132. löggjafarþing — 32. fundur,  29. nóv. 2005.

Tekjustofnar sveitarfélaga.

364. mál
[18:02]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, með síðari breytingum. Frumvarpið er lagt fram í samræmi við tillögur tekjustofnanefndar til félagsmálaráðherra þann 17. mars síðastliðinn en nefndina skipuðu fulltrúar ríkis og sveitarfélaga.

Þær meginbreytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu eru einkum tvíþættar. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að undanþágum frá greiðslu fasteignaskatts samkvæmt 5. gr. gildandi laga verði fækkað. Einkum er hér um að ræða undanþágur er varða ýmsar fasteignir í eigu ríkissjóðs, t.d. fasteignir sjúkrastofnana, framhaldsskóla og háskóla. Í samræmi við tillögur tekjustofnanefndar er lagt til að álagningarhlutfall gjaldflokksins verði ákvarðað á þann hátt að kostnaður ríkissjóðs vegna fækkunar undanþágna verði 600 millj. kr. á ári. Til að ná þessu markmiði er lagt til í frumvarpinu að þessar eignir verði í sérstökum gjaldflokki. Er gert ráð fyrir að álagningarhlutfall innan þess flokks verði fast og það nemi 1,32% af fasteignamati í samræmi við útreikninga Fasteignamats ríkisins.

Nefndin lagði jafnframt til að fækkun undanþágna kæmi til framkvæmda í áföngum á árunum 2006–2008 og í samræmi við það er gert ráð fyrir að við lögin bætist nýtt bráðabirgðaákvæði sem kveður á um að álagningarhlutfallið verði 0,44% árið 2006 og 0,88% árið 2007.

Í 4. gr. frumvarpsins eru tilteknar fasteignir sem áfram er gert ráð fyrir að verði undanþegnar greiðslu fasteignaskatts en um ástæður þess er ítarlega fjallað í athugasemdum með frumvarpinu. Hér er um að ræða kirkjur og bænahús, safnahús þar sem rekstur er ekki í ágóðaskyni og hús erlendra ríkja og alþjóðastofnana.

Í öðru lagi er gert ráð fyrir að álagning fasteignaskatts fari fram í Landskrá fasteigna og að breytingar geti orðið á skattstofni innan hvers árs í samræmi við breytingar sem verða á fasteignamati í Landskránni. Samkvæmt lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, skal árlega leggja fasteignaskatt á allar fasteignir sem metnar eru í fasteignamati 31. desember á næstliðnu ári. Í reglugerð um fasteignamat og fasteignaskráningu, nr. 406/1978, er hins vegar mælt fyrir um að taka skuli mannvirki í fasteignamat við fokheldi þeirra. Þetta hefur í för með sér að eigendur nýrra fasteigna sem metnar eru fasteignamati í upphafi árs geta komist hjá greiðslu fasteignaskatts í tæpt ár og getur það skapað ójafnræði í skattgreiðslum þeirra og annarra fasteignaeigenda sem fá eignir sínar metnar fasteignamati undir lok árs. Þetta leiðir einnig til þess að sveitarfélög, sérstaklega þar sem mikil uppbygging á sér stað, verða af tekjum í tæpt ár vegna fasteigna sem metnar eru fasteignamati í upphafi árs. Til að ná fram því markmiði að álagning fasteignaskatts taki mið af breytingum sem verða á fasteignamati er gert ráð fyrir því að heimilt verði að leggja fasteignaskatt á nýjar eignir sem bætast í Landskrá fasteigna frá næstu mánaðamótum eftir að breyting á fasteignamati á sér stað. Einnig er gert ráð fyrir að fasteignaskattur falli niður frá næstu mánaðamótum eftir að fasteign er afskráð í Landskrá fasteigna. Hafi allur fasteignaskattur ársins þegar verið greiddur getur orðið um endurgreiðslu að ræða vegna þessa.

Sveitarstjórn annast álagningu fasteignaskatts og innheimtu hans og ber ábyrgð á skiptingu fasteigna í gjaldflokka. Til að auka öryggi og hagkvæmni við álagningu fasteignaskatta er í frumvarpinu lagt til að sveitarfélög leggi skattinn á í Landskrá fasteigna frá 1. janúar 2007 og að álagning fari þannig fram á samræmdan hátt um land allt. Ekki þykir raunhæft að ætla þessari breytingu að taka gildi strax á næsta ári en í 7. gr. frumvarpsins er þó gert ráð fyrir að einstök sveitarfélög geti í samstarfi við Fasteignamat ríkisins lagt skattinn á í Landskránni. Til að glata ekki hagræði er gert ráð fyrir að álagning fasteignagjalda geti einnig farið fram í Landskránni. Gert er ráð fyrir því að Fasteignamat ríkisins veiti hverri sveitarstjórn aðgang að aðgangsstýrðu svæði í skránni til að skrá álagningarforsendur og fylgjast með breytingum. Að álagningu lokinni er gert ráð fyrir að hægt verði að tengja upplýsingar um fjárhæðir álagningarinnar við innheimtu- og fjárhagsbókhald sveitarfélaganna.

Markmiðið með Landskrá fasteigna er að hún sé ein skrá sem nýtist öllum stjórnvöldum til að sinna stjórnsýslu sinni er varðar fasteignir. Gert er ráð fyrir að nánar verði kveðið á um framkvæmd í reglugerð um fasteignaskatt. Þetta fyrirkomulag mun spara sveitarfélögunum, Fasteignamati ríkisins, Jöfnunarsjóði sveitarfélaga og öðrum aðilum sem málið kann að varða umtalsverða vinnu við úrvinnslu upplýsinga um álagningu fasteignaskatts þar sem upplýsingar um allar breytingar á álagningu verða í einni skrá.

Í frumvarpinu er jafnframt lögð til sú breyting að í stað þess að sveitarstjórn geti fellt fasteignaskatt niður eða lækkað hann af ýmissi starfsemi verði sveitarstjórn heimilt að veita styrki til greiðslu fasteignaskatts af fasteignum þar sem fram fer starfsemi sem ekki er rekin í ágóðaskyni svo sem menningar-, æskulýðs- og tómstundastarfsemi og mannúðarmál. Einnig verði sveitarstjórnum skylt að setja reglur um veitingu niðurfellingar eða aflsáttar til elli- og örorkulífeyrisþega en samkvæmt athugunum ráðuneytisins virðast flest sveitarfélög nú þegar hafa sett sér einhverjar slíkar reglur.

Að öðru leyti vísa ég til athugasemda við einstakar greinar frumvarpsins.

Hæstv. forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. félagsmálanefndar.