131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Þjónustugjöld á náttúruverndarsvæðum.

221. mál
[15:53]

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tek undir að það er gott að taka þessa umræðu og fínt að fá þessa fyrirspurn. Uppbygging ferðamannastaða er stórmál og skiptir máli hvernig við tökum á þeim málum.

Ég átti þess kost að koma í Skaftafell á fögrum degi seint í haust þegar engir voru þar og fara um svæðið og Skaftafell er algjörlega til fyrirmyndar. Maður sá svo vel allan aðbúnað og uppbyggingu þegar ekkert fólk var þarna og engin tæki. Það er alveg til fyrirmyndar.

Auðvitað er þetta ákveðið vandamál. Þetta eru 90 friðlýst svæði fyrir utan önnur. Ég ferðast mjög mikið um landið og ég verð að segja að ég á mjög erfitt með að sjá það fyrir að koma að lokuðum hliðum, eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra. Ég veit að þetta þekkist einhvers staðar í stóra útlandinu en ég mundi vilja leita annarra leiða og deili í raun þeim sjónarmiðum sem hæstv. umhverfisráðherra setti fram í málinu.