153. löggjafarþing — 32. fundur,  16. nóv. 2022.

söluferli Íslandsbanka.

[15:29]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Eins og hv. þingmaður veit þá er Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands að skoða söluna og það hefur auðvitað komið hér fram, bæði í gær og í dag. Ég held að við séum öll sammála hér inni um að það er mjög brýnt að fá fram það álit, eða þá athugun öllu heldur, og svo setjumst við auðvitað niður og skoðum framhaldið.

Af því að hv. þingmaður fór aðeins að minnast á fortíðina og sagði að það væri kannski ekki mjög heppilegt þegar ráðherrar væru að gera það — en þegar við erum að fjalla um þessi mál þá skiptir auðvitað líka máli af hverju viðkomandi eignir eru komnar inn og hvað við gerum við þær og af hverju við erum yfir höfuð að ræða þetta. Ég tel að sú leið sem farin var, að ná í þessi stöðugleikaframlög og að selja þennan hlut í Íslandsbanka til að styðja við velferðarkerfið okkar, fjárfesta í heilbrigðiskerfinu og menntun, skipti gríðarlegu máli.