138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

skattamál, viðvera ráðherra og framhald kvöldfundar.

[20:01]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég vil spyrja frú forseta, í ljósi þess að við erum að hefja kvöldfund, hvort hæstv. forseti hafi gert þær ráðstafanir að tryggja að formaður og varaformaður fjárlaganefndar sem bera málið uppi verði viðstaddir þessa umræðu, sem og hvort ráðherrar fjármála, forsætis, og efnahags og viðskipta, verði viðstaddir umræðuna.

Eins mundi ég vilja spyrja frú forseta, í ljósi þess að boðað hefur verið að það verði morgunfundur í fyrramálið á Alþingi og að við höfum óljósar fregnir um það að við eigum að ræða þetta mál langt inn í nóttina, hvað við megum búast við að fundur standi lengi í kvöld vegna þess að við þurfum að skipuleggja tíma okkar eins og aðrir og undirbúa önnur mál utan þings, auk þess að sinna öðrum skyldum.

Ég spyr frú forseta: Hvenær megum við vænta þess að við ljúkum þessari umræðu í kvöld, þannig að við getum farið að undirbúa morgundaginn?