140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[17:24]
Horfa

Atli Gíslason (U):

Frú forseti. Ég mæli fyrir breytingartillögum mínum og hv. þm. Lilju Mósesdóttur á þskj. 479. Fyrst aðeins um aðkomu okkar að meðferð fjárlagafrumvarpsins. Við fengum eins og aðrir þingmenn í hendur frumvarp í þingbyrjun í október. Síðan höfðum við ekki aðkomu að því sem utanflokkaþingmenn, þ.e. að vinnslu þess eða aðild að vinnslu fjárlaganefndar, fyrir 2. umr. og fyrsta skipti sem við litum breytingartillögur var á atkvæðagreiðsluskjali að morgni sl. þriðjudags. Þá fyrst komu fram upplýsingar um breytingar sem yrðu gerðar og þá fyrst höfðum við tækifæri til að taka afstöðu til frumvarpsins. Í atkvæðagreiðslu eftir 2. umr. áskildum við okkur allan rétt til að gera breytingartillögur.

Tíminn var auðvitað afar knappur þar sem 3. umr. var flýtt umfram það sem hefðbundið er eða að minnsta kosti hef ég vanist því að hún væri haldin í síðustu viku fyrir jólahlé. Það voru því fáir dagar til stefnu og við sátum yfir þessu frumvarpi allan miðvikudaginn og fimmtudaginn. Á þeim tíma gátum við ekki fengið aðstoð ritara fjárlaganefndar vegna mikilla anna þeirra í störfum fyrir fjárlaganefnd, en síðan fengum við afar góða og þakkarverða, ég vil þakka sérstaklega riturum fjárlaganefndar fyrir þá aðstoð, eftir hádegi í gær. Seint í gærkvöldi, undir kl. 11, tókst okkur að fullvinna breytingartillögur okkar sem hér liggja fyrir, en okkur skorti ýmsar veigamiklar upplýsingar sem ég mun víkja að síðar og koma að í ræðu minni. Tillögur okkar eru lagðar fram með þeim fyrirvara, þ.e. með hliðsjón af þeim knappa fyrirvara sem við höfðum til ráðrúms, og slíkur fyrirvari, jafnknappur og raun ber vitni, kallar oft á mistök þannig að við gerum fyrirvara um þetta.

Við gerum einnig eftir þennan yfirlestur alvarlegar athugasemdir við framsetningu frumvarpsins, það er í raun illlæsilegt og uppsetning þess er í raun okkur til skammar. Það er mjög erfitt að lesa út úr því. Töflum með tölulegum upplýsingum er mjög ábótavant og skýringartextar á stundum villandi og mjög mismunandi framsettir þannig að það er afar erfitt að lesa í meintar forsendur þess, þ.e. niðurskurðarforsendur.

Ég hefði kosið að sjá töflurnar settar þannig upp að þar væru fjárlög 2011 og síðan verðlagsbreytingar og forsendur, síðan niðurskurður í hverjum lið og loks tillögurnar fyrir fjárlögin 2012. Því er ekki að heilsa. Það þarf að lesa vandlega skýringartextana, fara svo fram í sundurliðanirnar og síðan fram og til baka. Þetta er ærinn starfi og það er hægt að gera hann mun betur og ég velti fyrir mér af hverju þetta sé svona. Þetta er ekki nýmæli hjá hæstv. fjármálaráðherra, þetta hefur verið svona lengi, en það verður að verða bragarbót á þessu. Er þetta gert til þess að frumvarpið sé illlæsilegt og ekki aðgengilegt almenningi? Þarf maður að vera í fjárlaganefnd og vinna baki brotnu við frumvarpið frá 1. október til 2. umr. og svo milli 2. umr. og 3. umr. til að skilja þetta? Við, flutningsmenn þessara breytingartillagna erum bæði þokkalega töluglögg en ýmsir liðir eru þess eðlis að maður áttar sig ekki á þeim. Það virðist ýmislegt falið og ýmislegt villandi.

Tökum eitt dæmi. Hverjar eru niðurskurðarforsendur frumvarpsins? Jú, þær eru að draga úr útgjöldum sem nemur 3% í almennri stjórnsýslu og þjónustu, 1,5% til velferðarmála, svo sem heilbrigðisþjónustu, bótakerfum, sjúkratryggingum en einnig í skólum, rannsóknarstofum og löggæslu. Þegar niðurskurðurinn er grannt skoðaður og reynt að lesa í hann er hann afar mismunandi. Hann nær alls ekki 3% í afar mörgum tilvikum. Það er að sjá, eftir þennan skamma yfirlestur, að ráðuneytin taki þessa niðurskurðarkröfu heildstætt yfir öll ráðuneytin þannig að það er mjög mismunandi hvernig niðurskurðurinn lendir og það er leitast við að ná meðaltalinu innan viðkomandi ráðuneyta og ég segi: Það er beitt ýmsum brellum í því sambandi. Meðal annars rakst ég á það að tímabundin framlög á árinu 2011, sem féllu niður 2011, mynduðu forsendu 3% fyrir 2012. Þetta er ekki bara villandi, það er verið að spila rangt, það er rangt gefið.

Þannig er til dæmis aðalskrifstofu ráðuneyta almennt hlíft en ýmsar undirstofnanir sæta meiri niðurskurði. Svona háttaði enn fremur í fyrra þegar ég og sami hv. þingmaður, Lilja Mósesdóttir, fórum í aðalskrifstofurnar, sem mig minnir að hafi átt að sæta 10% niðurskurði en hann reyndist vera miklu minni. Og hann er enn þá undir kröfum, að ég hygg, en til að fá þær upplýsingar þurftu hinir ágætu ritarar, sem ég svo sannarlega hef ekkert upp á að klaga, að vinna að málinu í einhverja daga eða vikur, gera samanburð aftur í tímann. Ég hygg að um þetta hafi verið spurt í fjárlaganefnd og mig minnir að hv. þm. Höskuldur Þórhallsson hafi nefnt það í ræðu sinni að hann hafi ekki fengið svör.

Þetta eru að mínu mati óviðunandi vinnubrögð, fjárlagafrumvarpið fær í uppsetningu og framsetningu falleinkunn af minni hálfu.

Breytingartillögur okkar eru fyrst og fremst lagðar fram í þeim tilgangi að sýna með skýrum dæmum að unnt sé að forgangsraða verulega betur í þágu velferðar, að sýna fram á að hægt sé að skera fituna betur burt í þágu þeirra sem mests þurfa með. Já, í þágu velferðar. Okkur er fullkomlega ljóst eftir þessa skömmu yfirferð, og ég hygg að hv. þm. Kristján Þór Júlíusson hafi orðað það þannig að enn sé af mörgu að taka, en það má gera mun betur í þessum fituskurði en fram kemur í tillögum okkar. Til þess gafst okkur ekki nægt ráðrúm og við gerum enn fyrirvara þar að lútandi um einstakar breytingartillögur okkar sem á stundum verður að skoða miklu frekar sem pólitískt táknrænar, eru viljayfirlýsingar um hvernig við viljum ráðstafa og forgangsraða í þágu velferðar og annars.

Í tillögum okkar forgangsröðum við í þágu velferðar eins og fyrr segir. Við veljum velferð umfram útgjöld til ESB-umsóknarinnar. Við veljum velferð fram yfir óútfyllta tékka til óskilgreindra liða um ýmis framlög sem að mínu mati eru ávísanir á geðþótta þótt ég ætli það engum.

Við veljum velferð fram yfir sífellt aukin útgjöld aðalskrifstofa ráðuneytanna. Við veljum velferð fram yfir sendiráðsútgjöld. Við veljum mannúðarmál og neyðaraðstoð fram yfir svonefnda friðargæslu. Við veljum að styðja og styrkja jafnréttismál fram yfir stjórnsýslu og eftirlitskostnað FME svo dæmi sé nefnt. Við veljum sem sé í þessum tillögum okkar norræna velferð og ítrekum að það má gera mun betur, skera í margfalt fleiri fitulög fjárlaganna í þágu velferðar.

Að loknum þessum formála vil ég nú, frú forseti, víkja að þeim breytingartillögum sem er að finna á þskj. 479. Við aukum þar fjárframlag til umboðsmanns Alþingis um 10 milljónir. Málafjöldi hefur aukist margfaldlega hjá umboðsmanni eins og skýrslur hans bera vott um og framlög við 2. umr. sem mig minnir að hafi verið 20 milljónir duga ekki til. Við skerum niður í ríkisstjórn um 40 milljónir. Í frumvarpinu var reiknað með 205 milljónum, 214 milljónir voru 2011 en það var hækkað, ef ég man rétt, um tæpar 40 milljónir. Hvar er 3%-reglan? Við viljum fórna þessum lið í þágu velferðar. Eins er með Ýmis verkefni. Við lækkum þann lið um 10 milljónir. Þar er opinn tékki sem við vitum ekki alveg hvað er.

Að því er varðar menntamálaráðuneytið hækkum við á Þórbergssetri um 1,2 milljónir og það skýrist af því að í gildi eru samningar við setrið og samkvæmt þeim átti framlagið til þeirra að vera 1,2 milljónum hærra, þ.e. 10 milljónir.

Við förum í lið 02-985 Rammaáætlanir ESB um menntun, rannsóknir og tækniþróun. Nú verð ég að viðurkenna að ég gat ekki lesið skilmerkilega út úr þessum lið á þeim stutta tíma sem við höfðum. Framlögin á þessum lið 2011 voru 1.036,4 milljónir. Hann fer upp í 1.295 milljónir og við lækkum hann um 300 milljónir — í þágu velferðar aftur og aftur en þó með þeim fyrirvara að nákvæmar upplýsingar náðust ekki fram um hvernig þessum lið væri farið.

Eins tökum við Ýmis framlög mennta- og menningarmálaráðuneytis og lækkum þau um 25 milljónir í þágu velferðar.

Hvað utanríkisráðuneytið varðar lækkum við framlög til Þýðingamiðstöðvar um 300 milljónir. Og nú spyr maður sig: Hvar er 3%-reglan? Hvar er aðhaldið? Þessi tala var 304,4 milljónir árið 2011, er hækkuð upp í 547 milljónir. Við lækkum þá tölu líka um 300 milljónir í þágu velferðar. 247 milljónir ættu að duga fyrir Þýðingamiðstöðina til að þýða tilskipanir og annað slíkt. Ég spyr: Af hverju seinkum við ekki á ESB-umsókninni meðan við erum að ná okkur úr þessum dal — í þágu velferðar?

Síðan mun ég víkja að öllum aðalskrifstofum ráðuneyta næst. Þar lækkum við öll ráðuneytin um 5% nema forsætisráðuneytið og utanríkisráðuneytið, um 10%. Þarna gátum við ekki fengið upplýsingar um hvort ráðuneytin hefðu staðið undir 10%-niðurskurðinum 2011 og 3% núna. Það þurfti allt of mikla vinnu til þess en ég áskil mér rétt til að finna svörin.

Að því er varðar forsætisráðuneytið vil ég taka fram að verkefni hafa á undanförnum árum verið flutt frá ráðuneytinu í stórauknum mæli. Síðast var Vesturfarasetrið á Hofsósi flutt. Engu að síður hefur ráðuneytið þanist út í útgjöldum, þrátt fyrir minni verkefni.

Síðan eru tölurnar í mennta- og menningarmálaráðuneytinu sem ég þarf ekki að fara yfir, þær eru 5% en það er eins með utanríkisráðuneytið, við lækkum það um 10%, þ.e. 110 milljónir, allt í þágu velferðar enn og aftur. Það er undarlegt að sjá hvað utanríkisráðuneytið hefur blásið út og að það skuli vera stærsta ráðuneytið í fjárlögum. Það er eiginlega með ólíkindum. Velferðarráðuneytið sem fær mest fjármagn til sín er með 903 milljónir, (Gripið fram í: Skrifstofan.) aðalskrifstofan. Fjármálaráðuneytið sem mikið mæðir á í endurreisninni fær 658 milljónir. Það er eitthvað vitlaust gefið þarna. Við tökum frá hverju ráðuneyti 5% í þágu velferðar nema, eins og ég segi, frá utanríkisráðuneytinu og forsætisráðuneytinu.

Við tökum líka 100 milljónir úr sendiráðum Íslands. Maður spyr þar um 3%, framlögin 2011 voru 2,6 milljarðar, eru í fjárlagafrumvarpinu 2,7 og við lækkun það um 100 milljónir. Hví ekki að taka af sendiráðunum í þágu heilsugæslu, sjúkrahúsa, löggæslu o.s.frv.?

Alþjóðabankinn, undir liðnum 03-391 Þróunarmál og alþjóðleg hjálparstarfsemi. Þar var ekkert framlag árið 2011 en nú eru settar 136,9 milljónir, óútskýrt meira og minna. Við lækkum það um 50 milljónir í þágu velferðar. Við lækkum Íslenska friðargæslu um 30 milljónir og Alþjóðlega friðargæslu um 25 milljónir og viljum að þeir fjármunir, 55 milljónir samtals, fari í mannúðar- og neyðaraðstoð.

Hvað innanríkisráðuneytið varðar setjum við inn í opinbera réttaraðstoð 25 milljónir. Það er ekki vanþörf á og ég minni á að ég hygg að hér liggi frammi frumvarp um að breyta lögunum um gjafsókn, þ.e. lögunum um meðferð einkamála, þannig að gjafsókn taki eins og fyrr var til fordæmismála og mála sem varða mikla einkalífshagsmuni sækjenda máls. Réttaraðstoð einstaklinga til að leita nauðasamninga hækkum við um 4 milljónir og lögfræðiþjónustu neyðarmóttöku vegna nauðgana um 3 milljónir.

Bætur til brotaþola hækkum við um 30 milljónir, Lögregluskólann um 20 milljónir og við erum með tillögu um framlag til samræmdrar neyðarsvörunar upp á 20 milljónir sem er tímabundið framlag, en ég sé ekki betur en að í tillögum meiri hluta fjárlaganefndar sé þessi liður inni. Við flytjum hann samt sem áður áfram. Með boðunarkerfinu er unnt að senda í gegnum GSM-síma viðvörun til allra sem eru á hættusvæði sem þarf að rýma. Þessi þörf kom skýrt upp í gosinu í Eyjafjallajökli í fyrra.

Hjá velferðarráðuneytinu tökum við niður liðinn Ýmislegt um 25 milljónir og svo kemur að Jafnréttisstofu. Henni er ætlað fjármagn upp á 83 milljónir. Við bætum þar við 50 milljónum og í því samhengi vil ég nefna að á árinu 2009 var framlag til Jafnréttisstofu 134,9 milljónir, 2010 99, 2011 104,6 en í þessu frumvarpi fyrir árið 2012 83 milljónir. Þetta er í hreinni andstöðu við samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem segir, með leyfi frú forseta:

„Málaflokkur jafnréttismála fái aukið vægi innan stjórnkerfisins. Jafnréttisstofa verði efld og sjálfstæði hennar aukið.“

Það er alveg ótrúlegt að þessi norræna velferðarstjórn skuli hafa farið svona með Jafnréttisstofu og ég hygg að það ætti ekki að vefjast fyrir stjórnarliðum að greiða þessari tillögu atkvæði, enda er hún í samræmi við samstarfsyfirlýsinguna. Við hækkum líka á Kvennaathvarfinu í Reykjavík um 18 milljónir og Stígamótum um 22 milljónir. Skýringin á því er sú þekkta staðreynd að á tímum efnahagskrísa eykst heimilisofbeldi og þá eykst kynbundið ofbeldi og það er nauðsyn að þeim félagasamtökum sem sinna þolendum þessa sé veitt aukið fjármagn. Bæði Kvennaathvarfið og Stígamót vinna ótrúlega gott og gagnmerkt starf.

Við hækkum síðan á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og þar vannst, varðandi alla heilsugæsluna, ekki tími til að finna út hvernig þessar stofnanir voru skornar niður 2011 og 2012 versus þær niðurskurðarkröfur sem gerðar voru þannig að það eru slegnar inn tölur sem ekki eru nákvæmar. En 110 milljónir á heilsugæsluna á höfuðborgarsvæðinu, 5 milljónir á Heilsugæslustöðina Lágmúla, 5 milljónir á Heilsugæslustöðina Dalvík og Heilsugæslustöðina í Salahverfi 10 milljónir. Ég kem svo betur síðar í ræðu minni að sjúkrahúsum og heilsugæslu á landsbyggðinni.

Þá kem ég að fjármálaráðuneytinu. Þar er auðvitað tekinn niður almennur rekstur á aðalskrifstofu eins og í öðrum ráðuneytum og svo almennur rekstur Fjársýslu ríkisins um 30,3. Tollstjórinn er settur niður um 3% á almennum rekstri og svo eru teknar út 150 milljónir sem eru framlag til þess að breyta tollafgreiðslukerfi Íslands miðað við það að við séum orðin aðilar að ESB. Það er ekki tímabært. Við skulum samþykkja aðildina áður en við förum að samþykkja þessi fjárframlög.

Framkvæmdasýslan er tekin niður um 3%, Bankasýslan 3% og síðan tökum við út liðinn 09-989 Ófyrirséð útgjöld því að ég hygg að þessi ófyrirséðu útgjöld séu lítt ófyrirséð miðað við skýringar. Það er búið að gera kjarasamninga, þeir eru í gildi, og þar fram eftir götunum þannig að ég hygg að þurfi að grípa til ófyrirséðra útgjalda eigi þetta heima í fjáraukalögum. En hv. þm. Lilja Mósesdóttir mun skýra hvernig þessari lækkun er ráðstafað.

Svo kemur að liðnum Ríkisstjórnarákvarðanir upp á 160 milljónir og það er mjög erfitt að lesa út úr því. Þetta er ein af þessum óútfylltu ávísunum sem erfitt er að fá skýringar á. Við tökum þennan lið út í þágu velferðar, í þágu heilsugæslunnar á landsbyggðinni, í þágu löggæslu, í þágu jafnréttis. Þetta eru vond fjárlög að vera með slíka liði sem ekki eru skilgreindir til fulls svo almenningur í landinu geti lesið sér til um til hvers eru ætlaðir. Svo eru ýmis verkefni líka lækkuð um 70,1 milljón.

Þá kem ég að iðnaðarráðuneytinu, iðnaðarráðherra hefur í ráðstöfunarfé 5 milljónir, við lækkum það í 2,5 milljónir, það er bara til samræmis við aðra ráðherra, það er sérkennilegt að hæstv. iðnaðarráðherra skuli fá meira en aðrir ráðherrar. Ýmis orkumál tökum við líka niður um 39,7 milljónir sem er ekki hægt að skilgreina hver eru. Við leggjum til að Framkvæmdasjóður ferðamannastaða fái 37,6 milljónir, verkefnið er afar brýnt fyrir ferðamannastaði landsins og það er atvinnuskapandi. Ég tek hins vegar eftir því að í tillögum meiri hluta fjárlaganefndar fyrir 3. umr. er, ef ég man rétt, lögð til hækkun upp á 20 milljónir.

Efnahags- og viðskiptaráðuneytið, þar er annar opinn tékki, Ýmis viðskipta- og bankamál upp á 23,5 milljónir. Hann tökum við út. Og svo komum við að Fjármálaeftirlitinu. Við þingmenn hlustuðum hér á dularfullar skýringar hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra þar sem hann virtist beina gagnrýni sinni á hæstv. fjármálaráðherra, en satt best að segja skildi sá sem hér talar lítið í því sem hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra sagði. Það er verið að bæta núna inn við 3. umr. 548 milljónum í þetta verkefni. Hér er verið að forgangsraða í þágu fjármagns en ekki velferðar. Við leggjum til 150 millj. kr. niðurskurð á þessum lið, e.t.v. bara táknrænt en við verðum að horfa til þess að heilsugæslunni blæðir. Okkur er dýrmætara að sinna sjúklingum en veiku fjármálakerfi. Ef menn vilja forgangsraða, velja þeir þá veikt fjármagnskerfi frekar en heilsugæsluna í landinu? Eru menn í vanda með þetta, eru stjórnarliðar í einhverjum vanda með þetta? Ég er það ekki og ekki hv. meðflutningsmaður minn, Lilja Mósesdóttir.

Það er eins með Samkeppniseftirlitið, það er tekið táknrænt niður um 20 milljónir. Ég vil líka segja varðandi Fjármálaeftirlitið að auðvitað ættu fjármálastofnanir að greiða þennan kostnað og sá á að greiða mest sem þarf að hafa mest eftirlit með. Það gefur augaleið. Þetta er afar einkennilegur liður. Samkeppniseftirlitið fer niður táknrænt um 20 milljónir af sömu orsökum.

Í umhverfisráðuneytinu er opinn tékki upp á ýmis verkefni, liður 14-190 sem við förum með niður um 20 milljónir. Við bætum við Landgræðslu ríkisins og það verður nú að horfa til þess að það hefur verið sérstakt áhugamál mitt í gegnum árin, þ.e. Bændur græða landið, sem er eitt athyglisverðasta landgræðsluverkefnið sem hefur verið unnið. Landgræðslan er að vinna að uppræktun á tötrum klæddu landi, ógrónu uppblásnu landi. Þetta vinna bændur sem best þekkja jörðina sína og best gera. Það er unnið ótrúlega gott starf á þessum vettvangi en það hefur verið svelt fjárhagslega. Þetta er miklu þýðingarmeira verkefni en til að mynda skógrækt sem ég ætla ekki að lasta hér. Skógræktin er minna landgræðsluverkefni en að vinna tötrum klætt land, uppblásið land. Það er oft plantað þar á landi sem er með gróðurþekju. Hvorar tveggja eru mikilvægar stofnanir en Landgræðsluna met ég framar og þá sérstaklega verkefnið Bændur græða landið.

Við höfum gert annað varðandi Náttúrufræðistofnun Íslands og Náttúrustofur. Við tökum frá Náttúrufræðistofnun Íslands 70 milljónir og deilum þeim á náttúrustofurnar úti á landi, þ.e. færum 70 milljónir af Náttúrufræðistofnun og setjum 10 milljónir á hverja náttúrustofu úti á landi. Náttúrustofurnar úti á landi eru þar sem eldarnir brenna, þar hafa menn sérþekkingu á landsvæðinu sem þeir vinna á og það má segja að þær séu augu og eyru Náttúrufræðistofnunar í viðkomandi landshluta. Þar er unnið gagnmerkt starf. Sú hugsun er líka í þessu að styrkja landsbyggðina, að fara ekki með allt hingað inn. Ekki er það stórfé sem er tekið þarna, 70 milljónir, en svona stofnanir munar svo sárlega mikið um hverja milljón. Hver einasta milljón getur skipt sköpum. Og þarna setjum við sem sé 10 milljónir á Neskaupstað, Vestmannaeyjar, Bolungarvík, Stykkishólm, Sauðárkrók, Sandgerði og Húsavík. Ég hygg að hin græna, norræna velferðarstjórn og stjórnarliðar hennar ættu ekki að þurfa að vera í vandræðum með að samþykkja þennan lið án þess að hugsa sig djúpt um.

Við hækkum á sýslumönnum öllum 5% upp, táknrænt. Þar vorum við aftur í sama vanda, að geta ekki fundið út hvar niðurskurðurinn í fyrra, 10% eða hvað það nú var, eða 5%, og niðurskurðurinn í ár, 1,5% átti hann að vera, lendir. Við urðum að velja þá leið sem við gerum varlega, förum upp um 5% sem kannski er miklu meira táknrænt en annað. Það er ljóst að á landsbyggðinni er löggæsla að verða í skötulíki. Þar sem ég þekki vel til í Árnessýslu er ótrúlega knappt á vakt þar. Þar er ótrúlegur fjöldi íbúa en svo bætist við þennan fjölda um helgar og á sumrin aragrúi Reykvíkinga og annarra sem sækja í náttúrufegurð héraðsins og eiga þar sumarbústaði.

Það er eins með heilsugæslustöðvarnar, við bætum við þær 600 milljónum. Þar erum við aftur í sama vanda með niðurskurðinn í fyrra og í ár, og til að athuga hver hefði verið skorin meira en önnur. Við setjum 600 milljónir hlutfallslega á allar heilbrigðisstofnanir, hlutfallslega eftir stærð þeirra. Þó býður mér í grun að sumar stofnanir hafi verið meira sveltar en aðrar en því miður, á þessum stutta tíma gafst ekki tóm til að kafa ofan í það. Ég veit að nú liggur fyrir vönduð skýrsla sem sjúkrahúsið á Sauðárkróki bað, að mig minnir, Deloitte endurskoðunarskrifstofu að vinna fyrir sig, eða Capacent, út af niðurskurði á Sauðárkróki síðasta ár. Og hver er skerðingin? Jú, búsetuskerðing blasir við. Fólk flytur ekki þangað vegna þess að það vantar grunnstoðir þjónustu. Fjölskyldufólk, barnafjölskyldur vilja vera nærri heilsugæslunni. Það blasir við búseturöskun, ekki bara að fólk komi ekki til staðarins heldur flytur það burt. Það er svo löngu kominn tími til að snúa við því sem ég kalla landsbyggðarfjandskap í fjárlögum, löngu kominn tími til þess.

Ég get nefnt annað dæmi um það varanlega tjón sem er búið að vinna á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni. Sjúkrahúsið á Selfossi eða heilsugæslan á Suðurlandi sá engan annan kost í stöðunni en að loka heilsugæslunni á Hellu, sem á upptökusvæði langt upp undir Heklurætur, og beina öllum niður í Árborg. Þetta er tilfinnanlegt fyrir Hellu, íbúa þar, og tilfinnanlegt fyrir allar nágrannasveitir. Þetta kemur í veg fyrir, eins og ég sagði áðan, að fólk flytji þangað eða búi þar.

Það var sagt hér í atkvæðaskýringu við 2. umr. fjárlaga að það skorti stefnu stjórnvalda í heilbrigðismálum. Ég tók undir það, en svo hef ég áttað mig á því að það er stefna fólgin í fjárlögunum. Hún er sú að hafa tvö stór sjúkrahús, helst eitt, og flytja sjúklinga. Verði maður veikur norður á Ströndum eða hvar sem það er þarf maður að komast á sjúkrahús, hvar sem það er. Ef felld er niður þjónustan á Sauðárkróki eru menn fluttir til Reykjavíkur til lækninga. Það er verið að flytja kostnað frá Árborg, frá Suðurnesjum, héðan og þaðan af landinu inn á Landspítala – háskólasjúkrahús sem ræður ekki við verkefnið. Það merkilega er að ég komst að því á árinu 2007, eftir að ég kom á þing í fyrsta skipti fyrir mitt kjördæmi, að þessi slagur hefði verið lengi. Það var niðurskurður á góðæristímanum á sjúkrahúsunum meira að segja líka, á Suðurnesjum og víðar, svokölluðum góðæristíma. Dagurinn, sjúkrarúmið, sólarhringurinn á Landspítalanum var þá um það bil 75 þús. kr. en var þá á Selfossi 50 þús. kr. Ég tek fram að þetta eru ekki algjörlega nákvæmar tölur hjá mér, en munurinn var þessi. Hann var gríðarlega mikill. Hvað vildu menn gera þá? Sérhæfa spítalana, sérhæfa sjúkrahúsin á Suðurnesjum, Selfossi, Vesturlandi og víðar til að þau gætu tekið til sín sjúklinga. Það er fullt af sjúklingum sem geta farið frá Reykjavík til Sauðárkróks ef þar er unnin sérhæfð þjónusta, með því að vinna þar sérhæfða þjónustu. Það er jafnlangt frá Reykjavík til Sauðárkróks og til baka eins og allir vita. Þá væri hægt að bæta við læknum þar og þá er hægt að sinna þessari þjónustu. Þetta er grunnþjónusta sem veldur því að fólk tekur ákvörðun um, ef hún fer, að flytja eða að koma ekki.

Ég vil taka fram í lokin að sá niðurskurður sem við erum hér að tala um vegur að mestu leyti upp þá útgjaldaaukningu sem við leggjum til í þágu velferðar.

Tillögurnar eru ábyrgar með þessum fyrirvara um hinn stutta tíma. Ég ítreka enn og aftur að það er unnt að fara mun dýpra í fjárlögin, einnig í tekjuhliðina sem ekki gafst tækifæri til, til að forgangsraða í þágu velferðar. Það bara gafst ekki tóm til þess á þessum stutta tíma. Og ég tek undir orð hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar, það er vandalaust að forgangsraða betur.

Það liggur fyrir á þskj. 480 breytingartillaga sem við komum saman í morgun eða seint í gærkvöldi um skatttekjur af séreignarsparnaði upp á 86,3 milljarða. Þau mistök urðu þar að ég var þar skráður sem 1. flutningsmaður og ég tek þau á mig í þessari tímapressu en þetta er tillaga sem hv. þm. Lilja Mósesdóttir hefur lengi talað fyrir og ég get séð þessar tölur fara í að greiða niður skuldir svo eitthvað sé nefnt, en ég læt hv. þm. Lilju Mósesdóttur eftir að rökstyðja þessa tillögu síðar á þessum fundi.