139. löggjafarþing — 32. fundur,  22. nóv. 2010.

olíuleit á Drekasvæði.

150. mál
[16:31]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Ég fagna því sem fram kom hjá hæstv. ráðherra að verið sé að endurskoða þær útboðsreglur sem við vorum með og ekki síst skattalega þáttinn. Einnig fagna ég því sem fram kom um aukið samstarf við Norðmenn varðandi þetta efni.

Ég hef reyndar aldrei skilið af hverju í ósköpunum við erum sjálf að þessu brölti, af hverju við semjum ekki hreinlega við Norðmenn, Kanadamenn eða einhverja aðra um að sjá um þetta fyrir okkur. Mér dettur í hug myndin í Spaugstofunni, ég veit ekki hvort virðulegur forseti man eftir því, þegar spaugstofumenn fóru með Metabo-handborvél niður í fjöru og voru að leita að olíu. Íslendingar eiga að vera óhræddir við að leita til annarra eftir sérfræðiþekkingu.

Ég hefði haldið, frú forseti, og væri áhugavert að spyrja hæstv. ráðherra að því hvort það hafi verið skoðað og hver sé hennar skoðun á því að við að semjum hreinlega við Norðmenn um að sjá um þetta fyrir okkur. Finnist þarna olía, finnist þarna gas (Forseti hringir.) eða eitthvað vinnanlegt, fá þeir hluta af því og við hluta.