153. löggjafarþing — 32. fundur,  16. nóv. 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu Íslandsbanka.

[15:05]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Kristrúnu Frostadóttur fyrir hennar innlegg í þessa umræðu. Hún spurði mig hvort það væri einhver prinsipp og hvort þetta snerist allt um einhverja pólitíska leiki. Þá vil ég upplýsa hv. þingmann um það að það er svo sannarlega ekki pólitískur leikur að koma með 600 milljarða inn í ríkissjóð á sínum tíma í formi stöðugleikaframlaga. Það er ekki pólitískur leikur að setja á fjármagnshöft til að tryggja hagsmuni Íslands. Það er ekki pólitískur leikur að segja nei við Icesave. Það sem við höfum verið að gera á síðustu átta árum er að tryggja hagsmuni Íslands númer eitt, tvö og þrjú. Eitt af því sem gerist í þeirri vegferð og þegar stöðugleikaframlögin komu inn þá fengum við Íslandsbanka þar inn og nú er búið að selja yfir 100 milljarða að jafnvirði og koma því í verð. Og hvað erum við að gera við þessa fjármuni? Jú, við erum að styðja við heilbrigðiskerfið, við erum að styðja við menntakerfið og menninguna. Þetta er ekki pólitískur leikur. Og af því að hv. þingmaður spyr út í þetta og er að tala um ákveðin prinsipp þá fullyrði ég að ef þetta hefðu ekki verið Framsóknarflokkur, Sjálfstæðisflokkur og Vinstri græn þá hefði þetta aldrei tekist. Aldrei.