143. löggjafarþing — 32. fundur,  4. des. 2013.

dýraeftirlit.

[15:17]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að skoða málið í framhaldi af umræðu sem var í gær í þinginu um breytingu á lögum um velferð dýra, þar sem verið er að lágmarka eftirlit eins og kostur er. Það virðist vera einhver mantra núverandi ríkisstjórnar að eftirlit eigi helst að vera lítið, og talað um iðnað í því sambandi. En mig langar að gera uppsagnir starfsmanna að umtalsefni. Gert hafði verið ráð fyrir því að sex starfsmenn, held ég, að minnsta kosti mundu sinna þessu starfi víðs vegar um landið. Í morgun kom fram hjá fjárlaganefnd að talið var að ráðningarsambandi hefði verið komið á þótt ekki væri búið að skrifa undir ráðningarsamninga.

Nú er mér kunnugt um að fólk hafi sagt upp störfum, flutt sig til og jafnvel keypt sér húsnæði, fólk sem ætlaði að sinna þessum störfum, og stendur nú frammi fyrir því að það er væntanlega atvinnulaust, búið að ganga út frá því að þetta væri eitthvað sem væri að taka við.

Síðan kemur fram að einungis sé um tímabundna frestun að ræða en ekki sé alfarið búið að slá þetta út af borðinu. Því langar mig að spyrja hæstv. ráðherra: Er um einhvern kostnað að ræða varðandi þessar ráðstafanir sem ríkisstjórnin er að gera? Er frestunin tímabundin eða er þessi aðgerð alfarið slegin af?