143. löggjafarþing — 32. fundur,  4. des. 2013.

leiðrétting verðtryggðra námslána.

[15:14]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Svar ráðherra veldur mér ákveðnum vonbrigðum og ég vil benda honum á að þegar Sjálfstæðisflokkurinn myndaði ríkisstjórn með Framsóknarflokki árið 1991 voru settir vextir á námslán. Áður hafði verið litið svo á að vextirnir af lánunum til samfélagsins væru ágóðinn af aukinni menntun, ágóði af veitingu námslána.

Varðandi það að fólk greiði hlutfall af launum sínum í námslán þá er það hárrétt en ég bendi á að þegar fólk verður komið á ellilífeyrisaldur með mun skertari tekjur en það hefur þegar það er starfandi á vinnumarkaði þá verður það áfram að greiða af þessum lánum.

Ég skil ekki heldur hvar sú ákvörðun var tekin að ekki ættu öll verðtryggð lán að falla undir þetta, sérstaklega í ljósi þess að hæstv. ráðherra taldi í sumar eðlilegt að það yrði skoðað eftir að tillögur sérfræðingahópsins lægju fyrir. Mér finnst hann tvísaga í þessu máli (Forseti hringir.) og ekki tala í samræmi við það sem hann sagði hér í sumar.