154. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2023.

skattar og gjöld.

468. mál
[18:13]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það sem hv. þingmaður nefnir hér er auðvitað umræða sem hefur átt sér stað undanfarin ár og var mikið um hana þegar ég gegndi embætti ferðamálaráðherra; einmitt að það þyrfti að efla getu sveitarfélögin til að byggja upp innviði og að þau gætu staðið við sína þjónustu. Í þessu kasti hér eru þetta hins vegar forsendur fyrir tekjum ríkisins og þyrfti þá að horfa á það í stærra samhengi en bara fjárhagslega skiptingu ríkis og sveitarfélaga, sem er auðvitað heljarinnar mál og ekki eitt eða tvö atriði heldur allnokkur sem þar falla undir. Þannig að kæmi það til skoðunar, sem ég geri ráð fyrir að sé til að mynda rætt í þessari vinnu starfshópa hjá ferðamálaráðherra um þetta framtíðarfyrirkomulag, vegna þess að sveitarfélög þurfa vissulega að hafa burði til að byggja upp þjónustu og þá ekki eingöngu með tekjum þeirra sem greiða útsvar á svæðinu, þá þyrfti að skoða það í einhverju stærra samhengi. Það er ekki verið að leggja það til hér en gæti verið hluti af einhverju sem yrði í hinni vinnunni. (Forseti hringir.) Hins vegar hvernig því er síðan skipt þá held ég að það yrði sömuleiðis stórt mál fyrir sambandið að ná samstöðu um ef til þess kæmi.