150. löggjafarþing — 32. fundur,  14. nóv. 2019.

umsvif Samherja og veiðigjöld.

[10:53]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Já, þetta er allt saman gott og blessað og ærið fróðlegt ef landsbyggðin er öll í rúst en á sama tíma lýsir hv. þingmaður því yfir að fólkið flýi höfuðborgina unnvörpum af því að það hafi ekki efni á því að búa þar. Hvar í ósköpum býr þessi 360.000 manna þjóð ef hún getur hvorki búið á landsbyggðinni né í höfuðborginni? Ég bið um aðeins skýrari nálgun á þetta efni næst þegar við ræðum þá hluti.

Ef mér misheyrðist ekki tók ég eftir því í fyrri ræðu hv. þingmanns að hún talaði um að við hefðum breytt lögunum í þá veru að lækka veiðigjöldin, sem er ekki rétt. Hún játaði það hins vegar með réttu að lögin hefðu átt að vera öðruvísi en þau eru. Það er alveg hárrétt, um það voru skiptar skoðanir. Niðurstaða okkar hér í þessum sal, lýðræðislega fengin, var á þann veg að færa áhrif stjórnmálanna lengra frá ákvörðun um veiðigjöld og láta þau taka betur mið af afkomu útgerðar hverju sinni.