135. löggjafarþing — 32. fundur,  28. nóv. 2007.

framleiðslu- og flutningsgeta í raforkukerfinu.

218. mál
[14:48]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég ætla að leyfa mér, sem gamall nemandi í eðlisfræði, að nota til einföldunar teravattstundir, ef hv. þingmanni væri sama.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem Landsnetið og Orkustofnun hafa veitt er áætlað að orkuvinnslugeta vatnsafls og jarðvarmastöðva á árinu 2008 verði á bilinu 16,5–17 teravattstundir. Þá er gert ráð fyrir því, eins og segir í spurningu hv. þingmanns, að Fljótsdalsstöð sé í fullum rekstri. Þá vænti ég hins vegar að ekki sé tekið tillit til þess möguleika sem hv. þingmaður nefndi og við höfum lesið um í blöðum að vélar stöðvarinnar geta framleitt svolítið meira en upphaflega var ráð fyrir gert. Hinn framsýni forveri minn í stóli iðnaðarráðherra gat kannski spáð í kristalskúlu, sem ég hef ekki, og séð þetta fyrir en virkjunarleyfið gerir ráð fyrir töluvert meira en menn voru að pæla í upphaflega.

Það er því hugsanlegt, eins og hv. þingmaður orðaði það áðan, að í kerfinu sé fljótandi möguleiki á að framleiða meira. En hið hluttæka svar við fyrri spurningunni er sem sagt 16,5–17 teravattstundir. Til þess að vera nákvæmur get ég þess að það er talsverð framleiðslugeta líka í eldsneytisstöðvum en þær eru að sjálfsögðu einungis notaðar í neyðartilvikum og við rekstrartruflanir í flutnings- eða dreifikerfinu.

Hv. þingmaður spyr síðan: Hver er flutningsgetan og hversu mikil orka er, eins og hv. þingmaður orðaði það, til aflögu á tengipunktum á Norðausturlandi? Það kom fram í svari mínu áðan að flutningsgeta raforkukerfis á Norðausturlandi er 130 megavött. Það má segja að það sé engin orka aflögu, eins og hv. þingmaður orðar það, á Norðausturlandi. Þrátt fyrir raforkuframleiðslu í Lagarfossi, Kröflu, Bjarnarflagi og Kárahnjúkavirkjun upp á það sem metið er 5,6 teravattstundir á ári er þegar fyrirséð að flytja þarf inn raforku til Norðausturlands þegar aflþynnuverksmiðjan á Akureyri hefur tekið til starfa og álver Fjarðaáls í Reyðarfirði er komið í fullan rekstur.

Miðað við fyrirliggjandi framleiðsluáætlanir er því ekki forgangsorka til aflögu innan þessa svæðis umfram almenna aukningu á næstu árum.