141. löggjafarþing — 32. fundur,  8. nóv. 2012.

fjáraukalög 2012.

153. mál
[11:07]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Björn Valur Gíslason) (Vg):

Forseti. Ég flyt álit meiri hluta fjárlaganefndar á frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2012.

Nefndin hefur haft frumvarpið til umfjöllunar og hefur í því skyni leitað skýringa hjá fjármálaráðuneyti og fagráðuneytum varðandi beiðnir um auknar fjárheimildir.

Nefndin hefur einnig farið yfir þau erindi sem borist hafa nefndinni. Meiri hlutinn gerir breytingartillögur við frumvarpið sem samtals nema 1.243,1 millj. kr. til lækkunar gjalda og 4.344,8 millj. kr. til lækkunar tekna á rekstrargrunni.

Áhrif af þessum breytingum má sjá í töflu á nefndaráliti. Þær leiða til þess að heildarjöfnuður versnar um 3,1 milljarð frá því sem gert var ráð fyrir í frumvarpinu.

Fjáraukalög hvers árs endurspegla að miklu leyti hvernig til tókst með framkvæmd fjárlaga innan ársins. Að öllu jöfnu má miða við að ef umfang gjaldahliðar fjáraukalaga lækkar milli ára hafi betur tekist til en áður með að halda fjárlög.

Tekjuhlið fjáraukalaga er aftur á móti frekar tengd þjóðhagsspá og óreglulegum liðum eins og eignasölu. Tekjuáætlun ríkissjóðs gerir nú ráð fyrir 4,3 milljarða kr. lækkun frá fjáraukalagafrumvarpinu. Veigamesta skýringin liggur í 2,7 milljarða kr. lækkun vaxtatekna þar sem vextir hafa lækkað mikið og er leiðrétt fyrir því nú við 2. umr.

Til margra ára hefur Ríkisendurskoðun, og reyndar einnig Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, bent á nauðsyn þess að takmarka útgjöld með því að draga úr vægi fjáraukalaga meðal annars með því að hafa varasjóð í fjárlögum hverju sinni til þess að mæta óvæntum útgjöldum.

Á undanförnum árum hefur tekist að koma á breytingum í þá veru að takmarka viðbótargjaldaheimildir í fjáraukalögum, þrátt fyrir niðurskurð á hverju ári allt frá árinu 2009. Að viðbættum tillögum fjárlaganefndar nema viðbótarheimildir nú rétt rúmum 2% af fjárlögum ársins. Það er eigi að síður heldur hærra hlutfall en gengur og gerist í flestum nágrannalöndum okkar.

Línurit í nefndarálitinu sýnir umfang fjáraukalaga sem hlutfall af fjárlögum hvers árs, bæði með og án vaxtagjalda. Eins og á því sést dregur úr vægi fjáraukalaga miðað við fjárlög. Yfirlitið nær til 2002 og hefur umfang fjáraukalaga aldrei verið lægra en einmitt nú sem hlutfall af fjárlögum síðustu tíu árin.

Langtímaáætlun í ríkisfjármálum sýnir glögglega að ekki má undir neinum kringumstæðum draga úr þeim aukna aga sem þó hefur tekist að koma á í ríkisútgjöldum á síðastliðnum árum. Vaxtakostnaður ríkissjóðs nemur um 15% af áætluðum heildartekjum á næsta ári og getur hæglega aukist þótt heildarskuldir lækki sökum þess að stór hluti lánskjara hans er háður markaðsaðstæðum sem eru almennt taldar vera óvenjuhagstæðar um þessar mundir. Fyrir bankahrunið nam vaxtakostnaður ríkisins um 5% af fjárlögum hvers árs sem þýðir að hann hefur þrefaldast á þessu árabili og er orðinn gríðarlega þungur baggi á rekstri ríkisins.

Eins og áður hefur komið fram gerir meiri hlutinn tillögur um breytingar á tekjuhluta fjárlagafrumvarpsins um að þær verði lækkaðar um ríflega 4,3 milljarða kr.

Ég mun gera nánari grein fyrir útgjaldahliðinni og breytingum á tillögum sem meiri hlutinn gerir á útgjaldahlið frumvarpsins og helstu atriðum þess. Stærsta einstaka breytingin er áfallin ríkisábyrgð vegna einkavæðingar bankakerfisins á sínum tíma en gert er ráð fyrir að það muni kosta okkur að þessu sinni um 3,1 milljarð kr. Sú upphæð er til komin vegna skuldabréfa sem gefin voru út fyrir einkavæðingu bankanna á meðan þeir voru í eigu ríkisins. Bréfin sem voru í eigu lífeyrissjóða og fleiri aðila voru með ríkisábyrgð sem varð síðan virk þegar bankarnir hrundu.

Það skal tekið fram að eftir sem áður gerir ríkið kröfur í þrotabú bankanna um endurheimtur á þessum ábyrgðum þannig að ekki er að fullu útséð með endi þess máls.

Það er líka rétt að minna á að frá hruni hefur ríkið, þ.e. þjóðin, þurft að leysa til sín 33 milljarða af slíkum ábyrgðum sem fylgdu hinum einkavæddu bönkum. Þannig voru 3 milljarðar teknir inn í fjáraukalögin 2009 vegna fallinna ábyrgða. 27 milljarðar voru gjaldfærðir í ríkisreikningi 2010 og svo er komið að fjáraukalögum núna.

Rétt er að minna á það að Alþingi samþykkti síðast í gær að setja á fót sérstaka rannsókn á einkavæðingu bankanna sem mun þá væntanlega leiða í ljós hvað gerðist og hvers vegna við erum í þeirri stöðu sem við erum í dag. Endurmat á áætlun í október um vaxtagjöld ríkissjóðs fyrir árið 2012 felur í sér að útgjöldin verða töluvert lægri en gert var ráð fyrir í frumvarpinu og er lagt til að fjárheimild verði lækkuð um sem nemur 4.385 millj. kr. á rekstrargrunni og 3.276 millj. kr. á greiðslugrunni.

Gerð er tillaga um aukin útgjöld til Fjármálaeftirlitsins sem er til komin vegna kostnaðar við vinnu vegna aðgerða á grundvelli neyðarlaganna 2008. Í fyrsta lagi er um að ræða kostnað vegna skilanefnda sem skipaðar voru á grundvelli laganna, en heildarkostnaður þeirra nemur tæpum 400 millj. kr.

Í öðru lagi er um að ræða ýmsan kostnað vegna yfirtöku viðskiptabankanna, meðal annars sérfræðiþjónustu, öryggisgæslu og tölvuþjónustu. Kostnaður vegna tapaðs stórmáls vegna Héðinsfjarðarganga nemur 577 millj. kr. og er gerð tillaga til breytingar í þá veru af meiri hluta fjárlaganefndar. Sá kostnaður er til kominn vegna skaðabóta sem íslenska ríkið var dæmt til að greiða vegna áætlaðs hagnaðar fyrirtækja sem gerðu tilboð í verkið og þau eru talin hafa orðið af þegar hætt var við gerð ganganna árið 2003.

Gert er ráð fyrir lægri útgjöldum til Ábyrgðasjóðs launa um 300 millj. kr. vegna endurmats á áætluðum útgjöldum í ljósi útkomu ársins það sem af er árs. Meiri hlutinn gerir tillögu um hækkun á útgjöldum til Atvinnuleysistryggingasjóðs upp á 257 millj. kr. til að leiðrétta atvinnuleysisbætur fólks sem hafði fengið greiddar bætur samhliða hlutastarfi á tímabilinu frá september 2010 til október 2012 en bæturnar þess voru skertar vegna mistaka. Skerðing vegna tekna var ofmetin og leiddi það til þess að fólk fékk lægri atvinnuleysisbætur en það hafði rétt á.

Meiri hluti fjárlaganefndar gerir tillögu um að 150 millj. kr. verði veittar til tækjakaupa á Landspítalanum og 50 millj. kr. kaupa á tækjum á Sjúkrahúsinu á Akureyri.

Á undanförnum áratug hefur fé til tækjakaupa verið skert jafnt og þétt á fjárlögum. Afleiðing þess er sú að tækin eru nú orðin úr sér gengin og uppfylla ekki lengur þær kröfur sem til þeirra eru gerðar. Það er fagnaðarefni að nú skuli í fyrsta skipti mögulegt í langan tíma, og eftir verstu efnahagserfiðleika sem þjóðin hefur nokkru sinni orðið fyrir, að snúa þessum málum til betri vegar.

Stefnt er að því að halda áfram á þeirri leið í fjárlögum næsta árs og má búast við breytingartillögum þess efnis við fjárlagafrumvarp ársins 2013.

Enn og aftur er gerð tillaga um stóraukin útgjöld vegna S-merktra lyfja eða alls upp á 785 millj. kr. Þar af er áætlaður 325 millj. kr. halli vegna nýrra lyfja sem tekin hafa verið upp á árinu án þess að gert hafi verið ráð fyrir því við afgreiðslu fjárlagaársins 2012, auk þess sem eldri lyfjum hefur verið ávísað vegna annarra sjúkdóma en þegar þau voru fyrst tekin í notkun. Því til viðbótar er gert ráð fyrir 460 millj. kr. umframútgjöldum vegna raunvaxtar í útgjöldum liðarins umfram forsendur fjárlaga 2012.

Núverandi fyrirkomulag á umsýslu S-merktra lyfja hefur verið í gildi frá árinu 2009 en við 2. umr. fjárlaga þess árs var ákveðið að færa fjárheimildir vegna S-merktra lyfja frá Landspítalanum og Sjúkrahúsinu á Akureyri yfir á fjárlagalið sjúkratrygginga. Samhliða þeirri breytingu var gert samkomulag milli Sjúkratrygginga Íslands annars vegar og sjúkrahúsanna tveggja hins vegar um umsýslu á greiðslu kostnaðar vegna S-merktra lyfja. Í samkomulaginu er meðal annars kveðið á um að sjúkrahúsin annist greiðslu kostnaðar fyrir sjúkratryggða vegna S-merktra lyfja en þar segir einnig að fjárveiting vegna þessa kostnaðar og þeirrar aukaumsýslu sem fyrirkomulagi þessu fylgir sé ákveðin í fjárlögum. Einnig er kveðið á um að sérstök kostnaðarnefnd, skipuð aðilum samkomulagsins, ákvarði og endurskoði kostnaðargrunn S-merktra lyfja árlega og skiptingu kostnaðar milli nýrra S-merktra lyfja og S-merktra lyfja sem þegar eru í notkun. Telja verður mikið álitamál hvort þær breytingar á fyrirkomulagi fjármálastjórnarinnar sem gerðar voru í lok árs 2008 hafi gefið góða raun þar sem ítrekað hefur þurft að bæta við fjárheimildum í fjáraukalögum vegna þessa liðar á undanförnum árum.

Forseti. Það er morgunljóst að mínu mati að endurskoða þarf alla áætlanagerð vegna Sjúkratrygginga Íslands að því leyti sem snýr að kostnaðaraukningu vegna lyfjakaupa. Á síðasta ári voru við afgreiðslu fjáraukalaga samþykkt aukin útgjöld upp á ekki miklu lægri upphæð en við erum að tala um í dag og þannig hefur það verið undanfarin ár. Hér er um gríðarlega háar fjárhæðir að ræða, kannski er sumt af þessu óumflýjanlegt, þ.e. það þarf væntanlega að innleiða ný lyf, það er magnaukning í lyfjum, bæði hér á landi og annar staðar, en áætlanagerð hvað þetta varðar, þ.e. varðandi kostnað á S-merktum lyfjum, varðandi rekstur Sjúkratrygginga Íslands, er algjörlega úr böndum. Það gengur ekki öllu lengur að leggja fram fjárlög sem ekki standast betur hvað þessa liði varðar en á hefur reynt nú í ár og á liðnum árum langt aftur í tímann. Á því verðum við að taka og finna leiðir til að gera betur en við gerum í dag.

Meiri hluti fjárlaganefndar gerir tillögu um 125 millj. kr. til aukinna útgjalda vegna halla á útgáfu vegabréfa frá Þjóðskrá Íslands sem eru til komin vegna aukinnar endurútgáfu vegabréfa og kaup á fleiri bókum til þess umfram það sem áætlað var.

Framlag til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga mun samkvæmt tillögum meiri hlutans aukast um 141 millj. kr., sem er samkvæmt lögboðnu framlagi miðað við hlutfall sjóðsins af skatttekjum ríkisins, en eins og allir vita taka tekjur jöfnunarsjóðs mið af skatttekjum ríkisins sem hafa aukist mjög að undanförnu og nýtur jöfnunarsjóður þess þá að fá til sín aukinn hlut af þeim skatttekjum.

Meiri hlutinn gerir tillögu um að útgjöld vegna rannsóknarnefnda Alþingis verið aukin um 190 millj. kr. frá því sem nú var gert ráð fyrir í fjárlögum. Í fjárlögum ársins voru veittar 140 millj. kr. til rannsóknar á tveimur málum sem Alþingi ákvað að ráðast í að kanna, auk þess sem 48 millj. kr. voru á fjáraukalögum 2011 til þessara verkefna. Heildarkostnaður vegna þeirra tveggja rannsókna sem nú eru í gangi er orðinn 378 millj. kr. og má vænta þess að hann aukist eitthvað umfram það sem hér er gert ráð fyrir þar sem þeim er ekki enn lokið.

Forseti. Ég hef hlaupið hér yfir helstu atriði varðandi breytingartillögur meiri hluta fjárlaganefndar við fjáraukalagafrumvarp 2012 og gert grein fyrir þeim. Fyrir utan einstaka liði og breytingartillögur er líka rétt að horfa til þess hvað fjáraukalög segja okkur, eins og ég nefndi áðan, þ.e. hvernig okkur tekst að halda rekstri ríkisins innan fjárlaga hvers árs. Vitna ég þá aftur í þær upplýsingar og línurit sem eru á blaðsíðu 2 í nefndaráliti meiri hlutans í þessu sambandi sem sýna hvernig þróun fjáraukalaga hefur verið síðasta áratuginn.

Það verður ekkert um það deilt að við höfum náð árangri hvað það varðar að draga úr umfangi fjáraukalaga sem hlutfalli af fjárlögum hvers árs og það vitnar jafnt að mínu mati um bætta áætlanagerð ríkisins, stjórnvalda og Alþingis. Það vitnar sömuleiðis um ríkan vilja fjárlaganefndarmanna þvert á flokka til að hafa eftirlit með fjárreiðum ríkisins, sem ég tel að hafi breyst til betri vegar á undanförnum árum. Um það er full samstaða í þinginu, í fjárlaganefnd og hjá stjórnvöldum og mér finnst fjáraukalagafrumvarpið í ár bera vitni um að þar hafi okkur tekist bærilega upp þótt vissulega megi gera betur og að því eigum við auðvitað að stefna hverju sinni.

Fjárlaganefnd hefur verið samstiga í þeim áherslum sínum og má ekki síst þakka það þeim árangri sem náðst hefur. Á hitt ber hins vegar að líta að betur má gera hvað þetta varðar og aðra þætti. Þá langar mig sérstaklega að minnast á eðli fjáraukalaga; til hvers setjum við fjáraukalög? Hvert er hlutverk þeirra? Í fjáraukalögum eru gerðar breytingar á gildandi fjárlögum hvers árs og má deila um hvort einstök atriði fjáraukalaga, til dæmis nú í ár og undanfarin ár og áratugi, hvort tilteknar breytingartillögur sem Alþingi hefur samþykkt hafi átt rétt á að vera í þeim lögum ef litið er til fjárreiðulaga. Í gildandi fjárreiðulögum er einungis gert ráð fyrir því að leita megi heimilda til breytinga á fjáraukalögum ef ófyrirséð atvik valdi því að grípa þurfi til ráðstafana sem ekki var gert ráð fyrir í fjárlögum, þ.e. ný lagasetning, kjarasamningar eða eitthvað sem ekki mátti sjá fyrir þegar fjárlög voru sett á hverjum tíma. Það eru þau atvik sem eiga heima í fjáraukalögum. En það verður að segja eins og er að Alþingi, stjórnvöld og þingið hafa farið nokkuð frjálslega með þá grein fjárreiðulaga lengi vel og um það ber umfang fjáraukalaga aftur í tímann gott vitni. Það má örugglega finna slík dæmi í þeim fjáraukalögum sem nú liggja fyrir Alþingi, án þess að ég ætli að verja það að neinu leyti.

Við verðum að taka mun fastar á þessum málum en gert hefur verið. Það á við okkur í fjárlaganefnd, það á við um þingið. Það varðar aga í ríkisfjármálum, það krefst þess að við vöndum okkur betur í áætlanagerð, að við fylgjumst betur með ríkisútgjöldum og náum þannig betri tökum fjárlögum hvers árs en sagan vitnar um að gert hafi verið. Það gerir engum gagn að vera með lausatök á fjármálum ríkisins sem við vitum öll hvað kann að kosta okkur. Ég hvet þingið og líka fjárlaganefnd til að færa fjáraukalög nær því sem segir í fjárreiðulögum þótt við höfum vissulega færst nær þeim raunveruleika, að gera enn betur í þessum efnum. Ég held að það sé góður vilji til þess í fjárlaganefnd. Stjórnvöld verða að fá þau skilaboð frá okkur og þinginu að þannig eigi það að vera.

Virðulegi forseti. Ég hef nú hlaupið yfir helstu atriði í þeim breytingartillögum sem meiri hluti fjárlaganefndar leggur til við fjáraukalagafrumvarp ársins 2012 og gert grein fyrir nefndaráliti meiri hlutans hvað það varðar.

Undir nefndarálitið skrifa auk þess sem hér stendur, hv. þingmenn Sigmundur Ernir Rúnarsson, Lúðvík Geirsson, Valgerður Bjarnadóttir og Björgvin G. Sigurðsson. Ég vonast til þess að við munum eiga ágætisumræður um fjáraukalögin, efnislega um tillögurnar og markmið fjáraukalaga og hvernig bæta megi fjárlagagerð ríkisins enn frekar en þó hefur tekist að gera og er óumdeilanlegt.