143. löggjafarþing — 32. fundur,  4. des. 2013.

efling skógræktar sem atvinnuvegar.

211. mál
[17:21]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Herra forseti. Mig langar í upphafi á stuttri ræðu um þessa ágætu þingsályktunartillögu að vitna í orðatiltæki sem hljóðar einhvern veginn svo: Gróðursettu tré, það vex á meðan þú sefur. Mér finnst orðatiltækið lýsa því mjög vel hvaða tímabil við getum verið að tala um þegar við tölum um skógrækt. Það er sannarlega langhlaup að tala um skógrækt. Það er sannarlega hægt að horfa til mjög langs tíma þegar fjallað er um áherslur og stefnumótun er varðar skógrækt á Íslandi.

Ég er einn af flutningsmönnum þingsályktunartillögunnar og er það ekki síst vegna þess að á undanförnum árum höfum við séð margt breytast í sveitum og ekki síst með tilliti til tækifæra er hafa verið gripin er snúa að skógrækt. Ég held að tímabært sé að við förum að huga að því að nýta til atvinnuuppbyggingar þá miklu fjárfestingu sem þegar liggur í þeim skógum sem búið er að planta og hafa vaxið hér á undanförnum áratugum. Það er einmitt markmið okkar sem að þessum málum standa að tekið verði föstum tökum að byggja upp alvöruatvinnugrein í kringum nýtingu skóganna, hvort sem það er til að fletta tré í borð, sem er mjög eftirsóttur viður sérstaklega til uppgerðar á gömlum húsum og til að skapa ákveðna sérstöðu sem byggingarhlutar í nýbyggðum húsum og í uppgerð gamalla húsa. Ég veit og þekki til þess að nú þegar er ágætur markaður fyrir það, eftirspurnin er mun meiri en framboðið. Það er ekki síður til að ná að byggja undir og markaðssetja afurðir er falla til vegna grisjunar skóganna og hvetja þannig til bættrar skógræktar. Það þarf að hlúa að skóginum og gæta þess að grisjunin og kraðakið þar verði ekki til þess að það komi niður á vexti annarra trjáa. Grisjunin kemur þar inn í og atvinnuvegur henni tengdur. Síðan er það varðandi beit á skóga. Nú er það svo að í nokkrum landshlutabundnum verkefnum í skógrækt hafa beitarskógar verið markmið þeirra sem hafa stundað skógrækt. Ekki síst vegna þessa er nauðsynlegt að taka stefnumótun í skógrækt föstum tökum, því að oft er þessum atriðum stillt upp hvoru gegn öðru, búfjárbeit og skógrækt, sem á alls ekki að vera. Það er sannarlega góður kostur fyrir marga sem halda sauðfé og annan búpening að planta skógi til beitar og ekki síður til að skapa skjól á jörðum í tengslum við skjólbeltarækt sem bæði bætir ræktunarskilyrði, hvort sem það er á grasi eða korni, og veitir búfé líka skjól. Það hefur sannarlega getað og hefur breytt nýtingarmöguleikum bújarða heilmikið.

Því miður hafa árekstrar á milli skógræktenda og þeirra sem stunda hefðbundna landnýtingu verið mjög áberandi. Það er ákaflega mikilvægt til að vel takist við stefnumörkun til skógræktar til lengri tíma að brúa bilið þarna á milli svo að til slíkra árekstra komi ekki. Í sjálfu sér er aldrei hægt að útiloka þá en það er vissulega hægt að vinna með það vandamál. Þar kemur að atriðum eins og að fara vel yfir skyldur hvers og eins er varðar vörslu skóga og vörslu búfjár og þar fram eftir götunum, en hin almenna regla er sú að við beitum sauðfé og það gengur kannski þar sem það velur sér. Við það eigum við að búa og þurfum eindregið að stefna að því að búa við það skipulag áfram. Því hafa þessir árekstrar verið hatrammir, því það má ekki vera svo að hið opinbera styðji við skógrækt með þeim hætti að það breyti búskaparmynstri og búsetumynstri. Því miður hefur verið reynt að hrinda slíkum breytingum í framkvæmd í sveitum þar sem ég þekki til og þar með skapað þá miklu árekstra sem ég vísaði til.

Síðan ætla ég aðeins að fjalla um hagsmuni bændaskóganna eða þessara landshlutabundinna skógræktarverkefna. Svæðisbundin skógræktarverkefni hafa á undanförnum árum verið dregin verulega mikið saman, framlög til þeirra verkefna hafa verið stórlega skert, að raungildi upp undir 30% ef ég man þá tölu rétt, sem þýðir einfaldlega það að ekki er sami krafturinn í þeim verkefnum og að var stefnt. Við erum því lengur að ná þeim markmiðum sem við ætluðum okkur að ná. Ég hef á undanförnum árum margoft sagt að það hafi verið affarasælast fyrir bændur í þeim verkefnum að stefna að því að gera búvörusamning um skógræktina rétt eins og við gerum búvörusamninga við hið opinbera í öðrum búgreinum þar sem við getum stillt upp markmiðum okkar með því að stunda slík verkefni, hverjar skyldurnar eru og hver hlutverkin eru. Þar inni mætti sannarlega taka enn og betur utan um leiðbeiningarþáttinn. Landshlutabundnu skógræktarverkefnin reka í dag öfluga leiðbeiningarþjónustu sem í mínum huga getur vel átt heima inni í annarri leiðbeiningarþjónustu sem landbúnaðurinn rekur á vettvangi félagasamtaka bænda, þeirra frjálsu félagasamtaka, og síðan í rannsóknum í kringum skógrækt.

Í mínum huga er það ákaflega þarft mál að hið opinbera eða ríkisstjórnin taki stefnumótun í skógrækt á Íslandi mjög föstum tökum til að nýta þau fjölmörgu tækifæri sem hv. þm. Jón Gunnarsson, framsögumaður tillögunnar, tíundaði í ræðu sinni. Tímabært er að við horfum til fjölþættrar skógarnýtingar, fjárfestinga í skógrækt og möguleika okkar til að efla og styrkja byggð á Íslandi.