153. löggjafarþing — 32. fundur,  16. nóv. 2022.

hæfi ráðherra við sölu á hlut í Íslandsbanka.

[15:18]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir spurninguna. Ég tek undir að ég kannast ekki við að það sé fjallað um þetta hæfi varðandi söluna.

Hann spyr hvort við séum öll af vilja gerð til að kanna þetta mál til hlítar. Að sjálfsögðu erum við það. Ég hef sagt það víða og stend við það alveg eins og ég stend hér í dag, að það skiptir auðvitað öllu máli að traust ríki þegar við erum að meðhöndla eignir ríkissjóðs Íslands, vegna þess að eignir ríkissjóðs Íslands eru eignir almennings í landinu. Ég hef líka sagt að það skipti máli að þetta taki allt sinn tíma. Það var engin óskastaða, bæði í fjármálahruninu og þegar við vorum að klára þessa hluti, að ríkissjóður fengi alla þessa banka. En það var mun betra að gera það þannig en að þeir væru í eigu erlendra kröfuhafa sem hefðu getað farið út í gegnum gjaldeyrismarkaðinn með sínar krónueignir. Þá hefði verið mjög erfitt á gjaldeyrismarkaði. Af hverju er ég að segja þetta? Vegna þess að það skiptir líka máli að við höfum fengið þessar eignir og erum að koma þeim í verð. Aðferðafræðin skiptir máli. Það gekk mjög vel með fyrsta hluta sölunnar.