154. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2023.

fjáraukalög 2023.

481. mál
[18:56]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langaði að koma hérna upp og ræða stöðu Landhelgisgæslunnar. Ég held að það eigi sérstaklega vel við á tímum sem þessum þar sem við erum mjög meðvituð um öryggismálin í landinu og stöðu almannavarna. Eins og margir hér inni vita þá er Landhelgisgæslan í mjög þröngri fjárhagslegri stöðu og hefur verið í talsverðan tíma þó að hún beri sig vel. Dómsmálaráðherra hefur m.a. lýst því yfir hér í pontu að að öðru óbreyttu þurfi Gæslan að selja flugvél, þyrlu eða skip, og voru reyndar áætlanir um það í byrjun ársins að selja flugvél áður en gripið var til þess ráðs að hætta við þann gjörning.

En sérstaklega í þessu samhengi langar mig að benda á að uppsafnaður halli hjá Landhelgisgæslunni fyrir síðustu tvö ár eru 600 millj. kr. Ég vek athygli á að þetta eru 600 millj. kr. og fjárframlög til Gæslunnar eru í kringum 6 milljarðar. Þannig að þetta eru umtalsverðar upphæðir og augljóst að núverandi fjárheimildir duga ekki fyrir almennum rekstri Landhelgisgæslunnar.

Í þessum fjárauka, þar sem ég veit að beðið var um 600 millj. kr. til þess að losna við þennan hala, eru veittar 236 millj. kr. Væntanlega er það til að koma í veg fyrir að hallinn vindi upp á sig. Það vantar hins vegar um 364 millj. kr. Þetta er ekki til að standa við ný verkefni. Þetta er einfaldlega bara svo að fólk geti haldið uppi hefðbundinni núverandi starfsemi hjá Landhelgisgæslunni, sem gæti þó verið meiri. Því vil ég beina fyrri spurningu minni til hæstv. ráðherra, hvort komið verði til móts við þessa viðbótarfjárhæð sem upp á vantar til að eyða þessum hala úr varasjóði núna eða hvort Landhelgisgæslan eigi að fara með helminginn af þessum hala inn í næsta ár.