144. löggjafarþing — 32. fundur,  13. nóv. 2014.

fjárframlög til háskóla.

[11:01]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt sem hv. þingmaður bendir á að á undanförnum árum, m.a. í kjölfar hrunsins, hefur nemendum fjölgað við háskólastofnanir, en að hluta til er það líka vegna þess að unnið hefur verið meðvitað að því að fjölga háskólanemendum og bregðast þar við því að of lágt hlutfall Íslendinga hefur til langs tíma haft slíkt próf.

Það er alveg hárrétt að háskólasamfélagið allt, ekki bara Háskóli Íslands, hefur verið í nokkrum vanda statt. Halda má því fram með gildum rökum að ekki hafi verið látið renna fjármagn til háskólanna á sínum tíma í réttu hlutfalli til að mæta þeirri aukningu sem varð, sérstaklega á síðasta ári og rekja má til hrunsins.

Þá kemur auðvitað umræðan um forgangsröðun. Ég treysti mér til að nefna nokkur dæmi um verkefni sem ráðist var í á þeim tíma, þ.e. á þeim árum sem fjölgun varð, þar sem fjármunir voru settir í verkefni sem ég tel að hefði verið betur varið til að mæta nemendafjölda í háskólunum og gera háskólunum betur kleift að fást við þá fjölgun. Það er liðin tíð.

Ég vil benda á að í því fjárlagafrumvarpi sem nú liggur fyrir er gert ráð fyrir að framlög til háskólamála muni hækka. Annars vegar er þar um að ræða 460 millj. kr. til að hækka ákveðna reikniflokka til þess að gera háskólunum betur kleift að sinna þeirri þjónustu sem þeir eiga að gera. Það var alveg ljóst að hækka þurfti þessa reikniflokka.

Hins vegar er verið að setja töluvert mikla aukningu í fjárlagafrumvarpinu í vísindasjóðina, tækniþróunarsjóðina, sem nýtast um leið líka háskólasamfélaginu og eru í samræmi við þá stefnumörkun sem Vísinda- og tækniráð hefur lagt upp með og þá vinnu sem þar hefur verið unnin með því að hækka framlag jafnt og þétt til vísindarannsókna á þessu stigi og ljóst má vera að (Forseti hringir.) nýtist háskólasamfélaginu.