154. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2023.

Viðbrögð vegna atburðanna á Reykjanesskaga, munnleg skýrsla mennta- og barnamálaráðherra.

[17:46]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu hér og segja það að samstaðan er algerlega skýr á Alþingi. Það er ríkur vilji til að standa með Grindvíkingum. Það er mjög sterkur vilji til þess að allt sem við gerum sé undir forystu Grindvíkinga sjálfra. Við styðjum þau við að stíga hvert skref sem þarf að stíga. Ég vil líka segja að maður finnur það hér í salnum að börn og barnafjölskyldur eru hafðar yfir pólitík. Við ætlum okkur að taka slaginn fyrir börn í Grindavík. Ég vil líka undirstrika það að lykilatriðið til að ná því er að taka utan um samfélagið í heild, taka utan um alla þá sem eru í framvarðasveit í Grindavík, þá sem vinna með börnum, fjölskyldurnar sjálfar og alla aðila sem með einum eða öðrum hætti koma að daglegu lífi barna. Hér hefur verið minnst á íþrótta- og tómstundastarf og ég vil taka það fyrir sérstaklega, það er stór hluti af lífi barna. Grindavík er íþróttabær, Grindavík er með öflugt íþrótta- og tómstundastarf og við þurfum að aðstoða Grindavíkurbæ við að halda utan um það starf. Hér hefur verið nefnt fjármagn og að það þurfi að grípa strax inn í. Það sem við höfum gert í mennta- og barnamálaráðuneyti er að ýta öðrum verkefnum til hliðar til að aðstoða Grindavíkurbæ í öllum þeim verkefnum sem hann óskar eftir, með mannafla, með tímabundnu fjármagni sem við höfum. En til lengri tíma litið þá munum við þurfa að teikna upp fjárhagslegar aðgerðir til að grípa börn og barnafjölskyldur í Grindavík. Ég hef ekki áhyggjur af því að það verði ekki þverpólitískur vilji á Alþingi Íslendinga til að gera það þegar fram í sækir og við náum að teikna það upp. Það er samstaða á Alþingi Íslendinga um það.