136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[11:49]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessi ræða hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar var gott dæmi um hina glæsilegu „eitthvað annað“-pólitík Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem við höfum orðið vitni að á undanförnum vikum þegar málefni Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hafa komið upp. Það er stöðugt bent á eitthvað annað, flestar lausnir eru óraunhæfar og svo er flögrað úr einu víginu í annað.

Hv. þingmaður gerði að umtalsefni afstöðu Samfylkingarinnar til gjaldmiðilsmála. Við þurfum að fleyta hér á ný gjaldmiðlinum og það kostar vissulega mikið. Ástæðan er sú að stjórnmálaflokkar á borð við flokk hv. þingmanns hafa neitað að horfast í augu við það tjón sem þjóðarbúinu er búið af tilvist íslenskrar krónu. Þetta er sá kostnaður sem við verðum að axla nú til að koma hér gjaldeyrisviðskiptum í gang á ný og freista þess að koma atvinnulífinu í gang á ný og því miður er hann til kominn vegna þess að ekki hefur verið skilningur á því, til dæmis hjá hv. þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, hversu skaðleg hin íslenska króna er íslensku samfélagi. (Gripið fram í.) Afneitun Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs á þeim vandamálum sem við stöndum frammi fyrir er einstök og við sjáum hana nú birtast enn og aftur. Maður hlýtur náttúrlega að hugsa sér til hvers Vinstri hreyfingin – grænt framboð vilji komast í ríkisstjórn, til hvers hún vilji kosningar, hverju hún vilji breyta þar sem ekkert liggur fyrir um hverju eigi að breyta. Sjálfur talar hv. þingmaður niður gjaldmiðilinn eins og hann kýs að orða það reglulega með innantómu blaðri um norræna krónu. Hann er síðan búinn að taka sér stöðu sem hinn traustasti kjölturakki í Svörtuloftum með því stöðugt að bera í bætifláka fyrir mistök Seðlabankans daginn út og daginn inn og nú síðast þegar hann gaf ræðu sem flutt var fyrr í vikunni, í gær, þá einkunn að hún væri sérstaklega málefnaleg.