131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Tilraunir með vindmyllur.

124. mál
[13:37]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Áðan var talað um að sjónmengun væri af vindmyllum. Ég er ekki sammála því. Mér finnast vindmyllur bæði fallegar og spennandi mannvirki. Ég minni líka á að það er hægt að taka þær niður aftur án þess að mikil ummerki verði eftir í náttúrunni.

Mig langaði líka aðeins til að koma inn á að sl. sumar var haldin mjög athyglisverð ráðstefna á vegum Vestnorræna ráðsins þar sem m.a. aðilar frá Danmörku og Færeyjum héldu fyrirlestra, mjög athyglisverð erindi þar sem fram kom að Færeyingar, vinir okkar og frændur, hyggja nú á verulega vindmylluvæðingu á eyjunum þar. Þeir sjá þetta sem nokkuð aðlaðandi kost til orkuöflunar. Ég tel að við Íslendingar ættum að vera mjög vel á verði varðandi þennan möguleika til að framleiða raforku. Mikil þróun á sér stað í verkfræði- og tæknikunnáttu varðandi gerð vindmyllna. Hér skortir að sjálfsögðu ekki vindinn þannig að við ættum að fylgjast mjög grannt með þróun þessara mála.