152. löggjafarþing — 32. fundur,  2. feb. 2022.

styrkir til rekstraraðila veitingastaða sem hafa sætt takmörkunum á opnunartíma.

232. mál
[16:53]
Horfa

Ágúst Bjarni Garðarsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna og get tekið undir ýmislegt sem þar kom fram. Eins og hv. þingmaður nefndi voru gerðar góðar breytingar á frumvarpinu sem eru til bóta. En við erum enn, eins og kom reyndar fram í umfjöllun nefndarinnar, með þessa fjölbreyttu flóru fyrirtækja sem hafa þurft að taka skellinn með ólíkum hætti, hafa verið undir takmörkunum, þeim hefur verið gert að stytta opnunartímann, taka á móti færri gestum, hólfaskipta og allt slíkt. Svo erum við með ákveðna tegund fyrirtækja sem hafa hreinlega þurft að loka, skella í lás. Hv. þm. Jóhann Páll Jóhannsson kom inn á það í ræðu sinni áðan að við værum að þessu til að verja störf, og í umfjöllun nefndarinnar var tekin umræða um að greiða hlutfall af föstum kostnaði sem gæti þá ýmist verið þinglýstur leigusamningur, hiti, rafmagn og önnur leyfisgjöld, greiðslur sem hægt væri að treysta með sannanlegum hætti. Hv. þingmaður nefndi hér að við værum að þessu til að verja störf en í einhverjum tilvikum, eins og ég nefni hér, hefur þurft að loka starfsemi, þar hefur bara ekki verið nein starfsemi og erfitt að verja störfin. Er þingmaðurinn ekki sammála mér, þarf ekki að bregðast sérstaklega við því í öðrum úrræðum sem við erum með til skoðunar?