152. löggjafarþing — 32. fundur,  2. feb. 2022.

styrkir til rekstraraðila veitingastaða sem hafa sætt takmörkunum á opnunartíma.

232. mál
[17:15]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Þetta er mikilvægt mál, mikilvægt vegna þess að aðgerðir stjórnvalda til að takast á við faraldurinn kalla auðvitað á viðbrögð, aðgerðir, en engu að síður vekur það mjög stórar og áleitnar spurningar. Til að mynda er það áminning um hversu mikil óvissa hefur verið ríkjandi í því með hvaða hætti stjórnvöld hafa nálgast þetta viðfangsefni. Þar hefur viðvarandi óvissu verið viðhaldið, ekki hvað síst fyrir litlu fyrirtækin, fólkið sem rekur þau, og var nú margt hvert lent í basli með að fást við kerfið löngu áður en faraldurinn hófst vegna sífellt aukins íþyngjandi regluverks og aukins kostnaðar en lendir svo í algerri óvissu með framtíðarekstrarhorfur, og ekki bara rekstrarhorfur heldur rekstrarmöguleika fyrirtækja sinna. Meira að segja hæstv. fjármálaráðherra hefur gagnrýnt eigin ríkisstjórn fyrir að hafa ekki meiri framtíðarsýn, meiri fyrirsjáanleika hvað aðgerðir varðar og þetta er orðið sérstaklega áberandi núna síðustu daga, síðustu fáeinar vikur jafnvel. Það virðist vera mjög lítið samhengi milli þess hvernig faraldurinn þróast, milli árangurs af sóttvörnum og svo þeirrar stefnu eða þeirra reglna sem gilda hverju sinni. Þetta breytist ótt og títt og virðist oft á tíðum sveiflast eftir umræðu í samfélaginu, eftir því hvað menn eru að gera í öðrum löndum að einhverju leyti en líka bara eftir því hverjir það eru sem vildu halda tónleika á tilteknum tíma eða hversu margir leyfa sér að gagnrýna stefnu ríkisstjórnarinnar. Gagnrýni var nú ekki vel þegin í umræðu um þennan málaflokk framan af. Við sjáum það núna að það virðist sveiflast býsna hratt hvaða leið ríkisstjórnin vill fara til að takast á við faraldurinn og þar virðist hún vera að elta fremur en að leiða, elta umræðuna, telur sig þurfa að bregðast við henni fremur en að leiða og hefur dregist aftur úr nágrannalöndunum þrátt fyrir að það sé rétt að geta þess að hér náðist mikill árangur í sóttvörnum og mikil samstaða meðal þjóðarinnar. En það var ekki vegna stefnufestu ríkisstjórnarinnar í málinu. Það var vegna þess að Íslendingar sameinuðust um að gera það sem þurfti til að ná tökum á þessum vanda, þessum faraldri, en þó auðvitað á þeim forsendum sem voru lagðar til grundvallar í upphafi. Nú virðist stefna ríkisstjórnarinnar sveiflast mest eftir umræðunni. Það er ekki góð og ekki þægileg staða fyrir fólk sem er að reyna að reka lítil fyrirtæki. Jú, að vísu hefur það þann kost að menn sjá kannski að það hefur einhver áhrif að reyna að hafa áhrif á umræðuna, að það sé leiðin til að setja mark sitt á stefnu ríkisstjórnarinnar, en aðgerðir eru engu að síður það tilviljanakenndar og oft á tíðum, eða stundum skulum við segja a.m.k., þversagnakenndar að það er mjög erfitt að gera þær ráðstafanir sem þarf varðandi starfsmannahald og jafnvel varðandi spurninguna um hvort það taki því að halda áfram rekstri fyrirtækis.

Þetta er eitt, frú forseti, sú viðvarandi óvissa sem er ein og sér mjög dýr. En svo er það hin hliðin. Annars vegar er það mikla tap sem fyrirtækin og samfélagið verða fyrir vegna óvissunnar en hin hliðin er tap sem verður til vegna þess að nauðsynlegt reynist að ráðast í hinar ýmsu aðgerðir og það er það sem ég vildi ræða hér í seinni hluta ræðunnar. Mér hefur þótt algjörlega skorta þessi tvö ár sem við erum búin að vera að takast á við þennan faraldur að því sé svarað: Hvernig er þetta fjármagnað? Hvernig ætlum við að standa undir því til lengri tíma að skuldir ríkissjóðs hafa aukist mjög snögglega og mjög umtalsvert og þær þarf að greiða til baka? Við vorum mjög vel í stakk búin, íslenskt samfélag, til þess að takast á við þennan vanda, betur í stakk búin efnahagslega en líklega flest önnur lönd, en það er til komið vegna stórra efnahagslegra pólitískra aðgerða sem ráðist var í sem umbyltu stöðu ríkissjóðs til hins betra. Núverandi ríkisstjórn hefur frá upphafi, raunar frá því áður en faraldurinn hófst, nýtt þessa stöðu til þess að útdeila fjármagni. En það vantar algjörlega upp á að ríkisstjórnin sýni hvernig á að viðhalda verðmætasköpuninni, hvernig á að búa til meiri verðmætasköpun til að niðurgreiða skuldir og halda úti velferðarkerfinu, ekki hvað síst heilbrigðiskerfinu, sem eins og við sjáum á áhrifum faraldursins virðist ekki mega við miklum skakkaföllum.

Í stað þess að stuðla að verðmætasköpuninni sem þarf í samtímanum eða til framtíðar hefur þessi ríkisstjórn stækkað báknið jafnt og þétt. Það kom nýverið fram að á síðasta kjörtímabili hefði opinberum störfum fjölgað um 9.000 en fækkað í einkageiranum um hátt í sömu tölu. Ég geri ekki lítið úr því að flest opinber störf eru gríðarlega mikilvæg samfélaginu. En til þess að geta staðið undir þeim, til að geta staðið undir því að greiða launin fyrir þessu störf og helst auðvitað sem best laun, þarf ríkið að hafa tekjur af starfsemi einkageirans. Þarna hefur orðið til gríðarlega mikil skekkja í stjórnartíð þessarar ríkisstjórnar með hreint ótrúlegum vexti í opinbera geiranum hjá ríkinu og sveitarfélögum en fækkun starfa í einkageiranum. Það virðist nánast vera sama hvernig efnahagsástandið er, hvernig sveiflurnar í því eru hverju sinni, þessi ríkisstjórn stækkar bara báknið. Ef það er niðursveifla þá stækkar hún báknið. Ef það er uppsveifla þá stækkar hún báknið. En hún hefur líka þvælst fyrir verðmætasköpun í einkageiranum á fjölbreytilegan hátt með sífellt nýju regluverki. Við sjáum það nú á nýjustu þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar að það sem stendur upp úr þar er meira íþyngjandi regluverk, innleiðing á fleiri flóknum reglum fyrir fyrirtækin að fást við, hindranir gagnvart því að stofna eða reka fyrirtæki á Íslandi og aukin útgjöld. Það eru nýjar stofnanir en mjög lítið um það með hvaða hætti eigi að búa til verðmæti til að standa undir þessu. Í því efni bregst ríkisstjórnin ekki við, ekki frekar en í sóttvarnamálunum nema hún upplifi pressu til þess. Það er ekkert frumkvæði, það er engin sýn.

Nýjasta dæmið er umræðan um orkumálin sem tengjast þessu máli beint vegna þess að orka er undirstaða verðmætasköpunar í landinu og við þurfum verðmætasköpun til að fjármagna þetta. En allt í einu hafa ráðherrar eða þykjast ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa uppgötvað að það stefni í orkuskort og það þurfi að framleiða meiri orku, það þurfi að virkja meira. Þetta er eins og ég segi algjörlega ný uppgötvun að því er virðist því að á þessu sviði hefur ríkisstjórnin ekki sýnt nokkurn einasta áhuga sem heitið getur frá því hún tók til starfa og raunar frekar þvælst fyrir mikilvægri orkuöflun. Nýjasta dæmið um þetta viðhorf birtist í fyrrnefndri þingmálaskrá þessarar ríkisstjórnar þar sem þriðji áfangi rammaáætlunar er boðaður, og hvenær? Síðasta daginn sem ríkisstjórnin getur samkvæmt þingsköpum lagt fram mál án þess að fá til þess undanþágu. Síðasta daginn. Það er með öðrum orðum ekki mikil áhersla á að leysa þetta stóra vandamál sem meðferðin á rammaáætlun er orðin, þvert á móti á að koma með þetta hér inn þegar mönnum má vera ljóst og er ljóst — þetta eru ekki allt saman nýgræðingar í stjórnmálum — að það verði mjög erfitt og mjög ólíklegt að málið klárist hér í þinginu.

Stór tækifæri til verðmætasköpunar á Íslandi eru vanrækt. Ég nefndi hér fyrr í dag í störfum þingsins mál sem má alveg setja í samhengi við þetta, mikilvægi þess að við Íslendingar búum til meiri verðmæti til að geta bætt lífskjör á Íslandi, að einn af þessum möguleikum eru hugsanlegar olíulindir en þó sérstaklega gaslindir í efnahagslögsögu Íslands. Það höfðu komið fram mjög jákvæðar vísbendingar um að olíu og sérstaklega gas kynni að vera að finna á Drekasvæðinu í vinnanlegu magni og hefði orðið af þessum framkvæmdum á sínum tíma hefði það umbylt efnahagslífi á Íslandi en þó sérstaklega atvinnulífinu og uppbyggingu á Norður- og Austurlandi. Vegna tímabundins ástands í norskum stjórnmálum hvarf þáverandi ríkisstjórn Noregs frá þessu verkefni og íslenska ríkisstjórnin lét sér bara vel líka. En hvað er að gerast núna í Noregi? Fyrir fáeinum dögum voru gefin út 53 ný leyfi til olíu- og gasvinnslu í norskri lögsögu. Íslenska ríkisstjórnin kynnir hins vegar á sama tíma áform sín um að banna rannsóknir á þessu, ekki bara vinnslu heldur rannsóknirnar líka. Það segir kannski sína sögu um tíðarandann og nálgun þessarar ríkisstjórnar á rétt og rangt, á skynsemi eða skort á skynsemi, að það skuli beinlínis vera lagt í það að banna rannsóknir. Ef til vill eru menn hræddir um að ef rannsóknir gæfu jákvæða niðurstöðu þá myndi það auka óskir um að nýta þessa auðlind sem nágrannar okkar nýta til að bæta stórkostlega lífskjör í sínum löndum.

Svo er það þróun efnahagsmálanna almennt sem er ekki hægt að slíta úr samhengi við það mál sem við ræðum hér, stöðu fyrirtækjanna. Nú loksins er hættan á vaxandi verðbólgu, áframhaldandi vexti verðbólgu, að komast inn á radar þessarar ríkisstjórnar. En viðbrögðin eru engin. Svörin eru engin. Það er hins vegar haldið áfram að nálgast hlutina á þann hátt sem hefur líklega frekar ýtt undir verðbólgu en hitt. Báknið heldur áfram að stækka. Það er bent á það núna af hálfu einhverra ráðherra að hugsanlega sé húsnæðisliðurinn vandamál í verðlagsvísitölunni. Þetta máttu þeir vita fyrir mörgum árum síðan. Þingmenn Miðflokksins bentu ítrekað á þetta, þingmenn annarra flokka, stór hluti verkalýðshreyfingarinnar. En hver voru viðbrögðin af hálfu þessarar ríkisstjórnar við slíkum ábendingum? Ýmist að hæðast að þeim eða að fella slík mál hér í þinginu. Nú allt í einu fæðast menn nýir hvað þetta varðar eins og á svo mörgum öðrum sviðum og þykjast hafa áhyggjur af þessu og vera með eitthvert frumkvæði á því sviði. Þetta er reyndar mjög keimlíkt mörgum öðrum málum, t.d. samgöngumálum. Allt í einu eru haldnir kynningarfundir um áform um að leggja Sundabraut. Menn taka sér reyndar mjög góðan tíma í það og stefna að því að klára það verkefni einhvern tíma á næsta áratug. En þetta er ekki í fyrsta skipti sem þessi ríkisstjórn talar um Sundabraut og áform um að eitthvað kynni að vera gert í því. En hver var raunin? Raunin hefur verið sú að ríkisstjórnin, samgönguráðherrann auðvitað ekki hvað síst, hefur ítrekað látið Reykjavíkurborg plata sig í þessu mikla umbótamáli á sviði samgangna og mörgum öðrum. Það var um tíma og er kannski enn orðið nánast þannig eins og samgönguráðuneytinu þáverandi, hvað sem það heitir núna, væri stýrt úr Ráðhúsi Reykjavíkur. Það birtist m.a. í furðulegu fyrirbæri sem fékk nafnið samgöngusáttmáli þar sem ríkið borgaði upphaflega 50 milljarða, fyrsta greiðsla, í svokallaða borgarlínu án þess að hafa hugmynd um, eins og komið hefur fram, m.a. frá hæstv. fjármálaráðherra, hver rekstrarkostnaðurinn yrði og hversu mikið af honum myndi lenda á ríkinu eða hver heildarkostnaðurinn við framkvæmdirnar yrði. En í svona verkefni setur þessi ríkisstjórn tugi milljarða og tugi milljarða í mjög óljósar aðgerðir í loftslagsmálum sem erfitt er að rökstyðja að muni hafa veruleg áhrif en hins vegar mjög veruleg áhrif, augljóslega, til þess að draga úr verðmætasköpun í samfélaginu og úr lífsgæðum. Þannig er því bara lýst, frú forseti, í loftslagsáætlun stjórnvalda. Það þurfi minni neyslu, það þurfi hærri refsiskatta. Í slíka hluti eyðir ríkisstjórnin, ekki í það sem getur verið til þess fallið að auka verðmætasköpun í landinu.

Svoleiðis að úrræðaleysið er ráðandi en að því marki sem ríkisstjórnin ræðst í aðgerðir eru þær til þess fallnar að stækka báknið, það er ráðist í óhagkvæmar framkvæmdir. Sjáum bara sem dæmi muninn á hagkvæmni Sundabrautar eða borgarlínu. Ef ráðist yrði í Sundabraut af krafti í stað borgarlínunnar myndi munurinn þar á, ef þetta væri spurning um annaðhvort eða, sem vissulega er, nema hundruðum milljarða. Í staðinn byggist þetta allt á einhverri sýndarmennsku eins og þessum höfuðborgarsáttmála þar sem borgin telur sig ekki hafa neina skyldu til að standa við sín fyrirheit, hafandi auðvitað komist upp á lagið með það að geta gengið á lagið gagnvart ríkisstjórninni, vegna þess að formenn skipulagsráðs Reykjavíkur hafa einfaldlega sagt það, án viðbragða frá ráðherrum, að nei, það sé ekkert víst að farið verði í þær framkvæmdir í samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu sem ríkisstjórnin ætlaði að borga fyrir að fá að fara í. En jafnvel þar hefur verið þvælst fyrir og það hefur verið þvælst fyrir Sundabraut í gegnum skipulag Reykjavíkurborgar, enda hafa fleiri en einn og fleiri en tveir borgarfulltrúar meiri hlutans í Reykjavík lýst yfir efasemdum um að sú framkvæmd eigi yfir höfuð að eiga sér stað. En ríkisstjórnin telur sig engu að síður greinilega getað platað kjósendur endalaust, rétt eins og borgin getur platað ríkisstjórnina endalaust og kemur með nýjar kynningar á því að jú, það standi til að gera þetta allt saman, á næsta kjörtímabili eða þarnæsta eða eftir tíu ár o.s.frv.

Þetta er allt á sömu bókina lært, frú forseti. Þegar við ræðum mál eins og þetta hér, mikilvægt mál til að koma í veg fyrir annars óhjákvæmilegt tjón á atvinnulífi Íslendinga, þá ætti það að vera okkur áminning um mikilvægi þessa atvinnulífs og mikilvægi þess að líta lengra en bara til þessa máls og þeirrar reddingar sem í því felst og miða þá að því að bæta rekstrargrunn þessara fyrirtækja, möguleika þeirra á því að starfa hér og möguleika nýrra fyrirtækja á því að verða til. Í þessu frumvarpi felst jú ákveðin viðurkenning. Það er ekki hægt að líta öðruvísi á það. Í því felst ákveðin viðurkenning á mikilvægi verðmætasköpunar í einkageiranum og þess vegna þurfi ríkið að greiða peninga í að halda henni gangandi. En ætti sú viðurkenning ekki líka að fela í sér einhverja sýn, einhverjar hugmyndir um hvernig við getum viðhaldið og aukið þessa verðmætasköpun þegar til lengri tíma lætur?