138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:48]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Það hefur náttúrlega mikið verið talað um málsmeðferð stjórnsýslunnar, gagnsæ vinnubrögð o.s.frv. frá því að við tvær komum ásamt fleirum inn á þing eftir síðustu kosningar. Þegar maður horfir á heildarmyndina væri gott að fá skoðun þingmannsins á því hvernig tekist hafi til að hennar mati við að koma þessum fyrirheitum í verk í þinginu varðandi gagnsæi og þessi stórauknu lýðræðislegu vinnubrögð sem fjölmargir þingmenn hafa talað um og veifað úr ræðustól og á tyllidögum. Fjárlaganefnd óskaði t.d. eftir áliti frá efnahags- og skattanefnd í þessu máli og fjögur minnihlutaálit komu út úr nefndinni sem ekkert var gert með í fjárlaganefnd. Mér finnst þetta dæmi um ákveðna brotalöm í vinnubrögðum þingnefnda og mig langar að leita eftir því hvort hv. þingmaður sé sammála mér um það.