140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[16:02]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ástæða fyrir því að við hv. þingmaður erum ekki í sama flokki og ég held að sá munur komi greinilega fram í þeim tillögum sem þingmenn annars vegar Sjálfstæðisflokksins og hins vegar Framsóknarflokksins hafa lagt fram. Það vill samt svo skemmtilega til að við erum sammála á margan hátt um hvernig megi sækja tekjur í ríkissjóð.

Ég vil þó benda þingmanninum á að það var ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks sem tafði verkefnið um álver á Bakka við Húsavík. Þegar það verkefni var sett í sameiginlegt mat var það einfaldlega tafið um tvö ár, verkefni sem hefði getað skapað hér hagvöxt upp á 2–3% og störf fyrir 500–800 og jafnvel 1.000 manns. (Gripið fram í: … ábyrgð á því.) Ja, ég veit að hv. þingmaður ber ábyrgð á öllum þeim ríkisstjórnum sem hann hefur setið í. Ég vona svo sannarlega að hann ætli ekki að fara að leika sama leik (PHB: Aldrei setið í ríkisstjórn.) og hv. þingmenn Samfylkingarinnar sem kannast ekki við gjörðir eigin ríkisstjórnar. Hv. þingmaður hefur væntanlega greitt atkvæði með þeim tillögum sem ríkisstjórnin lagði fram og ég ætla að leyfa mér að fullyrða að það hafi hv. þingmaður gert.

Ég skal alveg viðurkenna að tillögur Framsóknarflokksins eru flóknar um að helminga þetta og flækjustigið getur aukist, en ég held að allir með góðum vilja mundu leysa það verkefni. Það er alveg sama hvernig menn líta á verkefnið, þetta er mögulegt, það er mögulegt að gera þetta. (Forseti hringir.) Hv. þingmaður lýsti því reyndar ágætlega sjálfur, (Forseti hringir.) það þarf bara viljann til þess