150. löggjafarþing — 32. fundur,  14. nóv. 2019.

spilling.

[11:27]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Einhverra hluta vegna sjáum við sífellt ráðamenn rekast á hagsmunaveggi án þess að átta sig á því. Tökum dæmi. Ráðherra hittir hákarla og forstjóra óvart á skrifstofu Samherja og hringir í forstjórann til að spyrja hvernig honum líði. Samt hefur hann engin afskipti haft af fyrirtækinu í 20 ár. Ráðherra segist vera sinn eigin maður en mætir með reglugerð Hvals hf. í ráðuneytið. Ráðherra segist ætla að stíga til hliðar þegar málefni Samherja koma á hans borð en þegar í ljós kemur að Samherji er með hærri hlut aflaheimilda en leyfilegt er samkvæmt lögum, hvað gerir ráðherra þá? Hann skipar starfshóp. Stígur hann til hliðar? Nei, aldrei, af því að ráðherra er sinn eigin maður sem á erfitt með að greina á milli þess hvort hann sé að tala við vin eða stærsta hagsmunaaðilann á málefnasviði hans.

Hvernig dettur okkur í hug eftir öll þau spillingarmál sem eru búin að koma upp á undanförnum árum að þetta sé bara tilfallandi vandamál, einstakt óheppilegt dæmi þar sem útgerð lenti óvart í spillingu, því að annars hefði einhver annar gert það? Við verðum að vakna af þessum þyrnirósarsvefni af því að spillingin, frændhyglin, er nornin okkar. Í tilviki sjávarútvegsráðherra veit ég ekki hvort er verra, að hann hafi verið misnotaður til að bæta ásýnd Samherja eða hvort það hafi verið viljandi. Ásýnd um traust og ábyrgð skiptir nefnilega máli.

Auðvitað er eðlilegt að ráðherra stígi til hliðar í þessum málum í það minnsta því að það safnast þegar saman kemur, sérstaklega á reikningum aflandsfélaga, svo vísað sé til sameiginlegs vandamáls Samherja og Panama-skjalanna. Hvar var rannsóknin þá, virðulegi forseti?