152. löggjafarþing — 32. fundur,  2. feb. 2022.

skaðabótalög.

233. mál
[18:25]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi það að bótakrafan sé skilin frá er stutt svar við því: Nei, ég hef ekki mikla reynslu af því. Mig minnir þó að það hafi verið þannig í þeim málum þar sem sýknað var í héraði og þau fóru svo til Landsréttar að bótakrafa fylgdi ekki endilega með, mögulega er það misminni hjá mér. En nei, ég hef ekki reynslu af því að það væri verið að skilja einkahlutann mikið frá.

Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni um að það sé einmitt mikilvægur punktur að á toppi kerfisins fáist betri innsýn í það hversu ólík málin eru, sérstaklega þegar sían er svona mikil, að dómarar sjái það rétt eins og saksóknarar, verjendur, réttargæslumenn, lögmenn og starfsfólk í heilbrigðiskerfinu að það er mikil breidd í þessum málum. Varðandi síu ákæruvaldsins má það vel vera. Ég vil þó halda því til haga að ég held að stærstu sveiflurnar innan réttarkerfisins séu einmitt þær — það er náttúrlega enginn að tala um að minnka sönnunarbyrði en sýn fólks á því hvenær brot telst sannað hefur breyst með tímanum. Ef við myndum taka lengri tíma undir þá vitum við að árið 1990 komu öðruvísi nauðgunarmál fyrir dóm en gera í dag, árið 1970 var munurinn enn þá meiri. Við sjáum raunar á þeim rannsóknum sem hafa verið gerðar, ég hef sjálf unnið að einni slíkri, að það voru langtum ofbeldisfyllri mál sem leiddu til ákæru fyrir einhverjum áratugum síðan heldur en í dag. En ég hef líka upplifað merkilega breytingu hvað það varðar að það eru líka öðruvísi mál sem verða að kæru til lögreglu. Það er jákvætt vegna þess að þolendur standa með sjálfum sér og koma ekki bara til lögreglu með algerlega augljóst mál þar sem allar utanaðkomandi aðstæður eru þannig að við blasir hvað gerðist.