141. löggjafarþing — 32. fundur,  8. nóv. 2012.

fjáraukalög 2012.

153. mál
[13:30]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til fjáraukalaga. Ég vil byrja á því að þakka ágætissamstarf í fjárlaganefnd þó að það sé töluverður áherslumunur á því hvernig við nefndarmenn viljum sjá fjáraukalagafrumvarpið og þær breytingar sem gerðar hafa verið á því.

Ef við berum saman fjárlögin fyrir 2012 og tillögur í frumvarpi til fjáraukalaga hefur heildarjöfnuðurinn versnað um 5 milljarða kr. frá því að fjárlögin voru samþykkt eða um 23,9%. Það er mun verri árangur en að var stefnt og því miður í samræmi við varnaðarorð þess sem hér stendur við samþykkt fjárlaga árið 2012.

Frumjöfnuður hefur lækkað um 5,8 milljarða kr. eða 16,1%. Frumtekjur hafa hækkað um 6,8 milljarða kr. Meiri hlutinn afgreiddi frumvarpið með hækkun frumútgjalda um 3,1 milljarð kr. Vaxtaáhætta ríkissjóðs endurspeglast í breytingu vaxtagjalda. Við framlagningu frumvarpsins voru vaxtagjöld hækkuð um 3,1 milljarð kr. en við 2. umr. voru þau lækkuð um 4,4 milljarða kr. Þá ber að hafa í huga ýmsa veikleika í frumvarpinu þar sem ekki hefur verið tekið á öllum gjöldum sem koma til með að auka halla ríkissjóðs meira en gert er ráð fyrir.

Í tekjuáætlun fjárlaga 2012 var gert ráð fyrir 20,7 milljörðum kr. í formi nýrrar tekjuöflunar. Áætlað er að fjársýsluskattur skili svipuðum tekjum og upphaflega var gert ráð fyrir enda þótt hann hafi verið útfærður með öðrum hætti í meðförum þingsins en áætlað var.

Ný lög um veiðigjöld munu væntanlega skila 3 milljarða kr. hærri tekjum en áætlað var í fjárlögum. Hins vegar munu markmið um eignasölu að fjárhæð 7,6 milljarðar kr. ekki nást, en þó er enn reiknað með 716 millj. kr. af sölu ótilgreindra eignarhluta. Að mati 2. minni hluta væri eðlilegt að fyrir lægi hvað er fyrirhugað að selja. Gert er ráð fyrir hærri arðgreiðslum en í forsendum fjárlaga. Þannig muni arður frá Landsvirkjun skila 1,8 milljörðum kr. og frá Seðlabanka Íslands 3,5 milljörðum kr. 2. minni hluti bendir á að skattlagning á lífeyrissjóði mun lækka lífeyri í framtíðinni þar sem ekki var gert ráð fyrir skattinum við ákvörðun iðgjalda.

Í nefndaráliti um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2012 lagði 2. minni hluti fram tillögur sem byggðust á hófsamri og ábyrgri miðjustefnu sem og efnahags- og atvinnumálatillögum Framsóknarflokksins. Útfærðar voru leiðir til að auka tekjur ríkissjóðs, örva hagvöxt og koma hjólum atvinnulífsins af stað.

Það frumvarp sem ríkisstjórnin lagði fram og átti að vera grundvöllur að fjárlögum ársins 2012 hefur því miður ekki náð að örva hagkerfið eins og væntingar stóðu til. 2. minni hluti leitaðist við að vernda velferðarkerfið í tillögum sínum fyrir fjárlagaárið 2012. Í fjárlögum fyrir árið 2011 var gengið nærri heilbrigðiskerfi landsmanna og lagt af stað í grundvallarbreytingar á því án þess að fyrir lægi stefna og áætlun um fyrirkomulag heilbrigðisþjónustunnar. Ekki var heldur gerð gangskör að því að gera úttekt á byggðalegum áhrifum niðurskurðarins þrátt fyrir loforð í þá veruna.

Í þeim álitum sem 2. minni hluti hefur sent frá sér um fjárlagagerðina hefur ítrekað verið bent á mikilvægi aukins aga við gerð fjárlaga. Í 44. gr. laga um fjárreiður ríkisins, nr. 88/1997, segir:

„Valdi ófyrirséð atvik, kjarasamningar eða ný löggjöf því að grípa þarf til sérstakra fjárráðstafana sem ekki var gert ráð fyrir í fjárlögum ársins skal leitað heimilda fyrir þeim í frumvarpi til fjáraukalaga. Heimilda fyrir fjárráðstöfunum af þessu tagi, sem grípa þarf til eftir samþykkt fjáraukalaga, skal leitað í lokafjárlögum, sbr. 45. gr.

Öðrum óskum um breyttar heimildir til fjárráðstafana en getur í 1. mgr. skal jafnan vísað til ákvörðunar Alþingis.“

Eins og fram kemur í lagagreininni skal ekki veita heimildir í fjáraukalögum vegna fyrirséðra útgjalda og ákvæði laganna eru því ekki alltaf virt sem skyldi. Í því sambandi er rétt að hafa í huga að fjárlög eiga að endurspegla raunhæfar áætlanir. Frumvarp þetta bendir því miður til þess að enn sé langt í land með að stjórnvöld leggi fram nógu vandaðar áætlanir og að nauðsynlegum aga sé náð við framkvæmd fjárlaga.

Við yfirferð frumvarpsins hafnaði meiri hluti fjárlaganefndar því að senda frumvarpið til umsagnar hjá Ríkisendurskoðun eins og hefð er fyrir. Stofnunin hefur hingað til verið talin best til þess fallin að veita slíka umsögn. 2. minni hluti gagnrýnir verklag meiri hluta fjárlaganefndar og bendir á brýna nauðsyn vandaðrar málsmeðferðar og aukins gagnsæis við gerð fjáraukalaga.

Ég vil taka fram að ég mundi vilja sjá álit frá Ríkisendurskoðun án þess að fyrir lægi beiðni frá fjárlaganefnd. Ég tel að stofnunin mundi þannig sýna fram á sjálfstæði sitt. Hún á ekki að fara eftir því sem stjórnmálamenn segja á hverjum tíma. Hún á að veita bæði Alþingi og stofnunum aga og aðhald. Ég vona því að Ríkisendurskoðun komi með slíkt álit þrátt fyrir að ekki hafi borist formlegt erindi þess efnis frá fjárlaganefnd.

Eins og hefð er fyrir lagði formaður fjárlaganefndar til að meiri hlutinn gerði breytingartillögur ríkisstjórnarinnar að sínum en auk þess voru samþykktar breytingartillögur um fjárveitingar til Alþingis. Að mati 2. minni hluta vekur þessi aðferðafræði upp spurningu um sjálfstæði Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu. Meiri hluti fjárlaganefndar virðist telja það hlutverk sitt að koma ákvörðunum ríkisstjórnarinnar í gegnum Alþingi fremur en taka sjálfstæða afstöðu til mála því engar greiningar hafa verið gerðar af hálfu nefndarinnar á einstökum fundum. Fundir fjárlaganefndar virðast einungis vera kynningarfundir af hálfu ráðuneytanna á þeim tillögum sem þau hafa komið í frumvarpið. 2. minni hluti telur eðlilegt að Alþingi beiti sér fyrir vandaðri vinnubrögðum í framtíðinni.

Ég vil taka fram að ríkt hefur góð og mikil samstaða innan fjárlaganefndar um breytingar á nýjum fjárreiðulögum. Það var ráðist í slíkar breytingar í lok 10. áratugarins eða í kringum 1997–1998 og voru þær umbætur sem þá voru gerðar til mikilla bóta. Ég bind miklar vonir við að vinnu við nýtt frumvarp verði lokið núna um áramótin og það verði klárað fyrir kosningar. Ég finn að um þessa vinnu er breið og mikil samstaða um á Alþingi og ég er sannfærður um að ef við náum að koma þessum breytingum af stað, jafnvel þótt mér skiljist að þar séu hugsanlega einhverjar breytingar sem maður er ekkert endilega sammála, sé hægt að spara gríðarlega mikla fjármuni í framtíðinni.

Ég veit fyrir víst að eitt af markmiðum breytinganna er að leggja af notkun fjáraukalaga nema í algerum undantekningartilvikum. Gert er ráð fyrir að óvissusjóðir taki á óvæntum útgjöldum og hækkun útgjalda til eins málaflokks lækki útgjöld þess næsta þannig að heildarramminn eins og hann er ákveðinn af Alþingi haldi sér. Ef þessar breytingar nást í gegn tel ég að það verði af hinu góða. En frumvarp til fjáraukalaga eins og það er lagt fram núna sýnir því miður að við eigum svolítið langt í land og þá kannski sérstaklega framkvæmdarvaldið. Þetta snýst um að auka vægi Alþingis í fjárlagagerðinni. Allir þingmenn voru sammála um að það þyrfti að vinna meira í því að efla sjálfstæði þingsins og ég tel að ný fjárreiðulög væru mikið og gott skref í þá veru.

Í frumvarpinu eru nefnd nokkur dæmi um að framkvæmdarvaldið fari ekki að fyrirmælum fjárlaga eða gæti þess ekki að fjárveitingar séu fyrir hendi til verkefna sem það síðan ræðst í. Sem dæmi má taka að útgjöld Atvinnuleysistryggingasjóðs jukust um 791,4 millj. kr. þar sem ekki varð af aðhaldsáformum velferðarráðuneytisins sem gert hafði verið ráð fyrir í fjárlögum fyrir árið 2012. Velferðarráðuneytinu láðist að gera ráð fyrir útgjöldum vegna almennra starfsþjálfunarsamninga, reynsluráðninga o.fl. að fjárhæð um 300 millj. kr. og í forsendum fjárlaga var ekki gert ráð fyrir 338 millj. kr. til verkefnisins Vinnandi vegur enda þótt starfshópur hefði starfað lengst af á árinu 2011 við að undirbúa það. Ekki var gert ráð fyrir greiðslu atvinnuleysisbóta til fólks í atvinnuleit erlendis og nemur það vanmat 212 millj. kr. Ekki var gert ráð fyrir fjárheimild vegna yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga 2011 og er því farið fram á 75,3 millj. kr. í frumvarpinu. Þá má telja upp fjölmarga liði sem sýna að vanáætlun fjárlaga birtist í frumvarpinu, t.d. rekstrarhalla framhaldsskóla, málsvörn Íslands við EFTA-dómstólinn, þjóðaratkvæðagreiðslu vegna tillagna stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá, málefni hælisleitenda, Vegagerðina, Landeyjahöfn, fjarskiptasjóð, ýmsa stóra fjárlagaliði velferðarráðuneytis, endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar o.fl.

Við samþykkt fjáraukalaga verða veittar heimildir vegna ýmissa kostnaðarþátta sem ekki var heimild fyrir þegar tekin var ákvörðun um að stofna til útgjaldanna. Þessi aðferð er í samræmi við hefð sem myndast hefur í áranna rás og dregur verulega úr aga fjárlaga. Að mati 2. minni hluta verður ekki gerð bragarbót á þessu fyrr en lagaheimildir um ábyrgð forstöðumanna og ráðherra verða hertar þannig að þeir standi með skýrum hætti reikningsskil gjörða sinna áður en aukafjárveitingar gera óheimil fjárútlát heimil.

Ég held að þetta sé mikill og stór þáttur í því að auka aga við fjárlagagerðina. Ríkisendurskoðun hefur í áranna rás bent á fjölmörg atriði sem sýna að ýmsar stofnanir og ráðuneyti fara fram úr fjárlögum og því miður höfum við dæmi þess að háar fjárhæðir lenda á ríkissjóði einfaldlega vegna þess að ráðuneyti sem bera ábyrgð á stofnunum sínum fylgja ekki nægilega vel eftir þeim fjármunum sem til þeirra renna.

Því hefur verið velt upp í fjárlaganefnd hvort ákvæði um stjórnsýslu ráðherra sem varða ábyrgð og áminningar séu nægilega sterk. Í svörum sem ráðuneytin og embættismenn hafa gefið kemur fram að áminningarkerfið sé þannig að mjög erfitt sé að beita því, viðurlögin séu mjög ströng og það sé það slæmt fyrir forstöðumann að fá áminningu að ráðuneytin sjálf hugsi sig tvisvar og jafnvel þrisvar um áður en þau beita slíka ákvæði. Það leiðir hins vegar af sér að eftirfylgni og það sem maður getur kallað varúðarnet sem þarf að vera til staðar skortir einfaldlega. Þess vegna tel ég að Alþingi verði að velta því mjög vandlega fyrir af hverju, ef Ríkisendurskoðun er sú stofnun sem við höfum til að fylgja hlutum eftir og kanna í hvað fjármunir fara, hún sé í raun orðin valdalaus í dag. Það má segja að ef meiri hluti fjárlaganefndar vill ekki fá álit hennar á fjáraukalögum, eins og hefð hefur verið í gegnum árin, sé það í raun einhvers konar vantraust á störf Ríkisendurskoðunar. Þetta er einfaldlega staða sem er því miður ekki boðleg, hvorki fyrir Alþingi, framkvæmdarvaldið né almenning í landinu. Við verðum að hafa og treysta þeim stofnunum sem eiga að fylgja eftir og hafa eftirlit með þeim fjármunum sem ríkið sýslar með.

Ég tel líka mikilvægt að við náum upp þessum aga vegna þess að ef það er einhver þáttur sem eykur verðbólgu á Íslandi, sem leiðir svo af sér hækkun á lánum einstaklinga og fyrirtækja, eru það útgjöld úr ríkissjóði. Það má í rauninni segja að útgjaldaaukning úr ríkissjóði geti valdið þenslu sem leiðir af sér hærri verðbólgu. Ég hef hins vegar verið talsmaður þess að við höldum í íslensku krónuna og hef sagt að hægt sé að ná þeim aga sem þarf til að lifa með henni. Ég tel ekki ráðlegt að taka upp evruna og er sannfærður um að það mundi skapa meiri og stærri vandamál fyrir íslenska þjóð, t.d. aukið atvinnuleysi, ef við hefðum ekki sveigjanleika með gjaldmiðilinn okkar. Ég vil benda á sem dæmi að Danir, jafnvel þó að þeir séu tengdir evrunni, vilja hafa 10% sveiflumöguleika á sinni krónu til að geta tekið á sveiflum í hagkerfinu. Og jafnvel þó að Svíar séu í Evrópusambandinu eru þeir með sjálfstæðan gjaldmiðil sem hefur kannski sett þá í mun sterkari stöðu en ella meðal annarra Evrópuþjóða.

Fjárlaganefnd fór til Svíþjóðar og kynnti sér fjárlagagerðina þar. Svíar lentu í sams konar vandræðum og Íslendingar, þeir urðu fyrir áfalli fyrir um 20 árum síðan, það skall á kreppa. Sú kreppa var kannski ólík þeirri sem við erum að glíma við vegna þess að það var ekki bankakrísa heldur var orsök hennar í raun bara útgjaldaaukning.

Við Íslendingar höfum haft þann sið að ráðherrar hafa haft heimild til að ráðstafa fjármunum. Okkur var sagt að þannig hefði þetta verið fyrir 20 árum í Svíþjóð en það hafi verið liður í því að auka aga við fjárlagagerðina að taka þær heimildir af ráðherrum. Núna dettur engum heilvita manni eða þingmanni í hug að lofa útgjöldum ef þau eru ekki innan þess ramma sem Alþingi hefur sett sér. Þá komum við aftur að þeirri mikilvægu vinnu sem á sér stað við ný fjárreiðulög vegna þess að ef okkur tekst að klára þau í þinginu verðum við komin með miklu stífari og sterkari ramma utan um fjárlagagerðina en hefur tíðkast hingað til. Það er einmitt það sem við erum að glíma við í dag, fjáraukalögin sem eru hér til umræðu eru því miður því marki brennd að menn virðast nota þau til að víkka út rammann sem settur var í fjárlögin fyrir árið 2012.

Ég minntist áðan í ræðu minni á vaxtagjöldin sem hafa sveiflast mjög mikið frá því að fjáraukalagafrumvarpið var lagt fram í haust og núna við 2. umr. eða um það bil 7 milljarða kr. Vaxtagjöld erlendra lána hækkuðu um 3,2 milljarða þar sem ekki hafði verið gert ráð fyrir lántökum ríkissjóðs hjá Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi í árslok 2011 og 1 milljarðs bandaríkjadala skuldabréfaútgáfu á erlendum mörkuðum í maí sl. Ákvörðun um að draga á norrænu lánin lá ekki fyrir fyrr en í lok ársins þegar erlendar heildarskuldir ríkissjóðs voru auknar um 7% af vergri landsframleiðslu, með það að markmiði að styrkja gjaldeyrisvaraforða Seðlabankans. Í mars 2012 var síðan tekin ákvörðun um að greiða lán Norðurlanda niður um 44,5 milljarða kr. Í byrjun maí gekk ríkissjóður frá samningum um útgáfu skuldabréfa til tíu ára að fjárhæð 1 milljarður bandaríkjadala, sem nam á þágildandi verðlagi 124,5 milljörðum kr.

Útgáfa þessara skuldabréfa kom í kjölfar útgáfu ríkissjóðs til fimm ára á 1 milljarðs bandaríkjadala skuldabréfi 11 mánuðum fyrr. Þá var ákveðið að nýta útgáfuna til niðurgreiðslu erlendra skulda ríkissjóðs og Seðlabanka og í júní greiddi ríkissjóður niður lán Danmerkur, Svíþjóðar og Finnlands fyrir að jafnvirði 80 milljarða kr. Vaxtakostnaður erlendra lána eykst því sem nemur lántökunni í árslok 2011 auk þess sem vextir skuldabréfaútgáfanna eru hærri en lán Norðurlandanna sem greidd voru niður. Í frumvarpinu er leiðrétt fyrir áætluðum hækkuðum vaxtagjöldum vegna endurfjármögnunar fjármálastofnana um 600 millj. kr. en þar á meðal eru vextir af 19,2 milljarða kr. skuldabréfi sem ríkissjóður gaf út vegna SpKef með áföllnum vöxtum frá mars 2011. 2. minni hluti vill velta því upp að svo virðist sem það hefði verið ódýrara fyrir ríkissjóð að halda sig við Norðurlandalánin í stað þess að efna til þessarar dýru útgáfu skuldabréfa í bandaríkjadölum. Svo virðist sem vaxtakostnaðurinn hafi í raun aukist um 3 prósentustig eða úr bilinu 3–3,5% upp í 6%.

Seðlabankinn hefur útskýrt þetta þannig að það hafi verið mikilvægt að sýna að Íslendingar gætu fjármagnað sig á almennum markaði, en svo virðist, eins og ég sagði áðan, að þetta muni hafa í för með sér meiri kostnað fyrir ríkissjóð en við hefðum haft af því að halda í Norðurlandalánin. Það má líka velta upp þeirri spurningu hvort við hefðum ekki verið betur sett með að fá lán frá vinaþjóðum okkar á Norðurlöndunum en að fjármagna okkur á almennum markaði í bandaríkjadölum þar sem innheimta verður væntanlega eins og gengur og gerist á almennum markaði og engar tilslakanir gefnar í þeim efnum.

Það sem ég tel líka rétt að velta upp er vandi Íbúðalánasjóðs. Framkvæmdastjóri Íbúðalánasjóðs hefur varað við fjármögnunarvanda sjóðsins og taldi að hann næmi um 12 milljörðum kr. um mitt ár. 2. minni hluti vekur athygli á því að þrátt fyrir að ríkissjóður hafi nýlega varið 33 milljörðum kr. til að endurreisa sjóðinn er vandinn aftur orðinn a.m.k. helmingur þeirrar fjárhæðar. Því miður bendir slíkt til að það séu einfaldlega ekki komin öll kurl til grafar í fjármögnunarvanda sjóðsins en þó liggur fyrir að fjárþörf fjárlaga var vanmetin um fjárhæð sem nemur raunverulegum vanda sjóðsins.

Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að hækkun gjalda frá forsendum fjárlaga stafar m.a. af bótagreiðslum vegna vinnumarkaðsúrræða á vegum Atvinnuleysistryggingasjóðs og áætlunum um útgjöld vegna bóta samkvæmt lögum um félagslega aðstoð en þar vega þyngst sérstök uppbót lífeyrisþega og heimilisuppbót. Jafnframt hækkaði áætlun um tekjutryggingu ellilífeyrisþega við endurmat miðað við útkomu fyrstu sjö mánaða ársins og skýrist það af því að tekjur lífeyrisþega sem koma til skerðingar á bótarétti reyndust hafa verið ofáætlaðar þegar gögn samkvæmt skattálagningu ársins lágu fyrir.

Einnig er í frumvarpinu gerð sú breyting að styrkir vegna útborganlegs skattfrádráttar nýsköpunar- og þróunarverkefna samkvæmt nýlegum lögum eru færðir á gjaldahlið ríkissjóðs en þeir hafa fram að þessu verið færðir á tekjuhlið. Ekki var gert ráð fyrir fjárveitingu vegna þeirra í fjárlögum fyrir árið 2012 og hækkar útgjaldahlið ríkissjóðs sem þessu nemur. Þá eru horfur á að vanáætlaðar hafi verið hækkanir á lífeyri ríkisstarfsmanna sem hafa hafið töku lífeyris og ríkissjóður stendur skil á til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins.

Ýmis önnur ófyrirsjáanleg útgjöld hafa fallið til á árinu eins og fram kemur í frumvarpinu, svo sem hærri rekstrarkostnaður Vegagerðarinnar sem nemur um 300 millj. kr. vegna reksturs Herjólfs og 420 millj. kr. vegna aukins kostnaðar við snjóruðning og hálkuvarnir sl. vetur. Ég held að rétt sé að benda á að það er í raun ófært að rekstur Herjólfs fari stöðugt langt fram úr áætlunum þó að sá sem hér stendur skilji hina gríðarlega miklu samgöngubót sem rekstur hans er fyrir Vestmannaeyjar og íbúana þar. Þetta er einfaldlega eitthvað sem þarf að vera rétt í bókhaldi ríkissjóðs þannig að við stöndum ekki frammi fyrir því nánast á hverju ári að leggja fram stóraukna fjármuni í reksturinn.

Það má líka nefna að gert er ráð fyrir endurgreiðslum vegna kvikmyndagerðar á Íslandi upp á 545 millj. kr. og eru þær sem því nemur hærri en fjárheimild fjárlaga. Í fjárlögum var eingöngu gert ráð fyrir fjárheimild til að mæta áætluðum óafgreiddum styrkveitingum vegna ársins 2011. Talið er að þær skuldbindingar hafi verið vanáætlaðar um 145 millj. kr. og einnig eru horfur á að nýjar skuldbindingar vegna sjónvarpsþátta og kvikmynda á þessu ári verði um 400 millj. kr.

Ég held að það sé ágætt, virðulegi forseti, að við veltum þessu fyrir okkur. Það er jákvætt að við búum til gjaldeyri og aukum atvinnu í landinu með því að fá stórfyrirtæki til að koma hingað og framleiða myndir sínar. En það er með þetta eins og annað að það má ekki verða krani sem einfaldlega er skrúfað frá og það bitnar svo á öðrum mikilvægum liðum í fjárlögum ársins eins og velferðarkerfinu, öldruðum og þeim sem minna mega sín. Það þarf að mínu mati að búa svo um hnútana að eitthvað hámark sé sett á þessar endurgreiðslur þannig að það liggi fyrir á hverju ári um hvað er að ræða eða þá að umsóknir verða að vera þannig úr garði gerðar að þær gefi raunsæja mynd af því hvað þetta komi til með að kosta ríkissjóð. Ég held að við séum einfaldlega þannig stödd, við Íslendingar, að við verðum að sjá fram í tímann. Heimilisbókhaldið verður að vera þannig að öll útgjöld liggi fyrir en komi ekki aftan að fólki.

Þá er gert ráð fyrir í frumvarpinu að ríkið þurfi að greiða 355 millj. kr. vegna þjónustusamnings sem gerður var af hálfu fjarskiptasjóðs við Farice ehf. til að tryggja rekstur á tveimur sæstrengjum milli Íslands og Evrópu en ekki var gert ráð fyrir fjárheimild til þess í gildandi fjárlögum. Loks má nefna að kostnaður við atkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá nemur um 240 millj. kr

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra, virðulegi forseti. Það liggur fyrir að breyta þarf fjárreiðulögum og því vinnulagi sem viðgengist hefur við gerð fjárlaga. Ég er samt bjartsýnn á að það verði gert og er ánægður með að finna vilja hjá meiri hlutanum til að stíga nauðsynleg skref. Ég vil ítreka þau orð mín að ég tel mikilvægt að sú vinna klárist fyrir komandi kosningar vegna þess að við vitum ekki hvað tekur við, hvað ný fjárlaganefnd gerir. Ég óttast að það taki hugsanlega einhvern tíma að vinna upp á nýtt þá samstöðu sem hefur náðst í þessari nefnd nú um fjölmörg ágæt verkefni.