139. löggjafarþing — 32. fundur,  22. nóv. 2010.

olíuleit á Drekasvæði.

150. mál
[16:32]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra og hv. þingmanni fyrir að taka þátt í þessari umræðu. Ég velti því fyrir mér, eftir þetta svar hæstv. ráðherra, hvort við séum að fara nægilega hratt í þetta ferli, hvort það sé forgangsmál hjá ríkisstjórninni að koma þessum málum áfram, því að mér finnst eins og Norðmenn séu dálítið á undan okkur þegar kemur að þessum málum. Í þeirri frétt sem ég og hæstv. ráðherra vitnuðum í áðan kemur fram að norska ríkisstjórnin hyggist verja samtals 180 millj. norskra króna á árunum 2011 og 2012 til rannsókna í því skyni að undirbúa olíuboranir í Norðurhöfum. Ég velti því fyrir mér, um leið og ég spyr hæstv. ráðherra um frekara samstarf við Norðmenn, hvort við séum að dragast aftur úr þegar kemur að rannsóknum og vinnslu á þessu svæði. Ég held að þetta sé alveg réttmæt spurning.

Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra hvaða tækifæri hún sjái í því fyrir norðausturhorn landsins að þjónusta olíuleit líka á norska hluta hryggjarins. Þetta eru gríðarleg umsvif sem þarna fara fram og setur málið í algjörlega nýtt samhengi að búið sé að friðlýsa Jan Mayen. Ég tel að við þurfum að setja allan þann kraft sem við eigum í að vinna að þessum málum áfram. Ég tel að ef við náum árangri hér sé framtíðin svo sannarlega björt þegar kemur að íslensku efnahagslífi og því verðum við að halda vel á okkar spilum þegar kemur að þessu máli og öðrum.

Ég spyr hæstv. ráðherra, rétt eins og hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson gerði, um frekara samstarf við Norðmenn og hvort við getum ekki sett aukinn kraft, meiri kraft en núverandi ríkisstjórn vill setja í það að vinda þessum málum fram. Hér er um stórt mál að ræða fyrir íslensku þjóðina, fyrir íslenskan ríkissjóð, fyrir afkomendur okkar og framtíðina, því að ef við náum árangri hér er um miklu, miklu stærra mál að ræða en margir gera sér grein fyrir.