Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 32. fundur,  16. nóv. 2022.

Niðurstöður nefndar sem skipuð var til að greina áfallastjórnun íslenskra stjórnvalda í Covid-19 faraldrinum, munnleg skýrsla forsætisráðherra .

[16:27]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir það tækifæri að fá að flytja hv. Alþingi stutta úttekt úr þessari skýrslu sem unnin var á vegum stjórnvalda en var unnin af sjálfstæðri úttektarnefnd sem skipuð var Ásthildi Elvu Bernharðsdóttur, dósent við Háskólann á Bifröst, sem leiddi nefndina, Guðnýju Björk Eydal, prófessor við Háskóla Íslands, og Trausta Fannari Valssyni, dósent við Háskóla Íslands. Í júní 2021 lagði ég fram tillögu í ríkisstjórn um mikilvægi þess að framkvæma úttekt á því hvernig til hefði tekist í baráttunni við heimsfaraldur kórónuveiru. Mér fannst mikilvægt að hefja þessa vinnu strax þó að faraldrinum væri ekki lokið til að fá sem besta mynd í rauntíma af atburðarásinni. Á þeim tíma var raunar enn óljóst hvernig þessi faraldur myndi þróast og því ljóst að öll þekking sem varð til jafnharðan og mat á reynslu myndi gagnast stjórnvöldum bæði til skemmri tíma en ekki síður til lengri tíma.

Ég þarf ekki að rifja upp hér öll þau gríðarlegu samfélagslegu áhrif sem þessi faraldur hafði. Ég held að hann sé okkur öllum enn í fersku minni. Ég taldi mjög mikilvægt að það yrði leitast við að fá fræðilegt mat á viðbrögðum stjórnvalda, það snýst auðvitað ekki bara um ríkisstjórnina heldur líka um sveitarfélögin í landinu, snýst um Alþingi og snýst um ólíkar stofnanir samfélagsins. Verkefnið tók aðeins lengri tíma en stóð til upphaflega. Það kemur kannski ekki á óvart því það reyndist umfangsmeira en gert var ráð fyrir og eins stóð náttúrlega faraldurinn lengur en nokkurt okkar vildi. En hér er komin þessi skýrsla og í stuttu máli sagt þá var höfundum falið að greina hvernig undirbúningi stjórnvalda, í þeirri víðtæku merkingu sem ég nefndi hér, var háttað, hvernig ákvarðanatöku var háttað, hvernig upplýsingum var miðlað, hvernig reynslan var nýtt. Enn fremur hvaða lærdóm mætti draga af viðbrögðum stjórnvalda sem gæti nýst til stefnumótunar vegna annarra áfalla og eins var sérstaklega óskað eftir því að nefndin fjallaði um helstu samfélagslegu áhrif faraldursins. Í erindisbréfinu voru tilgreind nokkur lykilatriði, þ.e. hvernig stefnan var mótuð, hvaða hæfni var til staðar, hvernig samvinna milli ráðuneyta og stofnana gekk, hvernig upplýsingamiðlun var háttað.

Þetta er ekki nefnd sem er sett á fót með lögum og það er mikilvægt að halda því til haga, og af þeirri ástæðu var það ekki hlutverk hennar að rannsaka og taka afstöðu til einstakra aðgerða, samninga eða ákvarðana. Til þess þyrfti annan og skýrari lagagrundvöll. En ég er hins vegar þeirrar skoðunar að þessi skýrsla sé alveg gríðarlega gott gagn til lærdóms og undirbúnings fyrir framtíðina.

Við greiningu sína byggði nefndin á sérstakri aðferðafræði sem viðurkennt er að nýta við að greina áfallastjórnun og þau útskýra þá aðferðafræði ágætlega í skýrslunni. Í því felst að hún horfir aðallega til kerfisins og viðbragða sem gripið er til þegar áfall í líkingu við heimsfaraldur ríður yfir samfélagið, hvaða áskoranir mæta þeim sem stýra þessum viðbrögðum og samhæfa þau og hvort kerfið virki sem skyldi. Þau taka það mjög skýrt fram í formálanum að það ber að líta á úttektina sem þátt í undirbúningi fyrir næstu áföll og draga lærdóm.

Þá um helstu niðurstöður. Ég myndi telja þessar niðurstöður koma ágætlega út fyrir okkur öll að því leytinu til að áfallastjórnun gekk vel. Bent er á að traust hafi verið mikið á yfirvöldum fyrir það að grípa til viðeigandi aðgerða. Sérstaklega er rætt um traust á þríeykinu, almannavarnakerfið í samvinnu við íslenskt heilbrigðiskerfi, þanið til hins ýtrasta en stóðst prófið með miklum ágætum. Hvar sem borið er niður í greiningu blasir við mikið og óeigingjarnt vinnuframlag, einbeiting og samstaða. Ég get tekið undir það sem aðili sem auðvitað var í þessari vinnu allri, mér finnst það fólk sem stendur vaktina daglega innan okkar viðbragðskerfis, ef svo má að orði komast, og þar er ég sérstaklega að vitna í almannavarnir og heilbrigðiskerfi en við getum líka tekið það breiðar og rætt um skólana okkar, félagslega þætti, sambýli, hjúkrunarheimili, öldrunarstofnanir. Það var gríðarlega mikið og óeigingjarnt vinnuframlag á öllum þessum stöðum fyrir utan, eins og kemur fram í þessari skýrslu, hvað forsvarsmenn fyrirtækja og stofnana voru reiðubúnir nánast vikulega að endurskipuleggja starfsemi sína til að geta tekist á við sóttvarnaaðstæður.

Í stuttu máli sagt vil ég nefna að þegar skoðaðar eru dánartölur þá kemur Ísland vel út. Hins vegar sjáum við það líka að vegna sóttvarnaaðgerða þá fækkaði í raun og veru dauðsföllum líka af öðrum orsökum af því að samgangur manna á milli var minni en ella. Um leið sjáum við það núna, af því að þessi veira er ekki farin, hún er hér enn í samfélaginu og það er sama þróun og við sjáum annars staðar á Norðurlöndum, að það eru enn þá dauðsföll af völdum Covid í samfélaginu okkar og víðtæk smit þó að eðli faraldursins hafi breyst og eðli veirunnar hafi breyst.

Ég fer þá yfir helstu þætti. Það er fjallað um traust og mannauð og ég nefndi það hér áðan að innviðir reyndust vera góðir. Mikil fagleg geta, fagþekking og fagleg geta íslensks heilbrigðisstarfsfólks sé mikil og það hafi lagt fram sitt óeigingjarna framlag sem og aðrir framlínustarfsmenn í grunnþjónustu. Það er fjallað sérstaklega um faglega getu og framlag Íslenskrar erfðagreiningar sem hjálpaði íslenskum sóttvarnayfirvöldum að leggja vísindalegan grundvöll að mati á útbreiðslu og eðli smita og sóttvarnatakmörkunum. Það er fjallað um samhæfingu og samstarf stjórnkerfisins og heildarmat nefndarinnar er að almennt hafi samhæfingin gengið vel og verið í samræmi við lög. Það er farið yfir þátt ríkisstjórnar, fjölda funda ríkisstjórnar og ráðherranefnda þar sem staða faraldursins var til umræðu og aðgerðir honum tengdar og allan þann fjölda starfs- og stýrihópa sem voru að störfum. Ég get kannski ekki sagt að það sé skemmtilestur að fara yfir þetta en í raun og veru merkilegt að lesa þetta yfirlit því þetta er alveg ótrúlegur fjöldi ákvarðana, minnisblaða og fólks sem var að vinna í þessu.

Á því tímabili sem greining nefndarinnar tekur til hélt ríkisstjórnin samtals 190 fundi og var faraldurinn viðfangsefni á flestum þessara funda. Þau mál voru einnig til umræðu á tveimur þriðju allra funda í ráðherranefnd um ríkisfjármál og ráðherranefnd um samræmingu mála, en 200 fundir voru í þessum tveimur ráðherranefndum á því tímabili sem nefndin skoðaði.

Síðan er fjallað um þau mál sem ráðherrar lögðu fyrir Alþingi og fjallaði um afgreiðslu þeirra eftir atvikum. Nefndin bendir á að samhæfing á landsvísu hafi verið virk og upplýsingafundir og miðlun upplýsinga hafi verið árangursrík. Þríeykið fær mikið hrós, sem þau eiga skilið, fyrir miðlun upplýsinga og meðal þess sem lagði grunn að góðum árangri að mati nefndarinnar var samstarf almannavarna og sóttvarnakerfisins og að sóttvarnalæknir hefði unnið áætlanir og undirbúið viðbrögð með almannavarnakerfinu.

Það er ágætt að rifja það upp að árið 2008 tók gildi fyrsta heildstæða viðbragðsáætlunin við heimsfaraldri vegna inflúensu og á næstu árum þar á eftir voru einnig settar aðrar viðbragðsáætlanir um viðbúnað vegna farsótta og annarra sýkinga. Þessar viðbragðsáætlanir höfðu umtalsverða þýðingu þegar á reyndi þó að bent sé á það í skýrslunni að fyrirliggjandi áætlanir hafi ekki tekið nægilegt mið af mikilvægri félagslegri opinberri grunnþjónustu. Meginþýðing þessa undirbúnings var sú að helstu viðbragðsaðilar voru viðbúnir, þekktu þau úrræði sem hægt var að grípa til og samskiptaleiðir voru opnar. Nefndin telur að árangurinn sýni að undirbúningurinn skipti öllu og það sé mjög mikilvægt að nota reynsluna núna til þess að fara yfir allar þessar viðbragðsáætlanir. Síðan er fjallað sérstaklega um mannauðinn sem hafi verið lykilatriði.

Nefndin telur ekki tímabært að draga endanlegar ályktanir um samfélagsleg áhrif en greiningin bendi til eftirfarandi: Almennar mótvægisaðgerðir stjórnvalda um efnahagsleg úrræði og aðgerðir eins og að halda skólum opnum og frístundastarfi í gangi og leyfa útiveru þrátt fyrir ríkjandi samkomubann hafi haft mjög mildandi áhrif hérlendis. Stjórnvöld hafi brugðist við með skýrum hætti þegar sett voru félagsleg viðbragðsteymi og með því hafi verið betur náð utan um viðfangsefni sem varða ýmis félagsleg viðfangsefni. Það virðist vera sem svo að stjórnvöld hafi verið virk í að leggja mat á og bregðast við mögulegum neikvæðum afleiðingum faraldursins fyrir viðkvæma hópa. En hins vegar er minnt á langtímaáhrif, t.d. hvað varðar sorg þeirra sem misstu aðstandendur eða nána ættingja í þessum faraldri við mjög sérstakar aðstæður þar sem ekki var hægt að vera við dánarbeð og útfarir voru með mjög sérstökum hætti. Það er auðvitað eitthvað sem ég held að reyni gríðarlega á og gefi fólki ekki þetta svigrúm til þess að lifa sorgina.

Það reyndi gríðarlega mikið á velferðarþjónustu sveitarfélaga og nefndin tók sérstaklega fyrir stjórnsýsluaðgerðir Reykjavíkurborgar, samhæfingu innan Reykjavíkurborgar og samskipti við önnur stjórnvöld. Hún sýnir glögglega mikilvægi þess að gert sé ráð fyrir þjónustu sveitarfélaga í löggjöf um almannavarnir og hún sé hluti af öllum viðbragðsáætlunum. Hér er um afar mikilvæga ábendingu að ræða, hvernig við getum betur horft til allra þeirra ólíku aðila sem sinna velferðarþjónustu, sérstaklega á sveitarstjórnarstiginu, og viðbragða þeirra á neyðartímum. Það er enn fremur bent á að skynsamlegt væri að rannsaka áfallastjórnun í ólíkum sveitarfélögum — hér er eingöngu fjallað um Reykjavíkurborg — til að öðlast gleggri þekkingu á henni. Eins og við þekkjum eru sveitarfélögin gríðarlega mikilvægur aðili, þau reka nærþjónustu, leik- og grunnskóla, frístundastarf, þau reka sums staðar hjúkrunarheimili, eru með umönnun fyrir aldraða, fatlaða og börn, og félagsþjónustu, þannig að þetta er auðvitað algjör lykilaðili í öllum viðbrögðum við svona faraldri. Þarna er greinilega tækifæri til að draga lærdóma og formfesta betur hlutverk sveitarfélaga varðandi velferðarþjónustu á viðsjárverðum tímum.

Nefndin setur fram fjölda ábendinga sem eiga að nýtast okkur til að meta úrbætur í löggjöf, skipulagi og verklagi. Utanríkisþjónustan, svo ég nefni hana, gegndi mjög mikilvægu hlutverki í faraldrinum varðandi ferðaleiðbeiningar, aðstoð við Íslendinga erlendis, samskipti við önnur ríki og nefndin bendir á að betur mætti skilgreina og samhæfa skipulag viðbragða í utanríkisþjónustu og svo almannavarnaviðbragða innan lands. Nefndin telur enn fremur að huga verði að því að skýra lagaákvæði um stöðu sóttvarnalæknis gagnvart landlækni og heilbrigðisráðherra. Þar sem frumvarp til sóttvarnalaga er hér til umfjöllunar á Alþingi þá vona ég að það sé hægt að nýta þessa vinnu við umfjöllun um lögin. Þau benda á mikið flækjustig á reglugerðum og breytingareglugerðum ráðherra um opinberar sóttvarnaráðstafanir. Ég hugsa að við höfum öll, meira að segja við hér á Alþingi og ríkisstjórn, stundum lent í því að vera óviss um hvaða reglur væru nákvæmlega í gildi innan dyra sem utan dyra við ólíkar aðstæður.

Nefndin ræðir hlutverk Alþingis og það er eitthvað sem við getum svo sannarlega velt fyrir okkur og ég vísa aftur til þess að frumvarp til nýrra sóttvarnalaga er til umfjöllunar hér á þinginu. Það er bent á að upplýsingar bárust úr allmörgum áttum til sveitarfélaga og mælt er með því að það verði skoðað að skilgreina betur tengiliði innan sveitarfélaganna við almannavarnakerfið þannig að það séu skýrar upplýsingar og engin óreiða á því hvaðan upplýsingar eru að berast og um hvað.

Svo er það samhæfing velferðarþjónustu og almannavarnaviðbragða sem ég nefndi hér áðan, sem ég tel mjög góða ábendingu. Það þarf að skoða sérstaklega viðbrögð við fjölgun tilkynninga um heimilisofbeldi. Við fórum í það verkefni að ráðast í aukinn stuðning við t.d. Kvennaathvarfið, en við þurfum að meta árangur af þeim aðgerðum sem stjórnvöld réðust í. Enn fremur tel ég að það væri skynsamlegt að bera þetta saman, því þetta var eitthvað sem var rætt alls staðar á alþjóðavettvangi, hvort þetta birtist með ólíkum hætti eða hvort þetta var bara nákvæmlega sama þróun alls staðar. Svo er það sem ég nefndi hér áðan, þau sem misstu ástvini. Hér kemur fram ábending um það að fólk missti ástvini við mjög sérstakar aðstæður og það er mikilvægt að við tökum tillit til þess með einhverjum hætti.

Ég held að okkur sé öllum ljóst, frú forseti, að það er ekki ósennilegt að við munum þurfa að takast á við annan heimsfaraldur. Eins held ég að síðustu ár sýni að það eru margar ógnir sem geta steðjað að samfélagi okkar sem kalla á sterka innviði, bæði hinar áþreifanlegu og hinar óáþreifanlegu. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við nýtum svona skýrslu til þess að velta fyrir okkur og taka til skoðunar hvað við getum gert betur í að efla hvort tveggja.

Nefndin setur líka fram gagnlegar ábendingar um frekari rannsóknir sem mætti ráðast í, t.d. hvernig fólk í viðkvæmri stöðu upplifði aðgerðir stjórnvalda. Við getum til að mynda nefnt þau sem ekki hafa íslensku að móðurmáli. Þau nefna líka hlutverk þriðja geirans og hvort möguleiki væri að kanna hans hlutverk betur.

Í stuttu máli vil ég segja það, frú forseti, að forsætisráðuneytið mun taka upp viðræður við einstök ráðuneyti um þær ábendingar og þau úrbótatækifæri sem nefndin setur fram. Í framhaldi af því verður unnin samræmd aðgerðaáætlun sem verður unnið eftir á vettvangi Stjórnarráðsins og í samstarfi við sveitarfélög og aðra aðila eftir því sem við á.

Ég vil að lokum þakka nefndinni fyrir að vinna þessa skýrslu með mjög svo vönduðum hætti og vil að síðustu segja það, af því að við vorum hér að ræða fjölþáttaógnir áðan og ræddum þar bæði hina áþreifanlegu og hina óáþreifanlegu innviði, að ég held líka að þessi skýrsla minni okkur á styrkleika umhyggjuhagkerfisins, þ.e. allra þeirra mikilvægu starfa sem eru unnin í samfélaginu, fyrst og fremst af konum, hvort sem er í félagslega kerfinu, menntakerfinu eða heilbrigðiskerfinu, sem við sjáum að standa svo sterkt í gegnum þennan faraldur. Ég tel að einn af lærdómunum sem við getum dregið af þessu, og ég ætla að leyfa mér að segja það og þetta er auðvitað mín ályktun og ég ætla ekkert að herma hana upp á skýrsluhöfunda, að þarna sjáum við svo sannarlega hvernig stórar kvennastéttir stóðu vaktina í gegnum þessi ár og skiluðu sínu framlagi til samfélagsins svo ekki verður um villst. Það finnst mér eiga að vera eitthvað sem við getum haft í huga. Eins og hv. þingmenn þekkja þá er verið að vinna á mínum vegum í aðgerðahópi um virðismat starfa og þar er verið að skoða sérstaklega virðismat hefðbundinna kvennastarfa. Ég held að þessi skýrsla ætti ríkt erindi inn í þann hóp því hvað er meira virði en að fá í raun og veru vitnisburð um það framlag þessara stétta til samfélagsins á örlagatímum.