitað Samherjaskjölin. Mér þykir vænt um að heyra að hæstv. ráðherra ætli að tryggja allt fé til þess að upplýsa um þetta. En mér finnst með ólíkindum að fjármálaráðherra landsins og fyrrverandi forsætisráðherra komi hér upp og drepi málinu á dreif með því að ásaka einn stjórnmálaflokk um að taka málið alvarlega. Við erum að tala um kerfisbundna mynd á síðustu tíu árum og það vill svo ótrúlega til að Sjálfstæðisflokkurinn hefur alltaf verið í nágrenni við þau mál.