152. löggjafarþing — 32. fundur,  2. feb. 2022.

um fundarstjórn.

[15:53]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég kem hingað upp aðeins til að leiðrétta það sem fram kom varðandi nálarauga Útlendingastofnunar. Það er skýrt í lögum hvað þarf til til þess að fá ríkisborgararétt með stjórnvaldsákvörðun. Það er ekki nálaraugað, það er bara alveg skýrt afmarkað hvað það er. Ef við viljum breyta því þá breytum við því með lögum. Það er það sama sem hér er uppi á teningnum. Ef ráðherra vill breyta því að Alþingi eigi að veita ríkisborgararétt með lögum þá þarf að breyta því með lögum. Við þurfum bara að fara að lögum. Það er ekkert kannski. Við verðum að fara að lögum og við verðum að gefa Alþingi tækifæri til að framfylgja lögum. Ég ítreka það sem ég hef áður sagt: Ég hvet hv. allsherjar- og menntamálanefnd til þess að leggja nú inn auglýsingu í fjölmiðla og lýsa eftir þeim umsóknum sem þegar hafa borist og óska eftir að umsækjendur sem sendu inn umsóknir skili þeim beint til Alþingis því þetta fyrirkomulag er með öllu óboðlegt.