136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[18:38]
Horfa

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hlustaði með athygli á ræðu hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur og þær áhyggjur sem hún bar fram vegna gjaldmiðilsins varðandi það hvernig fleyta ætti krónunni, hvað tæki við og hvort hægt væri að treysta þeim sem fara ættu með stjórn efnahagsmála miðað við þá reynslu sem þegar væri fengin. Þá gat ég ekki skilið annað en að hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir, 12. þm. Suðvest. fyrir Sjálfstæðisflokkinn, treysti ekki þeim aðilum sem þar héldu um taumana eða hefði alla vega verulegar efasemdir um að ríkisstjórn og Seðlabanki, af fyrri reynslu, væru til þess bær að fara með þá miklu ábyrgð sem um væri að ræða, alla vega lýsti þingmaðurinn miklum áhyggjum af því.

Ég deili þeim sjónarmiðum með hv. þingmanni og get tekið undir ræðu hennar að öllu leyti. En ég spyr: Miðað við þessar vangaveltur og þær niðurstöður sem hv. þingmaður gefur sér, að gefnum þeim forsendum sem hún nefndi, er þá nokkur möguleiki að hv. þingmaður styðji núverandi ríkisstjórn áfram ef óbreytt stjórn á að vera í Seðlabanka Íslands?