150. löggjafarþing — 32. fundur,  14. nóv. 2019.

spilling.

[11:38]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Það er voðalega þægilegt að koma í seinni part umræðunnar vegna þess að þá hafa meginlínurnar svolítið komið fram. Þessi umræða hefur verið góð og á fullan rétt á sér í ljósi þess sem verið hefur í gangi síðustu daga og ég heyri að við hér erum sammála um að sú mynd sem dregin var upp af fyrirtækinu Samherja fyrir tveimur dögum lítur alls ekki vel út. (Gripið fram í.) Okkur er mörgum brugðið.

Það sem skiptir máli hér hjá okkur er að ná að aðgreina hvað er hvers. Hlutverk okkar hér er að setja lög, eins og hv. þm. Helga Vala Helgadóttir fór ágætlega yfir, það er okkar hér að setja rammana. Við höfum gert margt. Hæstv. forsætisráðherra taldi það upp í ræðu sinni í byrjun hvað hefur verið gert og hvernig umgjörðin lítur út í dag. Er nóg gert? Nei, augljóslega ekki og þessi vinna mun halda áfram. Ég held að henni ljúki aldrei vegna þess að alltaf koma upp nýjar áskoranir sem Alþingi þarf að bregðast við til að þróa lagaumgjörðina sem fyrirtækjum og öðrum ber að starfa eftir.

Ábyrgð allra fyrirtækja er skýr. Það er fyrst og fremst að fylgja lögum og jafnframt að sýna samfélagslega ábyrgð og iðka siðferði í gegnum alla sína starfsemi. Það er svo þar til bærra yfirvalda að rannsaka mál sem upp koma eins og það sem við erum að ræða hér í dag og annarra jafnframt að dæma, ekki okkar hér. Þess vegna þurfum við að fara varlega. (Forseti hringir.) Rannsókn er hafin á þessu tiltekna máli. Dómur er ekki fallinn, við skulum bíða og sjá hverju fram vindur áður en við höfum um þetta stór orð. Okkar hlutverk hér er þó skýrt, það er að bæta lagaumgjörðina um þessi mál.