151. löggjafarþing — 32. fundur,  7. des. 2020.

umhverfismál.

[15:27]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Hv. þingmaður kom m.a. inn á stjórnsýslu í loftslagsmálum og nefndi óraunhæfar spár sem ólíklegt væri að myndu ganga eftir. Þessu er ég algjörlega ósammála. Vissulega hefur verið gerð úttekt á stjórnsýslu í loftslagsmálum sem sá sem hér stendur bað nú reyndar um að yrði gerð og er það vel. Við höfum ekki eingöngu ráðist í að stórbæta þá innviði sem þegar eru til staðar í loftslagsmálum, m.a. með því að auka fjármagn til stofnana okkar til að takast á við þau verkefni sem þau eiga að sinna í loftslagsmálum, hvort sem það er í rannsóknum, í bókhaldi eða á öðrum sviðum. Við höfum stóreflt mannafla í ráðuneytinu til að takast á við loftslagsmál. Við höfum sett á fót nýja skrifstofu sem snýr sérstaklega að loftslagsmálum í ráðuneytinu og aðra skrifstofu sem ætlað er að samþætta alþjóðamál og önnur brýn umhverfismál líkt og loftslagsmálin.

Síðan talar hv. þingmaður um óraunhæfar spár í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum. Þær eru ekki óraunhæfari en svo að helstu sérfræðingar landsins í loftslagsmálum eru þau sem hafa sett þessar spár fram með okkur og unnið þær með okkur. Sú gagnrýni er þá ekki bara gagnrýni á ríkisstjórnina heldur er hún gagnrýni á það fagfólk sem vinnur með okkur að þessum spám. Sú spá sýnir fram á að við munum ná meiri árangri en núverandi skuldbindingar okkar gefa til kynna. Heildstæð sýn í loftslagsmálum er til staðar hjá þessari ríkisstjórn. Hún er að ná kolefnishlutleysi árið 2040 og hún er að standast Parísarsamkomulagið eins og áætlanir okkar gera ráð fyrir að verði.