152. löggjafarþing — 32. fundur,  2. feb. 2022.

styrkir til rekstraraðila veitingastaða sem hafa sætt takmörkunum á opnunartíma.

232. mál
[17:34]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Ég kem hingað upp til að lýsa yfir stuðningi við þetta mál, ekki af því að mér finnist það endilega svo svakalega frábært heldur af því að ég tel að það sé einn steinn á þeirri leið að standa með þeim aðilum sem hafa orðið fyrir áföllum og tjóni vegna ástandsins sem skapaðist út af kórónuveirunni. Við erum að afgreiða mál á hraðferð, það er búið að fresta gjalddögum. Nú er verið að tala um að vinna með veitingageirann. Við höfum verið að horfa á lokunarstyrki og aðra viðspyrnustyrki þannig að það er ýmislegt í farvatninu og í bígerð sem hugsanlega getur að einhverju leyti hjálpað til við að bæta það mikla tjón sem orðið hefur. Mér þótti, sem fulltrúa í efnahags- og viðskiptanefnd, sárt að hlusta á fulltrúa veitingageirans lýsa þeirri stöðu sem þeir væru í, og það gerðu þeir í janúar þegar þeir voru í raun að segja að þeir ættu ekki fyrir mánaðamótunum og gætu ekki borgað laun, voru að biðla til okkar að reyna að klára málið í janúar. En það var engin leið til þess að gera það og við fengum síðan ábendingar um að frá því að aðgerð af þessu tagi er samþykkt og þar til hægt er að sækja um þurfa að líða a.m.k. þrjár vikur. Síðan á eftir að vinna málið frekar og gaumgæfa allar þær umsóknir sem berast. Þrátt fyrir að við teljum að við séum að bregðast hratt við, og kvörtum oft yfir því að við séum að gera hlutina á hálfgerðu hundavaði, þá eru þeir sem vænta þess að fá aðstoð að óska eftir því að hlutirnir gerist hraðar en við höfum talið mögulegt.

Við erum auðvitað í þeirri stöðu að þetta Covid-ástand hefur valdið miklum skaða hjá ákveðnum hópum en aðrir standa tiltölulega vel og jafnvel betur en áður. Við þurfum að sýna samfélagslega ábyrgð alla leið í þessu máli, að samfélagið standi með bæði fyrirtækjum og fólki sem hafa þurft að taka á sig verulegar byrðar vegna faraldursins. Ég er ekki búinn að sjá hvaða viðspyrnustyrkir verða settir í gang en við þekkjum svo sem ýmislegt sem var til staðar á síðasta ári. Mörg okkar gerðu athugasemdir við það að í fjárlagafrumvarpinu skyldi ekki hafa verið gert ráð fyrir öllum þeim vinnumarkaðsúrræðum sem til staðar voru á árinu 2021. Nú erum við strax í janúar að fara að breyta því fjárlagafrumvarpi sem við samþykktum fyrir hálfum mánuði eða þremur vikum. Mér þótti það því afar sérstakt að þessi úrræði skyldu ekki hafa lifað af áramótin sem þau sannarlega þurftu að gera. Í mínu sveitarfélagi, þar sem atvinnuleysi er 10%, var svo sannarlega nauðsyn á því að þessi úrræði myndu lifa. En gott og vel, þau gerðu það ekki og það er verið að endurvekja þau á þennan hátt. Vonandi náum við utan um flesta þá sem á þurfa að halda. En það hefur líka verið bent á að þetta nær ekki utan um alla. Það eru alltaf einhverjir sem falla milli skips og bryggju og við þurfum að hafa manndóm í okkur til að huga að þeim hópum og taka utan um þá með einhverjum hætti.

Hér í pontu hefur verið minnst á íþróttafélög sem hafa lifað á því að aðsókn sé á leiki, og ég nefni körfuboltann og handboltann sem dæmi. Þeim félögum gengur illa að reka sig og eru mörg komin að fótum fram. Það þarf að horfa til þessara hópa. Það var nefnt í fréttaviðtali að hálfur milljarður væri að koma inn í menningarmálin. Ég hef ekki séð útfærslu á því og tel rétt að kalla eftir því að fá að sjá hvað á að gera fyrir þann hóp. Margir listamenn eru í verulegum vanda og margt tæknifólk er úti á markaðnum sem einyrkjar. Þegar ekki er haldin sýning fær fólk ekki borgað. Þetta eru oft og tíðum einyrkjar með tiltölulega lág laun og falla ekkert endilega undir þau úrræði sem verið er að leggja til. Ég hvet til þess að við reynum með einhverjum hætti að líta til þessara hópa þannig að við komum öll standandi út úr faraldrinum. Við þurfum að sýna mannúð í þessu, það er ekki nóg að gefa bara einhver fyrirmæli heldur þurfum við að horfa á þetta með hjartanu og reyna að halda hvert utan um annað þannig að fólk komi eins lítið skaðað frá ástandinu og hægt er.

Mig langar líka að nefna atvinnulaust fólk sem er vissulega hluti af þeim vanda sem hefur verið til staðar í tvö ár. Margir misstu vinnuna þegar WOW fór á hliðina fyrir 2019, þannig að margir hópar hafa verið atvinnulausir allan þann tíma. Við erum með stutt atvinnuleysisbótatímabil, það stysta á þessari öld. Það var lengt í hruninu en svo var það stytt aftur og langt niður fyrir það sem það hafði verið fyrir hrun. Margir eru því dottnir út af atvinnuleysisskrá og hafa engin önnur úrræði en að leita til sveitarfélaga um framfærslu. Eins má horfa á hið tekjutengda tímabil atvinnuleysisbóta, eða atvinnuleysistrygginga — ég lít á þetta sem tryggingar. Við erum að borga tryggingagjald af laununum okkar og því er ætlað að tryggja fólk fyrir þeim skaða að vera svipt atvinnu sinni. Þetta er í raun trygging sem fólk er búið að borga og á að fá það bætt með einhverjum hætti. Það er því hægt að horfa til alls konar úrræða, ekki bara gagnvart fyrirtækjum heldur líka gagnvart því fólki sem hefur starfað innan fyrirtækjanna sem hafa orðið fyrir skaða.

Virðulegur forseti. Ég hef ekki meira um málið að segja að sinni. Ég mun styðja þetta mál og vona að við komum því hratt og vel frá. Ég ætla hvorki að ræða borgarlínu né Sundabraut núna.