152. löggjafarþing — 32. fundur,  2. feb. 2022.

um fundarstjórn.

[15:35]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég er hingað komin enn á ný til að þrábiðja forseta um að aðstoða Alþingi við að standa vörð um virðingu þingsins. Hingað hef ég komið ítrekað síðustu daga og bent á að stjórnvöld eru vísvitandi að neita þinginu um gögn sem því eru nauðsynleg til að sinna lagaskyldu sinni við afgreiðslu umsókna um ríkisborgararétt sem beint er til Alþingis. Öll allsherjar- og menntamálanefnd þingsins sendi samhljóða kröfu til stjórnvalda fyrir áramót um afhendingu gagna og vinnslu þeirra. Hæstv. forsætisráðherra hefur lýst yfir vilja sínum til að aðstoða við þetta mál og sömuleiðis aðrir. Staðan er sú að frá því að beiðni var send frá þinginu, á grundvelli laga um þingsköp Alþingis, hefur ekkert gerst. Útlendingastofnun hefur ekkert gert. Hún hefur ekki unnið eina einustu umsókn í margar vikur frá því að farið var fram á að þessar umsóknir yrðu unnar. Hún heldur áfram að koma með tillögur að því hvernig verklagið eigi að vera, (Forseti hringir.) eftir hennar höfði. Það hefur ekkert gerst. Því bið ég eina ferðina enn, ég grátbið forseta um að aðstoða okkur í þessu máli.